15.12.1980
Efri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

156. mál, tímabundið vörugjald

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Fyrir hönd hv. alþm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem er skráður frsm., fjh.- og viðskn., mæli ég hér fyrir nál. meiri hl. Nefndin hefur fjallað um 156. mál deildarinnar, sem er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 107 30. des. 1978, um sérstakt tímabundið vörugjald, sbr. lög nr. 33 29. maí 1980, um breyt. á þeim lögum.

Frv. sem þetta mun vera gamall kunningi hv. alþm., þar sem hér er um endurnýjun eða framlengingu eldri laga að ræða, og felur í sér framlengingu á innheimtu sérstaks vörugjalds, sem samkv. beinum ákvæðum laganna fellur úr gildi frá og með n.k. áramótum. Er nú lagt til að gjald þetta skuli greiða til og með 31. des. 1981. Í forsendu frv. til fjárlaga fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir að lög þessi verði framlengd óbreytt. Jafnframt framlengingu á gildistíma laganna er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á einstökum greinum. Er gerð grein fyrir þeim í aths. við frv. Þar mun einkum vera um að ræða að leitast er við að kveða sem skýrast á um ákvörðun vörugjaldsstofns og innheimtu sérstaks vörugjalds að öðru leyti. Einnig er lagt til að tekið verði upp í lögin ákvæði er feli í sér nánari skilgreiningar á verksmiðjuverði innlendrar framleiðsluvöru og vöru sem fær einhverja vinnslumeðferð eða pökkun hér á landi, og skal það lagt til grundvallar útreikningi sérstaks vörugjalds.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv., en í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. segir:

„Nefndin hefur rætt frv. og mælir meiri hl. hennar með samþykkt þess.“

Undir þetta skrifa hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, Guðmundur Bjarnason, Davíð Aðalsteinsson, Gunnar Thoroddsen og Kjartan Jóhannsson, en hann undirritar nál. með fyrirvara.