19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir því, sem er ekki nýtt fyrir hv. þm., að ríkisstj. hefur boðað aðgerðir í efnahagsmálum í tengslum við gjaldmiðilsbreytinguna. Forsrh. lýsti þessu yfir í sinni stefnuræðu sem hann flutti á sinum tíma hér í þinginu, og þetta kemur einnig fram í aths. við fjárlagafrv. Ég get því við þetta tækifæri endurtekið þessi ummæli forsrh. og það sem fram kemur í aths. við fjárlagafrv. á ábyrgð hæstv. fjmrh. og ríkisstj.

Varðandi hitt atriðið, hvenær þessar aðgerðir verði gerðar, tók ég það ákaflega skýrt fram í mínum ræðum hér, að ég vildi ekki nefna neina dagsetningu. Og það var hreinlega vegna þess að ég vissi ekki um það. Ég var ekki fær um að segja til um hvenær ríkisstj. yrði tilbúin með sínar tillögur og aðgerðir í efnahagsmálum. Þess vegna vildi ég ekki nefna dagsetningar og vil ekki gera það enn. En ég vil endurtaka það, að vitanlega verða þessi mál rædd á Alþingi, það gefur auga leið.