02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki víst að ég og hæstv. forseti séum samdóma um það hvað verður stutt. (Forseti: Þá ræður forsetinn).

Það hefði vissulega verið ástæða til að fara örfáum orðum um frammíkall varaforseta þessarar deildar, en ég held að ég láti það ekki verða vegna þess að hæstv. forseti hefur þegar sneypt sinn undirmann nægilega til að gera þm. grein fyrir því, hver það er hér sem ræður og hver það er hér í forsetastól sem hefur hvað mest vit til að skynja hvað er eðlilegt og nauðsynlegt hverju sinni að ræða.

En það var hæstv. fjmrh. sem kom mér til að standa hér upp. Hann er að vísu farinn úr salnum. — Nú, er hann þarna?

Það örlar enn einstaka sinnum á því, að brot af hinum góða dreng, sem hugsanlega hefur búið í hæstv. fjmrh. þegar hann lenti í þeim söfnuði sem hann nú er í, komi í dagsljósið, þó ekki nema örlítið brot af þeim góða dreng, sem hugsanlega hefur búið í hæstv. fjmrh. þegar hann tók sæti í núv. hæstv. ríkisstj., því hvað er nú meira sjónarspil en það sem hæstv. fjmrh. var að lýsa áðan í síðustu ræðu sinni. Hann sagði: Við treystum okkur ekki, þ.e. hæstv. ríkisstj. og auðvitað fylgifiskar hennar, til að framkvæma þá kjaraskerðingu, sem brbl. gera ráð fyrir, nema því aðeins að lofa um leið skattalækkun. — Og svo sagði fjmrh. áfram: Sú heimild, sem fyrir hendi er í gildandi fjárlögum, þ.e. 3 milljarða kr. lækkun opinberra framkvæmda, var ekki svo trúverðug að launafólk léti sannfærast um að við ættuðum að framkvæma skattalækkun. Við þurftum því að fá frekari heimild, en við ætlum ekki að nota hana. — Sjónarspilið er það að þykjast ætla að lækka skatta um meira en ca. 3 milljarða með heimild í brbl., en ætla sér ekki að notfæra þá heimild. Það fullyrti hæstv. fjmrh. líka aðan. (Fjmrh: Að hún yrði ekki notuð?) Já, að hún yrði ekki notuð. Eða hvað þýða orðin hjá hæstv. fjmrh., sem hann sagði orðrétt, að það væri ekki þar með sagt að hún yrði nokkuð notuð? (Fjmrh: Það er allt annað mál.) Hvað þýðir það? (Gripið fram í.) Nei, ég verð að viðurkenna að ég skil ekki það orðalag sem hæstv. fjmrh. þarf að tíðka hér í umr.

Ég skil þetta svo, að það sé nokkuð ljóst að þetta ákvæði í brbl. sé einungis sett þar til að setja á svið sjónarspil fyrir launafólk svo að það standi í þeirri meiningu að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að lækka skatta meira en hún hefur þegar heimild til samkvæmt fjárlögum með niðurskurði á opinberum framkvæmdum. Og ég vil aðeins minna á að það kveður við nokkuð annan tón núna hjá hæstv. fjmrh. og ríkisstj. en gerði allt s.l. ár, þegar hæstv. fjmrh. í fararbroddi í fylkingunni harðneitaði öllum skattalækkunum til handa láglaunafólki í tíu mánaða samningaþófi undir handarjaðri hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar. Þá var stanslaust í tíu mánuði harðneitað öllum skattalækkunum til handa láglaunafólki, sem áttu þó að geta og gátu orðið miklu betri kjarabót fyrir láglaunafólk en þeir samningar sem gerðir voru og nú er búið að kippa grundvelli undan og draga alla til baka. Hér er því á ferðinni slíkt sjónarspil að það hlýtur að því að koma fyrr en seinna að almenningur í landinu átti sig á því.

Þetta er aðeins fyrsta útspil hæstv. ríkisstj. Ef hún ætlar sér að gera meira í raunhæfni hlýtur að koma að því að fólk fer að átta sig á þessu. Ræða hæstv. fjmrh. áðan ber einmitt keim af því að nú séu hæstv. ráðh. orðnir svo ruglaðir sjálfir í þessu máli að þeir eru þegar farnir að vefja ofan af því sem þeir voru að segja í kringum áramót, um það leyti sem brbl. voru gefin út. Það er illa farið.

Að sjálfsögðu ann ég hæstv. fjmrh. alls hins besta. Það er illa farið ef svo fer sem mér sýnist horfa, að allur sá góði drengur, sem hugsanlega hefur búið í hæstv. fjmrh., hverfur á örskammri stundu í þessum söfnuði.