05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja þessi orð með því að þakka fyrir þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hjá þeim sem hafa tekið til máls í þessari umr. Það er mjög mikilvæg ábending um kosti þessarar till. hvað hún fær jákvæðar undirtektir hér hjá öllum hv. alþm. nema einum, hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Reyndar fannst mér það stærsti kosturinn og ég er honum reyndar miklu þakklátari en öðrum þm. að tala hér í þessum gamaldags Framsóknarnöldurtón um þessa till. og þetta mál. Það finnst mér vera mest meðmæli með tillögugerðinni.

Svo að ég gleymi ekki þeim hv. þm. alveg, þá er best að það komi hér skýrt fram sem hann staðhæfði úr þessum ræðustól, þar sem hann sagði að 70% eða liðlega það — það er líklega 73% af landbúnaðarframleiðslunni — kæmi frá búum sem væru innan við 300 ærgildisafurðir. Þetta er rangt. 73% af landbúnaðarframleiðslunni koma af fyrstu 300 ærgildisafurðunum. Það eru sem sagt 27% af landbúnaðarframleiðslunni sem koma af þeim bústofni sem er umfram 300 ærgildisafurðir, og í þessari tölu, sem Stefán er með — og það er hans stóri misskilningur, eru að sjálfsögðu öll bú í landinu. Þetta vissi þessi hv. ræðumaður eins og svo margt annað, og er það nokkuð til marks um vísdóm hans í landbúnaðarmálum almennt séð!

Hæstv. landbrh. talaði jákvætt um þessa till. Hann gat þess, að hann hefði verið 1. flm. að líkri till. fyrir tveimur árum. Hann má ekki gleyma því, hæstv. ráðh., að það er miklu skemmra síðan hann flutti sams konar till. Það mun ekki vera nema rúmt ár. Hæstv. ráðh. lét hins vegar taka þá till. hér af þingbekkjum án þess að ráðgast um það við okkur aðra flm. að þeirri till., og kannske er það skýringin á því, að hæstv. ráðh. kýs heldur að tala um tillöguflutning sinn fyrir tveimur árum en tillöguflutning sinn fyrir rúmu einu ári. En þetta út af fyrir sig skiptir ekki máli, heldur hitt, að það er rétt sem ráðh. sagði hér áðan, að markmiðin í þessum tillöguflutningi eru að meginstofni til mjög svipuð og sama eðlis. Þetta er stefna Sjálfstfl. Þetta er landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum í meginefnum, og auðvitað breytist það ekki eftir því hvaða maður það er sem er þar efstur á blaði sem flm. Stefna Sjálfstfl. breytist ekki út frá því. En kannske er það skýringin á því, hvað hv. þm. Stefáni Valgeirssyni fannst þetta ógeðfelldur tillöguflutningur.

Aftur á móti er það kostur við þessa till. fram yfir aðrar till. sem hafa verið fluttar um landbúnaðarmál hér á Alþingi, að það er gerð miklu nákvæmari úttekt á vandamálum landbúnaðarins og þau eru skilgreind og röksemdirnar, sem eru notaðar, eru sóttar fyrst og fremst til Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu Íslands, þannig að þetta er úttekt sem þess vegna verður ekki vefengd. Og í þessari tillögugerð eru þessum þætti málanna gerð miklu nákvæmari skil, enda er það að sjálfsögðu þýðingarmest í þessu öllu saman að það liggi fyrir, hvaða leiðir menn ætla að fara til þess að ná tilteknum markmiðum.

Hæstv. landbrh. talað um að framleiðslusjónarmiðið væri ekki skilgreint, og annar hv. þm., Stefán Valgeirsson, talaði um að byggðasjónarmiðið væri ekki skilgreint í þessari till. Þetta er hvort tveggja rangt. Þetta er einmitt hvort tveggja skilgreint í till. og það miklu skýrar en í öðrum till. sem hafa komið fram um þessi efni.

Í 4. gr. sjálfrar ályktunarinnar er byggðasjónarmiðið skilgreint. Þar er sagt, svo að ég vitni hér — með leyfi hæstv. forseta — í greinina eins og hún er: „Áhersla verði lögð á að treysta byggð í sveitumlandsins. Miðað verði við að hefðbundnar búgreinar ásamt aukinni nýtingu hlunninda fullnægi atvinnuþörf sveitanna í núverandi mynd, en nýjar búgreinar og aukin atvinnutæki, m. a. í iðnaði og þjónustugreinum, auki á styrk byggðar í sveitum landsins.“

Þetta er skilgreiningin á byggðasjónarmiðinu. Framleiðslusjónarmiðið er líka skilgreint. Það er miðað við að halda áfram 10% verðtryggingunni á útfluttar búvörur. Og ef fjármagnið nýtist betur með öðrum hætti en þeim að framleiða búvörur til útflutnings, þá sé heimilt að nota það til annarra þarfa. Það er sérstök áhersla lögð á að það sé aðeins ákveðið tímabil, sem vari í þrjú ár, sem hið opinbera gangi til móts við bændurna í þessu landi um að ná þessu jafnvægi. Bæði þessi atriði ættu þess vegna ekki að vefjast fyrir nokkrum lífandi manni. Bæði byggðasjónarmiðið og framleiðslusjónarmiðið eru skýrð til fulls.

