03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Ég geri ekki mjög miklar efnisathugasemdir við þessi svör, sem voru flest um staðreyndir. Hitt er svo annað mál, að það hlýtur alltaf að vera matsatriði og pólitískt mat hvenær menn eiga að gera upp á milli borgaranna eins og gert er með þessum snjómokstursreglum. Ég vek athygli á því, að ef skoðað er hvaða fjármunum er varið til vetrarviðhalds, eins og Vegagerð ríkisins kallar snjómokstur á þjóðvegum, þá hefur þetta verið nokkuð svipað síðustu árin. Ef þessi samanburður er gerður á raungildi, þá er ívið meir 1979 sem var varið til þessara mála heldur en 1980. Það voru vissar ástæður fyrir því, sem ég ætla ekki að rifja hér upp, en það var náttúrlega alveg ljóst þegar þessar reglur voru endurskoðaðar hvaða fjármunum var þarna að skipta, og þess vegna er í rauninni ekki hægt að skýla sér á bak við að það þurfi að mismuna mönnum svo mjög — eins og kemur fram í þessum breytingum — vegna fjárskorts, vegna þess að þarna er ráðist í að greiða svo vel fyrir sumum byggðarlögum, að gert er ráð fyrir að halda aðalvegi, sem tengir þau við þjóðvegakerfið, opnum alla virka daga. Aftur á móti eru sumir hafðir útundan, eins og Ólafsfirðingar, í þessu efni. Það er það sem menn eiga erfitt með að sætta sig við þó að það muni kannske kosta eitthvað meira. En engum dettur í hug að halda að breyttar reglur á ýmsum vegum, sem mjög gott er að skuli hafa verið breytt kosti ekki samfélagið meira í útlátum. Það er fyrst og fremst þetta sem menn reka augu í þegar verið er að gera svona breytingar, og ég vil taka undir það með hv. þm., sem hér síðast tók til máls, Helga Seljan 2. þm. Austurl., að það ætti að hafa meiri samráð við þm. um þessi mál. Þarna er náttúrlega um að ræða viðkvæm mál, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, og það væri æskilegt að betri samvinna væri milli þm. og hæstv. ráðh. hverju sinni og Vegagerðarinnar um þessi mál.

Að lokum vil ég svo leggja á það áherslu, að svo háttar um veg um Ólafsfjarðarmúla að þar er í rauninni ekki um annað að ræða en að leggja í allverulegan kostnað við snjómokstur vegna náttúrlegra aðstæðna, svo fremi að ekki verði gerðar mjög umfangsmiklar framkvæmdir til þess að tengja þetta byggðarlag betur við vegakerfi landsins. Því held ég að menn verði að horfast í augu við þessa staðreynd á meðan menn treysta sér ekki til að gera veigameiri ráðstafanir til þess að samgöngur verði þarna eðlilegar miðað við nútímakröfur, og þess vegna verði að leggja á það áherslu, að um verði breytt og ekki síst að sinna þeirri sjálfsögðu og eðlilegu kröfu heimamanna að þeir fái að hafa tæki á staðnum til að freista þess, hvort ekki sé unnt að framkvæma þennan snjómokstur þannig að hann komi að betri notum en nú er unnt.