09.02.1981
Efri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, flytjum við þm. Alþfl. í þessari deild. Það eru ásamt mér Eiður Guðnason og Karl Steinar Guðnason. Það fjallar um bætt kjör sparifjáreigenda, íbúðabyggjenda og íbúðakaupenda.

Ég held að það sé ljóst, að við núverandi kerfi hafi tveir þjóðfélagshópar sérstaklega orðið út undan og á þeim verið níðst. Þessir tveir þjóðfélagshópar eru annars vegar ungt fólk, sem þarf að eignast þak yfir höfuðið, og hins vegar sparifjáreigendur. Framkvæmd vaxtastefnu hefur bitnað mjög harkalega á þessum tveimur þjóðfélagshópum. Frv. er flutt í þeim tilgangi að bæta hag sparifjáreigenda og efla sparnað í landinu með því að gefa fólki kost á að verðtryggja sparifé án bindingarþvingana og í annan stað til þess að koma til móts við húsbyggjendur með því að innleiða sérstakan lánaflokk til húsbyggjenda í viðskiptabönkunum til viðbótar við lán Húsnæðisstofnunar og lífeyrisssjóða og ná með þeim hætti því markmiði að hækka lánshlutfall af byggingarkostnaði og auðvelda fólki þannig að komast yfir eigið húsnæði, jafnframt að minnka og jafna greiðslubyrði vegna íbúðabygginga og íbúðakaupa og að létta af húsbyggjendum byrði skammtíma-, víxil- og vaxtaaukalána sem er orðin illbærileg kvöð, illbærilega þung, og hefur í för með sér mjög mikla fyrirhöfn og örðugleika fyrir fólk.

Ég held að staða þessara tveggja þjóðfélagshópa verði e.t.v. best skýrð með einföldum dæmum. Við getum tekið sem dæmi sparifjáreiganda sem á peninga á almennri sparisjóðsbók. Ef í landinu eru 15% neikvæðir vextir að því er varðar sparifé á almennri bók „t.d. 37% vextir og 52% verðbólga ríkjandi, mun raunvirði innstæðunnar að sex og hálfu ári liðnu vera orðið helmingur af því sem það var í upphafi. Raunvirði innstæðunnar helmingast þá á sex og hálfu ári og eftir tíu ár er raunvirði innstæðunnar komið niður í rúman þriðjung eða 35%. Nú er það reyndar svo, að hér er 60% verðbólga, en ekki 52% verðbólga og vextir á almennum sparisjóðsbókum munu vera um 37%. Hvað gerist við þessar aðstæður? Jú, raungildi innstæðunnar helmingast á fjórum og hálfu ári. Eftir fjögur og hálft ár hefur innstæðan helmingast að raungildi. Eftir fjögur og hálft ár hefur helmingnum af því fé, sem lagt var inn, í raun og sannleika verið stolið. Þetta er auðvitað þeim mun harkalegra sem við vitum af ýmsum gögnum að sparifjáreigendur eru einkum og sér í lagi roskið fól — fólk sem vill eiga nokkra peninga til þess að vera öruggt í ellinni. Það er þannig verið að helminga eignir þess á 41/2–6 árum við núverandi aðstæður. Það er verið að stela af því helmingnum af eign þess á þessu árabili.

Lítum svo aftur á hinn þjóðfélagshópinn, íbúðarkaupandann, og skoðum einfalt dæmi af því, hvernig staða hans er í þjóðfélaginu. Við getum tekið dæmi af íbúð sem kostar 40 millj. kr. samkv. gömlum krónum eða 400 þús. nýkrónur og að útborgun sé 320 þús. kr. Þetta mun ekki fjarri lagi. Við getum verið svo bjartsýn að segja að þessi maður eigi 60 þús. kr. eða 6 millj. gkr. eða gæti aflað þess að hluta þá á kaupárinu, þetta sé það fé sem hann geti lagt af eigin rammleik í íbúðarkaupin. Við skulum líka vera svo vinsamleg að segja að hann fái G-lán upp á aðrar 60 þús. nýkr. og lífeyrissjóðslán upp á 80 þús. Þá eru alls komnar 200 þús. upp í þessa útborgun, sem er 320 þús. kr. Hann þarf engu að síður að taka önnur lán, útvega sér annað fé upp á 120 þús. kr. eða 12 millj. gkr. Við núverandi aðstæður má hann sjálfsagt teljast heppinn ef hann fær slíkt lán til tveggja og hálfs árs.

