24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

211. mál, húshitunaráætlun

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir áhuga hv. fyrirspyrjanda í sambandi við þetta mál. Þetta mál er að vísu búið að vera hér til umr. áður. Miklar umr. hafa farið fram um þennan þátt orkumála: húshitunaráætlun og allt sem henni fylgir.

Það væri sjálfsagt hægt að rifja upp ýmislegt í sambandi við það sem hér hefur áður komið fram í þessum málum. Ég hef eins og fleiri bundið miklar vonir við þá húshitunaráætlun sem ríkisstj. vinnur að, því að ég tel að hún geti markað leiðina og orðið til þess að unnið verði skipulegar að þessum málum. Hins vegar er eðlilegt að eftir því sé leitað, hvenær slík áætlun sjái dagsins ljós, því að eftir henni er beðið.

Ég vil segja það, að ef áætlunin um að losa þjóðina við olíu í húsahitun stenst, sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, er það vissulega vel. En ég get ekki látið hjá líða í sambandi við þetta að lýsa vissri vanþóknun minni á þeirri grg. eða athugun sem Rafmagnsveitur ríkisins létu gera á fjarvarmaveitum. Þar var farið helst til geyst af stað og gefið of mikið undir fótinn um þær framkvæmdir og orkuverðið. Auðvitað er það alveg hárrétt stefna að fá úr því efni skorið með þeim tveimur fjarvarmaveitum sem núna eru í byggingu, þ.e. á Seyðisfirði og Höfn í Hornafirði, til að átta sig á hvort það grunnverð, sem þar er lagt til grundvallar, er það sem hægt verður að bjóða notendum fjarvarmaveitna. Sveitarfélögin standa þarna vissulega frammi fyrir miklu vandamáli sem er ekki svarað enn.

Mig langar að nota tækifærið hér til að lýsa því, að ég vænti þess, að Alþingi samþykki er það afgreiðir lánsfjáráætlunina, og það er raunar inn í hana komið, sérstakt fjármagn til jarðhitaleitar á Snæfellsnesi. Það er mjög brýnt mál. Þarna er þéttbýli með yfir 4000 íbúa sem geta hagnýtt sér jarðhita eða hitaveitu. Ég vænti þess að því verði fylgt eftir að Orkustofnun láti framkvæma jarðhitaleit á þessu þéttbýtissvæði tímanlega á þessu ári.