27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

115. mál, Blönduvirkjun

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að tímabært er orðið og mjög mikilvægt, ekki eingöngu fyrir Norðurland vestra og Norðurland eystra, heldur landið allt, að ákvörðun verði tekin um virkjun Blöndu. Á ráðstefnu, sem haldin var á Akureyri fyrir nokkrum dögum þar sem fjallað var um virkjunarmál og orkumál almennt hér á landi, kom mjög skýrt fram hjá þeim sérfræðingum, sem um þau mál fjalla, að virkjun Blöndu er langhagkvæmasti virkjunarkosturinn sem nú er fyrir hendi.

Það fer ekki milli mála að hann er orðinn Íslendingum ærið dýrkeyptur, sá ágreiningur sem upp hefur komið um virkjunarmál. Ég vænti þess fastlega að samkomulag takist í þeirri deilu sem nú hefur risið á Norðurlandi vestra, sem er að vísu deila á milti tiltölulega fámenns hóps annars vegar og hins vegar yfirgnæfandi fjölda íbúa kjördæmisins. Ég vil minna á þær deilur sem komu upp vegna Laxárvirkjunar. Nú standa mál svo í Norðurlandskjördæmi eystra, að Laxárvirkjun er hægt að stækka um 28 mw. með sáralitlum tilkostnaði, en því miður strandar það á ágreiningsmáli sem kom þar upp fyrir nokkrum árum.

Ég vil líka minna á það í þessu sambandi, að Framkvæmdastofnun eða starfsmaður hennar hefur gert mjög nákvæma úttekt á nauðsyn á fjölgun atvinnutækifæra í iðnaði á Norðurlandi á næstu árum. Þar kemur fram að brýna nauðsyn ber til að fjölga atvinnutækifærum í iðnaði um nokkur hundruð á næstu 10 árum. Ég vil þess vegna leggja hart að hæstv. iðnrh. að hann geri nú umtalsvert átak í því að láta hefja framkvæmdir við virkjun Blöndu og — ef ég mætti orða það svo — blandi þar ekki saman við Fljótsdalsvirkjun sem mér er auðvitað fullljóst að hann ber af eðlilegum ástæðum fremur fyrir brjósti en Blönduvirkjun.