12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég aðeins taka það fram, að verð á meðalíbúð í verkamannabústað er nú 40 – 50 millj. gkr. 85% af því verði er veitt að láni og það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það, þó að lágtekjufólk kunni að skulda svo háa upphæð sem hv. þm. nefndi. Það getur gerst án þess að nokkuð óeðlilegt sé þar á ferðinni.

Annars ætla ég ekki að taka neinn þátt í deilum þeirra hv. þm. Halldórs Blöndals og Garðars Sigurðssonar. Hv. þm. Garðar Sigurðsson bað menn um að lesa vel og vandlega umrædda reglugerð og í ró og næði, en ekki í æsingi, og vitnaði síðan í 4. gr. reglugerðarinnar. Nú er sú grein ekki til, því að reglugerðin er aðeins upp á þrjár greinar. Hins vegar eru ákvæðin, sem hv. þm. vitnaði í, 4. tl. 2. gr., en það skiptir auðvitað ekki neinu meginmáli.

Í þriðja lagi vildi ég aðeins koma því á framfæri við hæstv. fjmrh., að hann sitji nú á strák sínum ef á að takast að ná því samkomulagi að afgreiða þetta mál á tilsettum tíma, því að hætt er við — ef hæstv. ráðh. stígur í stólinn — að hann verði ávallt til þess að kalla upp heilan hóp af þm. sem telja sig þurfa að andmæla honum, svo að ég vildi nú, af því að ég á — og við Alþfl.-menn — samleið með hæstv. ráðh. í þessu máli, mælast eindregið til þess við hann, að hann fari nú ekki meira í ræðustól í bili. (Fjmrh.: Það er þá ekki rétt að spyrja mig meira.) Nei, nei, enda skal ég ekki gera það.

Að lokum, herra forseti, vil ég aðeins taka það fram, að mér kom mjög á óvart að hæstv. ráðh. skyldi vera ókunnugt um þá málaleitan frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands sem forsvarsmenn þessara tveggja félaga greindu okkur frá í fjh.- og viðskn. Nd. Ég gat satt að segja ekki skilið öðruvísi þeirra mál en að þeir hefðu nefnt sitt erindi við hæstv. ríkisstj. og óskað eftir að leiðrétting yrði gerð. Hæstv. ráðh. kannast ekki við þetta erindi og það hefur þá ekki á hans borð komið. En til þess að kippa því nú í liðinn höfum við hv. þm. Pétur Sigurðsson ákveðið að taka þetta mál upp með þingbundnum hætti og fá um það umræður hér í þessari hv. deild, þannig að erindinu verði formlega komið á vettvang hæstv. ráðh.