03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

383. mál, símamál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er kannske ekki nema eðlilegt að það fari nokkur tími hjá Alþingi í að ræða mál sem þetta. En ég er undrandi á því moldviðri sem þm. Reykv. fyrst og fremst blása hér upp í sambandi við þetta mál. (Gripið fram í: Það eru bara sumir þm. Reykv.) Sumir? (FrS: Ekki þeir sem búa á Seltjarnarnesi.) Ekki þeir sem búa ekki í kjördæminu, áttu við.

Hér er að mínu viti verið að stíga skref í þá átt sem Alþingi er búið að lýsa yfir að það vilji að verði gert, að jafna símakostnað landsmanna. Það kemur engum á óvart — og ætti ekki að koma þm. Reykv. utan Seltjarnarness, ef á að taka það fram — að hér hefur verið um að ræða geigvænlega mikið órétti að því er varðar kostnað við síma, annars vegar hjá þeim sem búa úti á landsbyggðinni, og hins vegar hjá þeim sem búa hér á þéttbýlissvæðinu. Hér er því verið að halda áfram á þeirri braut að jafna þennan mismun. Og það er viljayfirlýsing Alþingis að sem fyllstum jöfnuði verði náð í þessum efnum.

Mér finnst það raunar furðulegt, að þessir hv. þm., sem hæst hafa um það sem hér á nú að fara að gerast, beita fyrir sig gamla fólkinu í þessum efnum. En skyldi ekki vera gamalt fólk víðar en hér í Reykjavík? Hvað hefur þetta gamla fólk úti á landsbyggðinni og almenningur allur úti í dreifbýlinu orðið að bera vegna þess ójafnaðar sem ríkt hefur í þessum efnum? Menn ættu að leiða hugann að því. Menn ættu að láta hugann reika ár og áratugi aftur í tímann út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið og huga að því, hvað það fólk hefur orðið að borga fyrir þessa þjónustu samanborið við það sem greitt hefur verið hér í Reykjavík. Mér finnst það afskaplega slæmt þegar menn ganga inn á þær brautir, sem mér sýnist vera gengið inn á, að beita fyrir sig þessum þjóðfélagshópi. Það er viðkvæmt mál og það er illa gert að taka upp þau vinnubrögð að nota þessa þjóðfélagsþegna til að leiða fram sem vitni í þessu máli. Ég hygg að það sé almennur vilji landsmanna, ekki síður hér á þessu svæði, hvað sem forustumönnum líður, að á því verði fundin réttlát lausn þannig að frekari jöfnuður náist en nú er. Og menn skulu hafa það í huga, að Alþingi er búið að samþykkja stefnuyfirlýsingu um að ná sem mestum jöfnuði að því er varðar símakostnað landsmanna allra.