En hver er þá greiðslubyrði þessa manns af þeim lánum, sem hann hefur tekið, strax á fyrsta ári? Mér reiknast svo til, að miðað við febrúarverðlag muni hún vera 58 850 kr. eða tæpar 6 millj. gkr. (StJ: Raunvaxtastefnan?) Þetta er ekki raunvaxtastefnan. Þetta er sú stefna sem ríkisstj. framkvæmir, og ég bið hv. þm. um að sitja hér og hlusta á málflutning minn til þess að komast að raun um hvernig sú ríkisstj., sem hann styður, hefur níðst á sparifjáreigendum og húsbyggjendum út í rauðan dauðann. — Þessum manni er, samkvæmt þeirri stefnu sem ríkisstj. fylgir og framkvæmir, gert að borga 5.9 millj. kr. strax á fyrsta árinu. Þetta eru 55% af atvinnutekjum verkamanns á sama verðlagi. Er það ekki augljóst mál, að maðurinn getur ekki staðið undir þessu? Íbúðarkaupandinn getur ekki undir þessu risið. Hvað gerir hann til að bjarga sér? Hann er dæmdur til að taka nýtt lán til að borga af gamla láninu. Það er sú stefna sem fylgt er hér í reynd, að menn eiga að vera á eilífum þönum og snöpum milli bankastjóra og helstu ættingja og vina til að bjarga því að komast yfir íbúð.

Það frv., sem hér er flutt, er flutt til að tryggja hag beggja þeirra aðila sem hér um ræðir. Greiðslubyrði þessa íbúðarkaupanda yrði 1.86 millj. gkr. á febrúarverðlagi eða 18 625 nýkr., ef það frv., sem hér er lagt fram, yrði samþykkt. Hún yrði 17.4% af atvinnutekjum þessa verkamanns í staðinn fyrir að ríkisstj. ætlast til þess, að hann geti staðið við og lagt í að taka á sig 55% af atvinnutekjum sínum. Það frv., sem hér er flutt, ef að lögum yrði, mundi tryggja að greiðslubyrði þessa manns færi úr 58 850 kr. niður í 18 600 kr. og sparifjáreigandinn ætti raunverulega sparifé sitt verðtryggt. Hið raunverulega sparifé sitt ætti hann að fullu verðtryggt samkvæmt því frv. sem hér er flutt.

Ég tel að það sé til marks um efnahagslegt öngþveiti, að ungu fólki, sem þarf að eignast þak yfir höfuðið, er ætlað að afla allt upp í 2/3 til 3/4 af íbúðarverði með skammtímalánum og eigin fé. Þessu fylgir ekki bara öryggisleysi, heldur líka vinnuþrældómur úr hófi fram. Með samþykkt þessa frv. yrði stigið stórt skref í átt til eðlilegrar lánafyrirgreiðslu vegna íbúðarkaupa. Lágmarkslán Húsnæðisstofnunar yrðu þá 35% af verði staðatíbúðar og það yrði tekinn upp nýr lánaflokkur innan bankakerfisins sem veitti viðbótarlán til langs tíma sem næmi hálfu láni Húsnæðisstofnunar. Þannig væru heildarlán þessara tveggja aðila, Húsnæðisstofnunar og bankakerfisins, til langs tíma 52.5% af verði staðalíbúðar. Þá eru ótalin lífeyrissjóðslán. Ef þau væru tekin með mundi lánahlutfallið fara yfir 70% af þessum lánum. Í því dæmi, sem ég rakti, mundi lánahlutfallið fara upp í 77.5% og greiðslubyrðin mundi lækka, eins og ég gat um áðan, úr 58 850 kr. á fyrsta árinu niður í 18 600 kr.

Í frv. er gert ráð fyrir að það verði teknir upp nýir innlánsreikningar sem beri fulla verðtryggingu á þann hluta innstæðna sem liggur óhreyfður í hverja þrjá mánuði. Fé á þessum reikningum er hins vegar ekki bundið. Þannig má þá taka út af þeim hvenær sem er. Það er einmitt bindingin sem hefur staðið í vegi fyrir því, að menn hafi lagt fé sitt inn á verðtryggða reikninga.

Hugmyndin í þessu frv. er sú, að í stað þess að þvinga menn til bindingar skuli verðlauna þá fyrir að láta fé sitt liggja inni með því að sá hluti innstæðunnar, sem er raunverulegur sparnaður og liggur þannig óhreyfður, njóti fullrar verðtryggingar, en hins vegar skal ekki lamið á fingurna á fólki. Það á að eiga frjálsan aðgang að þessum reikningum.

