16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessum umr., en ég gat ekki á mér setið eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðh.

Ég vara eindregið við því, að þm. ákveðinna kjördæma sé gefið það vald að geta ýtt til fjármunum í kjördæmum sínum þannig að til framkvæmda sé stofnað áður en þær hafa verið rannsakaðar fullkomlega af þar til hæfum aðilum sem fara með þessi mál hér í landinu. Hitt er svo annað mál, að það er áreiðanlega alveg rétt, sem hefur komið fram í þessum umr., að þessi brú, sem mun sjálfsagt kosta 4 – 5 milljarða, er ekkert sérstaklega dýr í samanburði við einn togara. Af því að hæstv. samgrh. er einnig hæstv. sjútvrh. gat ég ekki á mér setið að koma í ræðustól og segja: Mikið skelfing hefði ég frekar viljað sjá togað úr einum togara þannig að hann næði yfir Ölfusá í stað þess að koma honum niður í Norðurlandskjördæmi eystra í Þórshöfn og Raufarhöfn og svæðinu þar í kring. Það kemur áreiðanlega til með að gera mjög mikinn skaða. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að komið hefur í ljós að ríkisstj. hefur ráðstafað einum togara þarna fyrir norðan og það hefur þurft að toga þær upplýsingar út úr hæstv. ríkisstj., en á sama tíma er fyrirstaða við brúna yfir Ölfusá af skiljanlegum ástæðum. Ég bendi á þetta því að þessi brú kostar eitt togaraverð.