27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

115. mál, Blönduvirkjun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að ítreka þá fsp. sem hv. þm. Karvel Pálmason beindi til hæstv. iðnrh. áðan og hæstv. ráðh. hefur látið ósvarað. Ef hæstv. ráðh. hefur ekki aðstöðu til að svara slíkum fsp. í þessari umræðu, sem vel má vera að hann hafi ekki, þá er vissulega ástæða til þess, herra forseti, að flytja fsp., sem hv. þm. Karvel Pálmason kom fram með hér áðan, með þinglegum hætti þannig að ráðh. geti svarað henni með slíkum hætti.

Ég vil aðeins benda á að það er ekki alveg rétt, sem hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson sagði, að þetta ástand í orkumálum hafi átt að koma mönnum á óvart. Ég minni á að á sínum tíma var gerð orkuspá þar sem því var haldið fram, að neyðarástand mundi skapast í orkumálum hér á landi 1978 – 1979 ef Krafla yrði þá ekki komin í fulla framleiðslu. Að vísu reyndist svo ekki vera. En það, sem lá fyrir, var að Krafla mundi ekki komast í gagnið. Þá átti að vera séð að ástandið með Kröflu mundi skapa raforkuskort, þannig að þetta átti ekki að geta komið hæstv. iðnrh. á óvart. Hæstv. iðnrh. brást við þessu með því að skipa fjöldann allan af nefndum og starfshópum, og býst ég við að enginn ráðh. á Íslandi hafi skipað jafnmargar nefndir og jafnmarga starfshópa og hæstv. iðnrh., en það hefur bókstaflega ekkert út úr þessum málum komið enn. Hæstv. ráðh. hefur ekkert aðhafst í þessum málum annað en að skipa hvern starfshópinn ofan á annan og hverja nefndina á aðra ofan. Og það er einkennilegt og hörmulegt til þess að vita, að á sama tíma og hæstv. ráðh. og hv. þm. Páll Pétursson standa þverir í vegi fyrir því, að íslenskur almenningur geti bætt lífskjör sín með því að nýta hið hvíta gull, sem Ísland á, þ.e. nýta orkuna til orkufreks iðnaðar, þá berst, má segja, neyðarkall frá kjördæmi sjálfs hæstv. iðnrh., þar sem sveitarstjórnarmenn og kjósendur hæstv. iðnrh, sameinast um beiðni til Alþingis um að slík framkvæmd fari í gang í kjördæmi hans. Sá maður, sem einna helst stendur í vegi fyrir því að það sé gert, er hæstv. iðnrh. sjálfur.