Í frv. eru enn fremur ákvæði um að vextir af bankainnstæðum reiknist mánaðarlega, þannig að raunverulega eign sparifjáreigenda sé viðurkennd jafnóðum og hvenær sem er. Eins og þetta er núna eru vextir reiknaðir einu sinni á ári og raunveruleg eign manna er mönnum ekki tiltæk fyrr en í árslok. Við þá verðbólgu, sem hér ríkir nú, held ég að sé nauðsynlegt að stíga þetta skref.

Það er forsenda þess, að hér takist að koma á heilbrigðu efnahagslífi, að fylgt sé skynsamlegri vaxta- og peningamálastefnu. Því fylgir að fjárfestingarlán eiga að vera til langs tíma. Þess vegna hefur Alþfl. ævinlega boðað að aðlögun verðtryggingar og vaxta yrði að fylgja lenging lána og dreifing greiðslubyrðar. Sérstaklega á þetta við um húsbyggjendur og íbúðakaupendur. Í þessu sambandi má minna á frv.-flutning og stefnumörkun Magnúsar H. Magnússonar um stighækkun húsnæðislána. Þeirri stefnumörkun hefur núv. ríkisstj. gersamlega brugðist. Samkvæmt stefnumörkun þeirri, sem Magnús H. Magnússon beitti sér fyrir, eiga húsnæðismálalán á þessu ári að nema 35% af verði staðalíbúðar. Sú grein þessa lagafrv., sem fjallar um þetta atriði, er einungis til staðfestingar á því, að staðið verði við þá stefnumörkun. Ríkisstj. hefur líka gjörsamlega vanrækt að lengja almennan lánstíma. Ríkisstj. er því ekki að framfylgja þeirri stefnu sem Alþfl. hefur boðað í þessum efnum, og hún lætur sér hag húsbyggjenda og íbúðakaupenda í léttu rúmi liggja.

Í heilbrigðu fjármálalífi hafa sparifjáreigendur tryggingu fyrir því, að eign þeirra verði ekki rýrð. Á því — einmitt á því, á þeirri tryggingu byggist raunveruleg sparnaðarviðleitni. Raunvaxtastefna Alþfl. er reist á þessum forsendum. Sú tilraunastarfsemi, sem í frammi er höfð í þessum efnum með afarkostum um bindingartíma og uppsagnarákvæði, er flókin og óþægileg og svarar ekki kröfum sparifjáreigendanna. Í því frv., sem hér er flutt, er einmitt komið til móts við sparifjáreigendur og boðið aðgengilegt sparnaðarform-sparnaðarform sem vafalaust yrði til þess að auka mjög sparnað hér á landi.

Þetta frv. er flutt núna vegna þess að framkvæmd ríkisstj. á stjórn peningamála, lánamála og vaxtamála er í algjörum ólestri og framtíðarþróun þessara mála er í fullkominni óvissu.

Eins og ég gat um áður er það forsenda raunvaxtastefnu, og á það hefur Alþfl. ævinlega lagt mikla áherslu, að jafnframt því að vextir nálgist raunvaxtastigið sé lánstími lengdur. Minnihlutastjórn Alþfl. lagði á sínum tíma mikla áherslu á að þetta atriði kæmi til framkvæmda, svo og í almenna og aukna kynningu á lánskjörum og almennum reglum um lánaviðskipti. Raunin hefur hins vegar orðið sú, að lítt hefur miðað og lánstíminn er sem fyrr allt of stuttur. Ein afleiðing þessa er sú sem ég greindi hér skýrt frá með dæmum, að greiðslubyrði lána verður óbærilega þung. Það er þetta atriði fyrst og fremst sem veldur lánþegum þungum búsifjum, enda er nú svo komið að það er hverri meðalfjölskyldu nánast um megn að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að þetta er bein afleiðing af mistökum í framkvæmd peningamálastefnunnar. Þótt framkvæmdin hafi farið í handaskolum er stefnan hins vegar skýr eins og hún var t.d. mörkuð af Alþfl.

