15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

152. mál, biskupskosning

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil strax segja mína afstöðu varðandi brtt. þá sem hér liggur fyrir, að ég er henni andvígur og mun greiða atkv. gegn henni.

Í mínum huga er það sjálfsagt mál að auka lýðræði innan kirkjunnar. Ég er þó ekki með því að segja að það eigi að taka allt saman gott og gilt sem frá kirkjuþingi kemur. Hv. þm. muna líklega allar þær umræður sem átt hafa sér stað út af þeirri skoðun og þeirri beiðni kirkjuþings að breyta lögum um prestskosningar. Ég tel að eftir þeirri beiðni kirkjuþings eigi alls ekki að fara. Þá væri verið að draga úr lýðræði frá því sem nú er. En hér er spurningin um hvort það á ekki að auka lýðræðið.

Hv, flm. brtt. sagði áðan að frv. væri prýðilegt eins og það lægi fyrir. Mér sýnist að hún segi með þessu að frv. sé prýðilegt að öðru leyti en því að leikmenn megi ekki kjósa núna, þeir verði að bíða. Þetta get ég ekki fallist á. Með þessu er verið, að mínu viti, að lýsa algjöru vantrausti á þá leikmenn sem samkv. frv. ættu að fá að taka þátt í biskupskjöri núna, en hv. flm. brtt. vill ekki að fái þann rétt. Það er algjört vantraust á þessa aðila og það kom raunar berlega í ljós í ræðu hv. flm. brtt. núna síðast, þegar kom að því að hún taldi að með frv. eins og það væri núna gætu þessir einstaklingar raunverulega ráðið því hver yrði fyrir valinu sem biskup næst.

Þarna er um fullkomið vantraust hv. þm. að ræða á þeim sem eiga nú samkv. frv. að fá að taka þátt í biskupskjöri, en ekki hafa fengið það til þessa. (GHelg: Er það vantraust á Alþ. að það geti ekki breytt kjördæmaskipan?) Ég er að tala um vantraust á þá sem hér er verið um að ræða.

Ég er sammála hv. flm. um að hér eigi að ræða málin. Okkur greinir ekki á í því. En ég er ósammála þessu atriði. Ég vænti þess að í þessu máli sem og sumum öðrum fari Alþ. að beiðni kirkjuþings og þeirri beiðni hæstv. kirkjumrh. að samþykkja frv. eins og það var lagt fram. Ég ítreka andstöðu mína við þá brtt. sem hér hefur verið lögð fram.