27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

115. mál, Blönduvirkjun

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að sú umræða, sem hér hefur farið fram nú, lýsi raunverulega þeim miklu áhyggjum sem allur þingheimur hefur af þróun atvinnumála á Íslandi á næstu árum. Talið er að það þurfi um 30 þús. ný atvinnutækifæri á Íslandi fram til ársins 2000. Er talið að í iðnaði þurfi atvinnutækifærum að fjölga úr 17 900 í 24 þús. Þetta tengist óneitanlega því, að hér þurfa að fara fram mjög umtalsverðar orkuframkvæmdir, og ég er sannfærður um að hver einasti þm., sem situr hér inni, er þeirrar skoðunar, að það þurfi að stórauka og stórefla allar virkjunarframkvæmdir hér á landi. Þessar umræður segja okkur einfaldlega þá sögu að áhyggjur okkar allra af atvinnumálunum í nánustu framtíð séu orðnar mjög umtalsverðar og mjög verulegar. Þess vegna er þetta samtengt, orkumálin og atvinnuuppbygging þjóðarinnar, vegna þess að við leitum ekki að atvinnutækifærum annars staðar en í iðnaði. Það er ljóst að sjávarútvegur mun ekki taka til sín neitt umtalsvert vinnuafl á næstu 20 árum. Talið er að í landbúnaði muni fækka um 2300. Þetta eru þær spár, sem hafa verið gerðar um atvinnuþróun hér á landi, og ef Ísland ætlar sér að fylgja öðrum Norðurlöndum um efnahagsleg lífskjör, og ef við ætlum að tryggja fulla atvinnu fyrir allt vinnufært fólk í landinu við arðbær störf og stöðva nettóbrottflutning af landinu, þá verðum við að gera stórátak í virkjunarmálum. Er ég þá ekki eingöngu að tala um Blönduvirkjun og ekki Fljótsdalsvirkjun, heldur að hafa undir þrjár virkjanir í einu.