13.12.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

1. mál, fjárlög 1981

Páll Pétursson:

Herra forseti. Allir þm. úr Norðurl. v. eru samtaka um að byggja höfn á Blönduósi. Það er höfuðnauðsyn á þessari framkvæmd. Þarna er um að ræða mestu vöruflutningahöfn við Húnaflóa. Ég veit ekki hvort menn hafa kynnt sér þau hafnarskilyrði sem þar er búið við. Þar er bryggjustúfur út í opið haf. Það er ekki nema endrum og sinnum hægt að hemja skip við þennan bryggjustúf og verða þó stærri skip að standa aftur af honum. 70% af þeim vöruflutningum, sem þarna fara fram, af þeirri uppskipun sem þarna er gerð, verður að gera í nætur- eða helgidagavinnu vegna þess að skipstjórnarmenn, ef þeir komast þarna inn á annað borð í sæmilegu veðri, þora ekki að bíða því að hann er fljótur að rjúka upp þarna. Við erum sem sagt sammála um að fara í þessa framkvæmd og þess vegna segi ég að sjálfsögðu já.