Í því efnahagsöngþveiti, sem hefur ríkt á undanförnum misserum, hefur hagur tveggja hópa einkum verið fyrir borð borinn, eins og ég gat um áðan: annars vegar hins almenna sparifjáreiganda, sem ekki hefur notið þeirra ávöxtunarkjara sem honum ber, og hins vegar hafa íbúðabyggjendur og íbúðakaupendur búið við allt önnur lánsskilyrði en nauðsynleg eru til að tryggja framgang raunvaxtastefnu og þeirrar stefnumörkunar sem Alþfl. hefur beitt sér fyrir, þar sem aukinni greiðslubyrði á ekki að demba yfir fólk, heldur á að jafna greiðslubyrðinni á lengri tíma.

Frv. er í megindráttum fjórþætt.

Í fyrsta lagi er lagt til að teknir verði upp nýir innlánsreikningar er beri fulla verðtryggingu eftir lánskjaravísitölu og 1% ársvexti. Fé, sem lagt yrði inn á þessa reikninga, yrði ekki bundið, heldur yrði reikningshafa frjálst að taka það út hvenær sem er. Þó er það skilyrði sett, að verðtrygging taki aðeins til þess hluta innstæðunnar sem er raunverulegur sparnaður og stendur óhreyfður í þrjá mánuði. Á þann hluta innstæðunnar, sem er hreyfður innan þriggja mánaða, reiknast almennir sparisjóðsvextir.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að vextir verði reiknaðir mánaðarlega af innstæðum.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir að tekinn verði upp hjá innlánsstofnunum sérstakur útlánaflokkur- Viðbótarlán til íbúðabygginga og íbúðakaupa. Lán þessi beri fulla verðtryggingu eftir lánskjaravísitölu og 2–3% ársvexti og séu til 15 ára. Auk þess er miðað við að viðbótarlánið nemi helmingi þess láns sem lánþegi á kost á frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Með þessu móti er komið til móts við fjárþörf íbúðabyggjenda og íbúðakaupenda með því að færa lánsfjárútvegun úr hinum hefðbundna vaxtaauka- og víxillánafarvegi yfir í eðlilegt viðskiptaform. Það er flutt af villimannastiginu yfir á það stig sem tíðkast t.d. hjá ýmsum grannþjóðum okkar.

Það er rétt að leggja áherslu á það, og sérstaklega fyrir þá þm. sem tauta í bringu sér, að frv. gerir ráð fyrir að viðbótarlánaflokkurinn komi að verulegu leyti í stað vaxtaaukalána og víxillána svo og þeirra verðtryggðu lána sem nú tíðkast, en yfirleitt eru til mjög skamms tíma og eru af þeim sökum lánþegum afar óhagstæð vegna þungrar greiðslubyrði.

Í fjórða lagi gerir frv. ráð fyrir að lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins verði breytt á þann veg, að íbúðalán verði ekki ákveðið lægra en sem nemur 35% af áætluðum byggingarkostnaði. Þetta er varnagli húsbyggjenda og íbúðakaupenda gagnvart lélegum ríkisstjórnum sem ekki standa sig. Hlutfall þetta hefur um nokkurt skeið verið nálægt 25% af byggingarkostnaði, en var við upphaf síðasta áratugar, áður en „framsóknaráratugurinn“ rann upp, um þriðjungur af byggingarkostnaði eða nálægt því sem við leggjum hér til sem lágmark. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við þá meginstefnu sem í núgildandi lögum felst og kemur fram í 35. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, en þar segir: „Hámarkslánsfjárhæð má nema allt að 80% af áætluðum byggingarkostnaði.“ Hér er lagt til að stigið verði fyrsta skrefið í þessa átt, í samræmi við þá stefnumörkun sem Magnús H. Magnússon, fyrrum félmrh., hefur boðað hér á þinginu.

