18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er fyllilega tímabært að þm. Norðurl. e. geri nokkra grein fyrir sínu máli úr ræðustól og sitji ekki þegjandi undir megninu eða sumu af því gaspri sem hér hefur heyrst. Það hafa fyrr verið keyptir togarar til Íslands. Ég vænti þess, að sú umr., sem hér fer fram stafi af ríkri siðferðiskennd þm., sem í ræðustól hafa komið — eða gæti verið að kjördæmasjónarmið ættu einhvern hlut að máli þegar menn fara hér upp núna? Ég spyr.

Ég sagði upphaflega um þetta mál, að það hefðu verið gefnar út þrjár óútfylltar ávísanir: sú fyrsta af þingmönnum, önnur af ríkisstj. og sú hin þriðja af stjórn Framkvæmdastofnunar. Við þetta stend ég. En það er annað, sem hefur gerst í þessu máli og er sýnu alvarlegra. Það virðist vera sambandsleysi á milli allra aðila sem hlut eiga að máli. Staðreyndin er nefnilega sú, að kaupendur fóru sínu fram. Þeir gerðu nákvæmlega það sem þeim datt í hug. Eftirlitshlutverk þeirra aðila, sem fara með valdið til að útvega peningana og til að sjá um fjármagnið sem kemur auðvitað úr almannasjóðum, var ekki meira en þetta, að kaupendur fóru sínu fram.

Sannleikurinn er sá, að þegar þm. Norðurl. e. rituðu undir bréf í maímánuði á síðasta ári voru þeir með í huga ákveðna gerð togara- sömu gerð og togarinn Hólmatindur á Eskifirði er af. Ég tel mig hafa fengið fulla vissu fyrir því, að þeim skilaboðum hafi verið komið á framfæri við hæstv. sjútvrh., að þessi togari væri hafður í huga. Er það ekki rétt? (Sjútvrh.: Jú, jú, en hvaða verð?) Já, verðið.

Ég hef mikið hugleitt hvað raunverulega skeður á ákveðnu tímabili í þessu máli þegar enginn veit nokkurn skapaðan hlut. Það gerist að ríkisstj. veitir heimildina 1. ágúst, en það gerist líka, að 4. sept. — rúmum mánuði síðar- e: gerður bráðabirgðasamningur úti í Frakklandi um kaup á þeim togara sem þm. Norðurl. e. vildu fá, — mánuði eftir að ríkisstj. gefur heimild til kaupanna, og kaupverð þess togara er hér á samningnum 1.1 milljarður kr. Ég spyr eins og aðrir hafa spurt: Hvað gerist í millitíðinni? Hver ákveður að kaupa togara sem er 2 milljörðum dýrari? Þessi spurning liggur hér í lausu lofti. Það hljóta allir að spyrja um þetta. Svo berst auk þess til eyrna þm., loksins er við fréttum um skipakaupin, — ég í des. og jan. s.l., — að hér væri á ferðinni nokkurs konar verksmiðjutogari, það ætti að „montera“ um borð í skipið vélar af öllu tagi: flatningsvélar, flökunarvélar og kúttunarvélar og fleira. Þá er náttúrlega tilgangurinn með atvinnuaukningunni í landi gersamlega farinn, horfinn, búinn. Þetta var auðvitað stöðvað.

Ég held að það sé lítið meira um þetta mál að segja. Hér hafa menn hver á fætur öðrum staðið upp og reynt að hvítskúra sig og hvítskrúbba sig. Það er svona og svona að gera það. Ég skrifaði upp á þetta bréf og ég stend við þá undirskrift. Málið er komið í hönk og ég ætla ekki að kenna neinum um hvernig komið er, en ég ætla að standa við undirskriftina. Hins vegar finnst mér býsna undarleg og skrýtin ákvörðun, hver sem stendur að henni, að það skuli eiga að taka 750 millj. til þessara togarakaupa af innlendri skipasmíðaiðn. Það er mjög alvarlegt mál í sjálfu sér. Þá er beinlínis verið að bæta atvinnuástand á einum stað á kostnað annarra. Þá hugmyndafræði skil ég ekki.

En ég hef svo sem í höndunum fleiri gögn í þessu máli. Ég hef gögn um að kaupendum stóð til boða að kaupa skip í Noregi, Vikheim, sem kostaði 13 millj. norskra kr., ágætisskip að mér er tjáð, en það var ekki keypt. Ég spyr: Hvers vegna?