04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. viðskrh. orðaði það svo: Eftir að grunnkaupshækkanir urðu verður ekki komist hjá því að gera efnahagsráðstafanir. — Hvað þýðir þetta? Hvaða boðskapur er þetta? Hvað býr að baki svona yfirlýsingu hjá hæstv. ráðh.? Ég hygg að þm. og þjóðin raunar öll vilji fá um það vitneskju hvað svona yfirlýsing þýði. Er hér verið að segja að vegna þess, hverjar grunnkaupshækkanirnar urðu, verði að gera efnahagsráðstafanir til að skerða þær kjarabætur sem verkalýðshreyfingunni tókst þó að fá fram, þó litlar væru, í hinum nýgerðu samningum — eða hvað þýðir þetta orðalag hjá hæstv. ráðh.? Hann nefnir ástæðuna þá, að grunnkaupshækkanir áttu sér stað og þess vegna þurfi að gera efnahagsráðstafanir. Telur ekki hæstv. ráðh. í framhaldi af þessu að það sé kominn tími til þess, að þing og þjóð fái um það vitneskju hvaða efnahagsráðstafanir hér er verið að tala um? Hvað með holskefluna, sem hæstv. ráðh. orðaði sjálfur, 1. des.? Fer ekki að verða naumur tími til að koma í veg fyrir að hún skelli yfir, sú hin sama holskefla og hæstv. viðskrh. orðaði svo vel í blaðaviðtali ekki alls fyrir löngu? Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi frekari skýringar á því, hvað hann meinar þegar hann segir: Eftir að grunnkaupshækkanir urðu verður ekki komist hjá því að gera efnahagsráðstafanir. — Ég hygg að launafólk almennt taki eftir því, ef hæstv. ráðh. fæst til að svara.