02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eftir síðustu svör hæstv. ráðh. er tvennt ljóst.:

Í fyrsta lagi hefur ríkisstj. ekki í hyggju að lækka skatta, borið saman við s.l. ár. Hefur þá hv: þm. Guðmundur G. Þórarinsson haft rétt fyrir sér í því efni þegar við ræddumst við í sjónvarpsþætti fyrir skömmu, að allt, sem ríkisstj. sagði í þessum efnum, væri sjónarspil til þess gert að glepja og blekkja menn.

Í öðru lagi vil ég gera örstutta aths. við þær heildstæðu ráðstafanir í efnahagsmálum sem hæstv. fjmrh. gumar svo mjög af. Það hefur ekkert gerst í efnahagsmálum síðan þingi var frestað fyrir jól nema vaxtahækkunum hefur verið frestað lítillega. Það er allt og sumt.