Við Alþfl.-menn höfum lagt áherslu á að heilbrigt efnahags- og fjármálalíf væri forsenda almennra framfara. Stefna í vaxtamálum og lánamálum og framkvæmd slíkrar stefnu er mikilvægur þáttur í efnahagsmálastefnu í heild. Í desembermánuði 1978 kynnti Alþfl. hugmyndir sínar um aðgerðir í efnahagsmálum, þær aðgerðir sem hann taldi nauðsynlegar til að koma íslensku efnahagslífi á skynsamlegri grundvöll. Hugmyndir þessar voru lagðar fram í formi frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og víðtækar, samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu er spönnuðu mörg svið efnahagslífsins. Þannig lagði Alþfl. m.a. fram ákveðnar tillögur um hvernig beita mætti stjórntækjum peningamála gegn verðbólgu til jafnvægis í efnahagsmálum, en veigamikill þáttur í þeirri tillögugerð var að komið yrði á jákvæðum raunvöxtum af sparifé og inn- og útlánum. Í framhaldi af þessu lagði þáv. forsrh. í febrúarmánuði 1979 fram drög að frv. til l. um stjórn efnahagsmála sem tók að verulegu leyti mið af fram komnum tillögum Alþfl. Í endanlegri mynd reyndist frv. og lögin, eins og frá þeim var gengið á Alþingi, mjög útþynnt á marga vegu. En eftir stóðu þó m.a. ákvæðin um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í áföngum ásamt ákvæðum um lánalengingu sem ekki hafa verið framkvæmd. Alþfl. taldi þessi ákvæði mikilvægan hlekk í víðtækum aðgerðum sem óhjákvæmilega hlytu að fylgja í kjölfarið.

Það er óþarft að rekja að enn hefur ekki verið gripið til þeirra aðgerða í efnahagsmálum sem í raun eru veigamikil forsenda raunvaxtastefnunnar, og í stað þess að úr verðbólgu yrði dregið, eins og tillögur Alþfl. gerðu ráð fyrir, hefur hún aukist verulega. Í stað þess að verðbólgustig lækkaði og nálgaðist þannig vaxtastigið hefur verðbólgustigið hækkað og nafnvextirnir fylgt á eftir. Í nóvembermánuði s.l. var það t.d. svo, að raunvextir almennra spariinnlána voru á svipuðu stigi og í apríl 1979, eða neikvæðir um því sem næst 13% miðað við 12 mánaða tímabil, og ekki hefur það batnað síðan. Allt þetta hefur gert það að verkum, að við höfum talið nauðsynlegt að flytja það frv. sem hér liggur fyrir.

Það var frá upphafi ljóst að nauðsynlegt væri að haga áföngum til verðtryggingar með skipulegum og samræmdum hætti þannig að almenningur gæti treyst á framkvæmd verðtryggingar á tilsettum tíma. Á þessu hefur hins vegar orðið verulegur misbrestur, eins og öllum er kunnugt. En hitt er þó hálfu verra, að framkvæmdin sjálf og sá hluti laganna, sem felur í sér skyldur ríkisstj. og bankakerfisins til að lengja lánstíma og dreifa greiðslubyrði, hefur ekki verið efnt. Þess vegna er veigamikill þáttur þess frv., sem við hér flytjum, um hvernig komið skuli til móts við húsbyggjendur í þessu skyni.

Ég gat um það áðan, að greiðslubyrði þess manns, sem ætlaði að kaupa íbúð upp á 400 þús. kr., væri, miðað við núverandi tilhögun, að líkindum 58 850 kr. á ári. Það skiptir kannske nokkru máli hvort hann fær vaxtaaukalán eða verðtryggt lán til langs tíma, t.d. til fimm ára. En ég hef ekki orðið var við að það væri sérstaklega mikið framboð á verðtryggðum lánum, ekki einu sinni til fimm ára, þannig að ég held að hinn raunhæfi samanburður sé í raun og sannleika þessi greiðslubyrði hjá manninum þegar hann neyðist til að taka vaxtaaukalán annars vegar og hins vegar þegar hann getur fengið lán samkv. þeim kjörum sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég rakti þær almennu forsendur hér áðan, að keypt væri íbúð upp á 400 þús. kr. og útborgun væri upp á 320 þús. Ég rakti þau almennu skilyrði, að þessi maður ætti 60 þús. kr. að leggja í slík kaup, fengi húsnæðislán upp á 60 þús. kr. samkv. núverandi kjörum og lífeyrissjóðslán upp á 80 þús. kr. Hver verður þá greiðslubyrði þessa manns? Jú, af húsnæðisláninu 4750 kr., af lífeyrisláninu 4100 kr. og af vaxtaaukaláninu 50 þús. kr., eða 5 millj. gkr. Samtals gerir þetta 58 850 kr. eða 55% af atvinnutekjum verkamanna, miðað við febrúarverðlag 1981. Og vel að merkja: Þegar greiðslubyrðin af vaxtaaukaláninu er reiknuð hér er hún reiknuð líka miðað við febrúarverðlag, þannig að í krónum talið er greiðslubyrðin enn þá hærri, en vegna þess að hluti af vaxtaaukaláninu kemur til greiðstu síðar á árinu hefur það verið fært niður sem svarar verðbólguvexti á því tímabili.

