03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Skrapdagar þeirra togara, sem til eru í landinu, fara nú að nálgast hálft árið. Hver togari, sem bætist við, fjölgar skrapdögum og hlýtur sú ástæða að vega þungt á móti fjölgun skipa. Fjárfestingin er orðin nægileg í sjávarútvegi og raunar öðrum atvinnugreinum og þegar verið er að bæta við mjög dýrum skipum handa mjög litlum plássum, sem varla ráða við togara, er það óskynsamlegt og kemur niður á þeim sem stunda veiðarnar fyrir. Á þetta við fleiri togara en þennan, líka Skagastrandartogara og þá ekki síður Hólmavíkurtogara. Það er óskynsamlegt að ráðast í þessa fjárfestingu. Þessi togari gæti fiskað brúttó fyrir fjármagnskostnaði, en engum kostnaði öðrum, ekki einu sinni vinnulaunum.