03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

400. mál, lánskjör Fiskveiðasjóðs

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 432, ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal að bera fram fsp. til sjútvrh. um lánskjör Fiskveiðasjóðs. Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hver eru kjör Fiskveiðasjóðs á skipalánum síðan 1978?

2. Hefur ríkisstj. í hyggju að þessi kjör verði jöfnuð og ef svo er, þá hvernig og hvenær?“

Eins og hv. þm. mun vafalaust kunnugt var það lengst af svo, að Fiskveiðasjóður lánaði til skipakaupa og skipasmíða með þeim kjörum, að annars vegar fengu menn gengistryggð lán og hins vegar innlend lán sem voru óverðtryggð og báru þolanlega vexti. En fyrir skömmu, ég hygg að það hafi verið 1978 eða 1979, var þessum útlánareglum breytt allmikið og síðan hafa breytingar á útlánakjörum Fiskveiðasjóðs verið mjög tíðar, þannig að mér er ekki grunlaust um að sumir hverjir, sem hafa hlotið lán á þessum tíma, séu með mjög miklu óhagstæðari kjör en menn fá þó í dag, og þykja mönnum þó ekki kjörin nægjanlega góð.

Það, sem fyrir mér vakir með þessari fsp., er að vekja athygli á því, að þarna er um að ræða allmisjöfn kjör og menn sitja þarna við mjög misjafnt borð að þessu leyti. Mér er persónulega kunnugt um það og þekki til þess, að sum þessara fiskiskipa, þó þau séu afbragðs aflaskip, hafa ekki nokkurn möguleika á að standa undir þessum lánskjörum. Þess vegna er kannske meginatriði spurningarinnar það, sem kemur fram í 2. lið hennar: Er hugmynd ríkisstj. að jafna þessi kjör? Hvenær verður það þá gert og hvernig?