Ef frv. yrði hins vegar að lögum mundi þessi maður geta bjargað sér með það viðbótarlán til 15 ára, sem hér er gert ráð fyrir, í stað vaxtaaukalánsins, — viðbótarlán upp á 60 þús. kr. Þá mundi hann fá húsnæðislán upp á 120 þús. kr., miðað við 35% af áætluðum byggingarkostnaði staðatíbúðar upp á 340 þús. kr. Enn mundi hann fá lífeyrissjóðslán eins og í fyrra tilvikinu, eigin fjármögnun hans mundi nema 60 þús. eins og áður og loks mundi hann taka viðbótarlán upp á 60 þús. kr. Hver verður þá árleg greiðslubyrði þessa manns? Af húsnæðisláninu 9500 kr., af lífeyrisláninu 4100 kr., en af því viðbótarláni úr bankakerfinu, sem við hér gerum ráð fyrir, yrðu það 5025 kr. eða 500 þús. gkr. Í heild lækkaði þannig greiðslubyrði þessa manns á fyrsta árinu úr 58 850 kr. í 18 625 kr. Hún lækkaði úr 55% af atvinnutekjum verkamanns niður í 17.4%.

Ég er sannfærður um að ef þau skref yrðu stigin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mundu skapast hér atgerlega ný viðhorf. Verðbólgan átti og verður að koma niður á móti vöxtum og verðtryggingu. Hvað sem því líður er það alger undirstaða þess, að nokkur skynsamleg vaxtastefna fái staðist hér, að lánstími verði lengdur, en í höndum núv. ríkisstj. hefur hann verið að styttast og nú er svo komið að menn fá jafnvel ekki vaxtaaukalán nema til eins til tveggja ára og uppi eru umræður um að verðtryggð lán skuli veita niður í eitt ár. Allir sjá að hér er um öfugþróun að ræða.

Sú vaxtastefna og lánastefna, sem ríkisstj. boðar og hefur fylgt, er ekki sú stefna, sem verður að fylgja til að koma efnahagslífinu á heilbrigðan grundvöll, — ekki sú stefna sem Alþfl. hefur boðað. Ég segi það afdráttarlaust, að stefnan, eins og hún hefur reynst í framkvæmd þessarar ríkisstj., fær ekki staðist. Sparifjáreigendur eru áfram píndir og húsbyggjendur hljóta villimannlega meðferð. Það er furðulegt að talsmenn ríkisstj., eins og t.d. þm. sem sat hér áðan og muldraði í barm sér, skuli ætla að kenna Alþfl. um þá stefnu sem ríkisstj. framkvæmir í vaxta- og lánamálum. Hvernig í skrambanum má það vera að ríkisstj., sem hefur setið í heilt ár og einn dag, skuli ekki hafa komið því í framkvæmd að breyta þessari stefnu út frá því sem nú á að framkvæma ef hún telur að stefnan sé röng? Hún hefur haft valdið til þess sem ríkisstj. og þingstyrkinn á Alþingi í eitt ár og einn dag að breyta um stefnu út frá þeirri stefnu sem hún hefur verið að fylgja, ef hún telur þá stefnu ranga. (ÓRG: Hún hefur líka gert það.) Ríkisstj. ber ábyrgð á þeirri stefnu sem hún framkvæmir á hverjum tíma — og hver er stefna ríkisstj.? Mér dettur ekki í hug að hv. þm. sé svo vitlaus að hann viti ekki að sú stefna, sem ríkisstj. framkvæmir, er hennar stefna. Hvernig getur hann talað um að hún hafi breytt þeirri stefnu sem hún hefur í reynd verið að framkvæma? Það er liðinn tími og staðfestur af sögunni. Þetta er misheyrn hjá hv. þm. (ÓRG: Þetta er höfuðatriði sem Alþfl. státaði mest af í Ólafslögunum. Því var breytt með brbl. á síðasta degi á s.l. ári. Þjóðin fagnaði því, að vaxtastefnan Alþfl. var þannig tekin úr sambandi.) Brbl. ríkisstj. breyta engu um það, hvaða stefnu ríkisstj. hefur fylgt í eitt ár og einn dag. Þau breyta engu um það, að ríkisstj. hefur fylgt þeirri stefnu í framkvæmd að hafa fé af sparifjáreigendum á sama tíma og húseigendur eru píndir og kvaldir. Ef ríkisstj. hefði séð hvernig hún hefur hagað sér og hefði haft uppburði í sér til að líta framan í vandamálið eins og það er hefði hún auðvitað ekki framkvæmt þá stefnu sem hún hefur framkvæmt, ekki farið svona með sparifjáreigendur og húsbyggjendur. En augu ríkisstj. hafa ekki opnast fyrir því, hver er lykillinn að því að fylgja skynsamlegri stefnu í peningamálum, lánamálum og málefnum húsbyggjenda og sparifjáreigenda. Lykillinn að því er sá að lengja lánstímann og jafna úr greiðslubyrðinni, því að með þeim einum hætti fær það staðist að halda hér uppi skynsamlegri stefnu í peningamálum jafnframt því að koma til móts við sparifjáreigendur þannig að þeir geti verðtryggt sparifé sitt með eðlilegum hætti.

