17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

369. mál, vaxtaútreikningur verðtryggðra lána

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram í þinginu fsp. á þskj. 223 um vaxtaútreikning verðtryggðra inn- og útlána. Fsp. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Hvernig stendur á því, að vextir af verðtryggðum innlánareikningum eru reiknaðir á annan hátt en vextir af verðtryggðum útlánum?“

Það mun vera liðlega hálft ár síðan stofnað var hér á landi til verðtryggðra innlánsreikninga, þar sem almenningi var gert kleift að leggja fé sitt inn á reikninga verðtryggt með lánskjaravísitölu. Jafnframt tóku bankar að lána verðtryggt fé út. Við athugun á þessum málum kemur einfaldlega í ljós að vextir eru reiknaðir á mismunandi hátt, eftir því hvort um er að ræða innlánsreikninga eða útlán bankans. Hinum almenna borgara, sem kemur í banka og leggur fé sitt inn á verðtryggðan reikning, er sagt að fé hans muni verða verðtryggt samkv. lánskjaravísitölu og greiddir á það 1% vextir. Taki hann hins vegar verðtryggt lán, þá er honum sagt að hann skuli greiða upphæðina verðtryggða samkv. lánskjaravísitölu og við það bætast 2.5% vextir. Þegar grannt er skoðað er þessum reglum hins vegar beitt þannig, að af útláni — láni sem hinn almenni borgari tekur í banka og er verðtryggt, eru vextir verðtryggðir líka. Sé hins vegar um verðtryggðan innlánsreikning að ræða eru vextirnir ekki verðtryggðir. Innlánsupphæðin eða innistæðan er í báðum tilvikum færð upp mánaðarlega samkv. lánskjaravísitölu, síðan reiknaðir vextir, óverðtryggðir af innlánum, en verðtryggðir af útlánum.

Ég hef hér undir höndum einfalt samanburðardæmi um innlán og útlán, hugsað dæmi. Ef annars vegar er lögð inn 1 millj. gkr. í ársbyrjun og innistæðan ávöxtuð út árið 1980 samkv. lánskjaravísitölu og 1% vöxtum og það síðan borið saman við 1 millj., sem bankinn lánaði út samkv. lánskjaravísitölu og — til þess að einfalda dæmið — líka með 1% vöxtum, þá kemur í ljós að mismunur ávöxtunar útláns og innláns nemur um 0.25% eða um 1/4. Þetta er glettilega mikill munur og það er ákaflega erfitt fyrir leikmenn að skilja hvað hér er á ferðinni. Það er ákaflega erfitt að átta sig á því þegar tilkynningar um þessa reikninga og þessi lán hljóða eingöngu upp á það, að í báðum tilvikum er um að ræða verðtryggingu með lánskjaravísitölu, í báðum tilvikum er um að ræða ákveðna vexti.

Í reynd eru vextirnir síðan reiknaðir á mismunandi hátt án þess að hinum almenna sparifjáreiganda eða lántakanda sé á nokkurn hátt gerð grein fyrir þessum mun. Ég fæ ekki skilið í hverju það liggur, að þetta skuli reiknað á mismunandi vegu. Því hef ég varpað þeirri spurningu fram hér til viðskrh., hvers vegna vextir af verðtryggðum innlánsreikningum séu reiknaðir á annan hátt en vextir af verðtryggðum útlánum.