03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom að kjarna málsins varðandi Ólafsfjarðarmúla og skal ég ekki orðlengja það. Ég vil hins vegar fagna þeim áhuga sem ýmsir af þeim þm., sem skipa sér á bak við ríkisstj., hafa sýnt bættum samgöngum úti í strjálbýlinu. Það er núna búið að leggja fram hér á Alþingi vegáætlun sem gerir ráð fyrir að skerða vegaframkvæmdir álíka mikið og kaupið var skert 1. mars. Þá seildist hæstv. ríkisstj. ofan í vasa skattborgaranna og tók tíundu hverja krónu úr vasanum hjá launþegum jafnt hjá fátækum sem ríkum, og hugmyndin með vegáætluninni núna er að taka tíunda hvern metra af því sem lofað var 1979, af hæstv. samgrh. sem þá var, Ragnari Arnalds, núv. hæstv. fjmrh., og núv. hæstv. samgrh. sat líka líka í þeirri ríkisstj. sem þá stóð fyrir vegáætluninni.

Ég verð því að segja það, að ég óska þessum hv. stuðningsmönnum ríkisstj. til hamingju með árangurinn og fyrir — ég vil segja: hugrekkið, að þora þó að biðja um aukinn snjómokstur, en hafa á hinn bóginn engan kjark til þess að reyna að standa á bak við loforðin frá 1979, heldur klípa utan af því sem ekkert er, þeim fáu krónum sem þó eru ætlaðar til bættra samgangna í strjálbýli, m. a. til þess að koma vegi upp úr snjó, þannig að nú er svo komið fyrir 2. þm. Norðurl. e. að hann kemst ekki einu sinni eftir skurðunum á bíl sínum fram fæðingardalinn, fram Hörgárdal.