Ef hv. þm. hefði verið hér inni þegar ég hélt fyrri hluta ræðu minnar hefði hann komist að raun um að ég benti á að meðan minnihlutastjórn Alþfl. sat að völdum var leitast við að tengja lánstímann, en meðan núv. ríkisstj. hefur setið að völdum hefur verið unnið markvisst að því að stytta lánstímann þannig að húsbyggjendur fá helst ekki vaxtaaukalán til lengri tíma en eins árs núna og greiðslubyrði þeirra af þeim lánum, sem ríkisstj. ætlar þeim að lifa við, er yfir helmingur af launatekjum verkamanns, af atvinnutekjum verkamanns, miðað við febrúarverðlag núna. Þetta er frammistaða ríkisstj. eftir eitt ár. (Gripið fram í.) Ég ætla að halda því fram, að Alþfl. hafi ekki breytt um stefnu í skattamálum. Við fylgjum sömu stefnu í skattamálum og við fylgdum fyrir kosningarnar 1978 og fylgjum enn. (ÓRG: Nú.) Það var gott að það tókst að sannfæra hv. þm. um að það væri nauðsyn stefnubreytingar hjá ríkisstj. til að koma þessum málum á eðlilegan grundvöll og ekki einungis að fylgja yrði fram þeirri stefnu í lánamálum, sem Alþfl. hefur boðað, heldur líka í skattamálum, eins og hér kom fram af fsp. þm.

Áhrif þess frv., sem við flytjum hér, eru þau í fyrsta lagi, að það verður komið til móts við ungt fólk sem þarf að eignast þak yfir höfuðið. Í annan stað mun sparnaður í landinu stóraukast. Ég hef því miður ekki handbærar tölur um hvað sparnaður hefur minnkað mikið á „framsóknaráratugnum“, en það er áreiðanlegt, að það á verulegan þátt í því að fylgt hefur verið þeirri stefnu sem raun ber vitni á undanförnum árum að því er varðar lána- og vaxtamál. Ég er líka sannfærður um að þær bindiflækjur sem uppi hafa verið hafðar í þessum efnum hafa staðið í vegi fyrir því, að sparnaður ykist raunverulega. Þær bindiflækjur henta ekki mörgum sparifjáreigendum. Menn þurfa að geta átt aðgang að sparifé sínu.

Nú munu sumir segja: Ef menn leggja nú inn á bundnar bækur hleypur bankinn áreiðanlega undir bagga með þeim þegar svo ber undir og veitir þeim lán til skamms tíma, þangað til þeir geta komist í fé sitt. En það eru bara ótalmargir í þessu þjóðfélagi sem hafa ekki lyst á að spila á þetta spilverk, sem hafa ekki lyst á að ganga fyrir bankastjórana til þess að komast að raun um hvernig þeir geti hugsanlega náð sér í verðtryggingu og síðan víxla eða eitthvað slíkt til að mæta hugsanlegum áföllum. Það fólk, sem helst sparar í landinu og hefur sparað mest og verst hefur farið út úr þeirri holskeflu sem hér hefur riðið yfir í verðbólgumálum, á einmitt erfiðast með að ganga fyrir bankastjóra. Það fólk á einmitt erfiðast með að spila á það flókna kerfi sem hér hefur verið komið upp. Stefnumörkun frv. að því er þetta atriði varðar er sem sagt sú, að í stað þess, að heimta af mönnum bindingar og þvinganir til þess að þeir spari, séu þeir verðlaunaðir fyrir að spara með því að þeir njóti verðtryggingar af því, en án þess að þeir séu settir á klafa bindingar og þess háttar.

