19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

1. mál, fjárlög 1981

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Í fjárlagafrv., 5. gr. lið 246, er gert ráð fyrir 94 millj. 614 þús. kr. til Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði. Í aths. við þennan lið í frv. kemur fram, að af þessari fjárhæð eru 40 millj. ætlaðar til borunar eftir heitu vatni fyrir Laxeldisstöðina, sem er 40% kostnaðar, en 60% verður fjármagnað með láni úr Orkusjóði.

Nú stendur þannig á að hreppsnefnd Kjalarneshrepps hefur verið að kanna möguleika á að fá hitaveitu í hreppinn, annaðhvort með borun eða með kaupum á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur í gegnum Mosfellshrepp. Það hefur verið starfandi hitaveitunefnd á vegum hreppsfélagsins, sem hefur verið að vinna í þessum málum, og það hefur verið lagt í mikinn kostnað við kannanir í þeim efnum. Kjalarneshreppur er fámennt sveitarfélag, með innan við 300 íbúa, og þarna er sveitarfélagið að ráðast í fjárfreka framkvæmd og þarf á samvinnu og þátttöku allra aðila í sveitarfélaginu að halda, eins og t.d. þeim ríkisfyrirtækjum sem eru í Kollafirði, þ.e. Laxeldisstöðinni og Skógrækt ríkisins. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið leitað eftir samvinnu við Laxeldisstöðina, en það hefur ekki fengist jákvætt svar þar sem forráðamenn stöðvarinnar telja fyrirtækið ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að kaupa vatn hjá væntanlegri hitaveitu hreppsins, en ætla þess í stað að bora eftir vatni sjálfir.

Ég tel nauðsynlegt að geta þessa máls við 3. umr. um fjárlagafrv. því að mér finnst það ekki vera einkamál eins ríkisfyrirtækis að leggja 40 millj. í borun eftir heitu vatni á sama tíma og fyrirhuguð hitaveita er á döfinni á vegum hreppsfélagsins. Ég hef því leyft mér að leggja fram brtt. við þennan lið ásamt hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, Ólafi G. Einarssyni, Kjartani Jóhannssyni, Karli Steinari Guðnasyni og Jóhanni Einvarðssyni.

Þessi brtt. er á þskj. 363. Hún er í þá veru, að það komi fram að þessar 40 millj. fari í öflun á heitu vatni fyrir Laxeldisstöðina í samvinnu við Kjalarneshrepp. Þetta er sem sagt aðeins breyting á texta. Brtt. hljóðar því ekki upp á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er einungis um það að ræða, að fram komi að öflun á heitu vatni fyrir Laxeldisstöðina verði í samvinnu við hreppsfélagið.

Það er rétt að láta það koma skýrt fram, að ekki er verið að taka neitt frá Laxeldisstöðinni, heldur einungis verið að reyna að tryggja að sú leið, sem verður farin í hitaveitumálum þessara aðila, sé sú hagkvæmasta fyrir þá báða. Hins vegar væri nægjanlegt ef hæstv. landbrh. gæti gefið yfirlýsingu um það, að þó að þess sé ekki getið sérstaklega í fjárlagafrv. fái sveitarfélagið að fylgjast með framvindu mála hjá Laxeldisstöðinni með það í huga að samvinna verði þarna á milli aðila. Ég spyr því hæstv. landbrh. hvort ekki megi ganga út frá að svo verði. Treysti hæstv. landbrh. sér til að gefa slíka yfirlýsingu erum við tilbúin að draga tillöguna til baka.