15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér virðist á seinni ræðu hæstv. ráðh. að hann hafi verið utan við sig út af því sem ég var að tala um eða þá að hann hefur vísvitandi, sem ég vil nú síður trúa þó að ég neyðist kannske til þess, viljað snúa út úr og rangfæra það sem ég sagði.

Ég var ekki að spyrja um hvað hefði verið gert. Mér var kunnugt um hvað var gert í samningunum við ASÍ. Það, sem ég var að spyrja um, var einfaldlega hvernig það mætti vera að núv. hæstv. fjmrh. neitaði alfarið félögum innan ASÍ um sambærileg lífeyrisréttindi og hann samdi um við BSRB. Það var spurningin. Það var við þeirri spurningu sem ég bjóst við að fá svar. (Fjmrh.: Þú fékkst það.) Ekki er það svo í mínum huga.

Mér er fullkomlega kunnugt um það sem ríkissjóður lét af hendi rakna við þá samningsgerð sem fram fór í lok október s.l. og varðaði lífeyrismál. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það líka, sem hann annað hvort veit ekki um eða hefur ekki viljað tala um, að sjóðfélagarnir sjálfir í lífeyrissjóðum innan aðildarfélaga ASÍ tóku á sig kvaðir vegna þessa. Hæstv. ráðh. veittu þessum sjóðfélögum innan Alþýðusambandsins góðfúslegt leyfi til að láta meira fé af hendi rakna úr sjóðum sínum til að bæta upp lífeyrinn. Þetta var einn þátturinn í samkomulaginu: Blessun hæstv. fjmrh. og félmrh., að sjóðirnir mættu sjálfir greiða meira. Þetta var allt örlætið.

Mér var fullkunnugt um hvað gerðist að því er varðaði tekjutryggingu og eftirlaun til aldraðra. Það var ekki mín spurning. Spurningin var einfaldlega sú, hvernig það gæti gerst, að Alþýðubandalagsráðherra mismunaði svo lífeyrisþegum hér á landi sem raun ber vitni þegar bornir eru saman þessir tveir hópar. Það var spurningin.

Mörgum mun hafa þótt nóg um það misrétti, sem var ríkjandi annars vegar innan lífeyrissjóðs BSRB og hins vegar innan hinna almennu lífeyrissjóða hjá ASÍ, þó að ekki bættist við. En það hefur gerst. Útreikningar, sem voru lagðir á borð í þessum samningum, sýna að verulega hefur verið aukið á misréttið og var það nóg fyrir. Það ætti hæstv. ráðh. að vera kunnugt um. Hann ætti því ekki að tala eins og hann talaði áðan, nema hann sé vísvitandi að reyna að blekkja vegna þess að hann telur stöðu sína hæpna miðað við fyrri yfirlýsingar úr herbúðum eigin flokks.

Það mun vera rétt að Alþfl. hefur lengi átt heilbr.- og trmrh. og félmrh. Það er ekki ágreiningsefni í þessu máli. Ég er á engan hátt að hlífa þeim fyrir að hafa ekki gert meira þó að hæstv. núv. fjmrh. vilji skjóta sér á bak við það vegna þeirrar sjálfheldu sem hann sjálfur er kominn í og hans flokkur vegna fyrri afstöðu og þeirrar sem nú liggur fyrir.

Ég vísa því alfarið á bug sem rógi og níði, að ég hafi verið að innleiða í umr. á Alþ. róg og níð í garð opinberra starfsmanna. En það er engu líkara en hæstv. ráðh. hafi ákveðið staðfastlega að í hverju máli, sem hann talar um í þinginu hina síðustu og verstu daga, beri hann annað hvort ljúgvitni eða brigsli mönnum um allt annað en þeir hafa sagt í ræðustól.

Ég spyr enn: Hver var ástæðan fyrir því, að hæstv. fjmrh. misbauð mönnum svo herfilega sem raun ber vitni, játaði annars vegar lífeyrisréttindum í sambandi við BSRB-samningana neitaði þeim hins vegar í sambandi við þá samninga sem gerðir voru hjá ASÍ? Má búast við að þessu verði haldið áfram eða ætlar hæstv. ráðh. að taka breytingu í afstöðu til þessa máls og láta lífeyrissjóðsþega innan Alþýðusambandsins hafa meiri réttindi en nú er, — réttindi sem eru nær því að vera í samræmi við það sem hann samdi um við BSRB? Þetta er spurningin og það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að víkja sér undan að svara. Það verður eftir því tekið, hvort og þá hvernig hann svarar. Það er spurningin í dag.