Nú munu sjálfsagt sumir segja: Já, en mun þetta duga til þess að mæta því sem hér er gert ráð fyrir að gert sé fyrir sparifjáreigendur? Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að bankarnir munu að þessum reikningum upp teknum geta mætt þeim lánum til húsbyggjenda sem hér er gert ráð fyrir. Auðvitað þarf góðan vilja, en það mundi ekkert skaða þó það væri ekki bara góður hagur í bönkunum, heldur líka góður vilji. Við getum fyrst lítið á það, að lán til 15 ára munu koma í staðinn fyrir vaxtaaukalán og víxla til skamms tíma sem húsbyggjendur hafa nú þurft að notfæra sér með þeim hætti, sem ég held að öllum sé kunnugt, að hlaupa milli banka eða eins og ég rakti í dæminu hér áðan: maðurinn með 5.8 millj. kr. greiðslubyrði verður auðvitað að leita á náðir banka nr. 2 til að borga af vaxtaaukaláni í banka nr. 1 og þannig koll af kolli. Mönnum er gert að hlaupa milli banka, ganga fyrir hvern bankastjórann á fætur öðrum til að bjarga sér út úr þessu feni. Það er ágiskun mín að þessi þörf muni minnka um því sem næst þriðjung, þ.e. að þessari þörf muni verða mætt að 1/3 með þessum lánum þannig að bankarnir muni í rauninni ekki þurfa að rísa undir nema 2/3 af þeirri þörf sem hér er fyrir hendi. Ég skal ekki fullyrða um að sparnaður muni aukast svo mikið með þessum nýju reikningum að því verði fyllilega mætt, þó að ætla megi að það séu verulegar líkur á því, en þá finnst mér líka að bankarnir geti breytt útlánum sínum nokkuð og sveigt sig svolítið í átt við þarfir húsbyggjenda, og ég skal færa tvenns konar rök fyrir því:

Í fyrsta lagi voru almenn bankalán til íbúðabygginga á bilinu 20–25% af fjárfestingum í íbúðabyggingum á árunum 1971–1972, en hafa á undanförnum árum verið á bilinu 10–15%, þ.e. lán bankakerfisins í sambandi við íbúðabyggingar hafa stórlega minnkað, næstum því helmingast á 8 árum. Væri þá ekki ástæða til þess að bankarnir kæmi örlítið betur til móts við húsbyggjendur, eitthvað í átt við það sem þeir gerðu á árunum 1971–1972?

Á hinn bóginn sýnist mér að það muni vera verulegur hagur fyrir bankana að losna við þetta eilífa ráp og kvabb og gera mönnum kleift að fá lán með eðlilegum hætti þannig að menn viti, hvar þeir standa, og mönnum sé ekki ætlað að standa í öðrum sporum en þeim sem þeim er eðlilegt að standa í. Bankarnir munu þannig losna við mikið af óþægindum. Það mun létta á þeim við að þetta kerfi kæmist á.

Enn er það, að hagur bankanna er mjög góður núna, eins og margyfirlýst er af hálfu ríkisstj. og ríkisstjórnarflokkanna. Þess vegna ættu þeir ekki að þurfa að vera í sérstökum vandræðum með að koma til móts við fólk með þessum hætti. Það er ekki lítils virði í þjóðfélagi okkar að geta lækkað greiðslubyrði húsbyggjenda, geta komið til móts við ungt fólk, geta lækkað greiðslubyrðina úr 58 þús. kr. í 18 þús. kr. Það er eiginlega spurningin um að koma sér af villimannastiginu og niður á eðlilegt siðað þjóðfélag.

Megintilgangur þessa frv. er annars vegar að bæta og efla sparnað í landinu með því að gera fólki kleift að verðtryggja sparifé sitt að fullu án þess að binda fé til langframa inni á reikningum og hins vegar að gefa fólki sanngjarnari og um leið viðráðanlegri kost á að komast í eigið húsnæði en verið hefur um alllangt skeið. Það er af þessum sökum sem þetta frv. er flutt. Það er til þess að koma í veg fyrir að sú þróun haldi áfram, að sparifé helmingist að verðgildi á 5–6 ára fresti. Það er til þess að tryggja að ungt fólk í landinu geti lifað mannsæmandi lífi og komist yfir húsnæði með eðlilegum hætti. Og það er til þess að tryggja að það verði hægt að koma á skynsamlegri lána- og vaxtastefnu.