Þá er kannske út af fyrir sig rétt að ræða ofurlítið þann þátt ræðu hæstv. landbrh. sem fjallaði um stjórnunaraðgerðir á landbúnaðarframleiðslunni.

Það vakti sérstaka eftirtekt hjá mér, að hæstv. landbrh. var að láta að því liggja og leitast við að færa að því rök, að þar sem í till. er fjallað um kjarnfóðurgjald og jafnvel kvótakerfi, þar sé stefnt að því sama og það sé til samræmis við þau brbl. sem hann gaf út á s. l. ári. Hér er um afskaplega mikinn misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh. Ég vil byrja á því að leiðrétta það sem ráðh. sagði varðandi þann fyrirvara og þá viðmiðun sem við göngum út frá um lágt gjald á kjarnfóður, að þar er ekki hægt að setja jafnaðarmerki á milli niðurgreiðslna Efnahagsbandalagsins og 33% skattsins hér innanlands. Niðurgreiðslur Efnahagsbandalagsins, eins og þær voru í des., voru nokkuð áþekkar þessum skatti eins og hann er, en nú eru þær aðeins þriðjungur á móts við það, sem þær voru þá, og mestar horfur á því, að þær hverfi með öllu. Og hæstv. landbrh. má ekki ruglast í því, hvað felst einmitt í þessu ákvæði þáltill. Hér er ekki átt við kjarnfóðurgjald sem stjórnunaraðgerð. Það verður að liggja alveg skýrt fyrir, að hér er ekki átt við kjarnfóðurgjald sem stjórnunaraðgerð á landbúnaðarframleiðslunni. Það, sem liggur til grundvallar þeirri viðmiðun, er að tryggja íslenskan landbúnað fyrir innrás á erlendu vinnuafli í landbúnaðinn með því að það sé greitt niður af Efnahagsbandalagi Evrópu. Á þessu er svo gífurlega mikill munur að það má með engum hætti rugla þessu tvennu saman, því að eins og löggjöfin er og eins og að er stefnt hjá hæstv. landbrh., þá er þessi 33% skattur ekkert annað en verðmiðlunargjald. Hann er ekkert annað en tilfærsla á milli bænda og búgreina. Og m. a. af þeirri ástæðu hefur verið alveg ómögulegt að fá forsvarsmenn þessarar skipunar mála að taka upp það form að færa þetta á milli rekstrarliða í landbúnaðinum. Þetta er verðjöfnunargjald og ekkert annað. Og það er einmitt það sem við erum andsnúnir, m. a. vegna þess að á þessu fjármagni, eins og hefur komið fram í ræðu m. a. hv. þm. Eyjólfs Konráðs, verður slíkt misræmi að það er útilokað að það sé hægt að sætta sig við það. Það er ekki farið að skila bændum sjálfum einni einustu krónu af þessum kjarnfóðurskatti og það á ekki að gera það fyrr en í aprílmánuði. Menn geta velt því fyrir sér, hve margir aurar eru þá orðnir í hverri krónu sem hefur verið tekin af bændum allt frá því í júlímánuði og fram undir síðustu áramót, og enn þá auðveldara eiga menn með að gera það upp við sig, hvað það fjármagn dregur í úfborgunarverði á búvöruverði til bændanna í þessu landi. Það er alveg skýrt, að flm. þessarar till. eru á móti kjarnfóðurgjaldi til verðjöfnunar með þessum hætti.

Annað mál er að leggja kjarnfóðurgjald, eins og ég sagði áðan í minni ræðu, á toppinn á kjarnfóðurnotkuninni og skapa þannig aðhald að kjarnfóðurnotkun í landinu. Vera má að menn séu ekki sérstaklega hrifnir af því fyrirkomulagi vegna þess að þá koma ekki inn miklir peningar. Bændur hagræða þá málum innan síns búrekstrar hver og einn og ná þannig þeim árangri, sem að er stefnt, án þess að þvinga framleiðslu þeirra niður með sama hætti og var gert með brbl. á s. l. vori. Það er svo annað mál, að þessi umr. af minni hálfu um kjarnfóðurgjaldið kemur hér inn af þessu sérstaka tilefni, þessari sérstöku viðleitni hæstv. landbrh. til að reyna að sanna að hægt væri að segja jafnaðarmerki á milli þessara tveggja mjög svo ólíku sjónarmiða varðandi notkun á kjarnfóðurgjaldi.

Ég sakna þess nú, að hv. þm. Davíð Aðalsteinsson skuli ekki vera hér í salnum. (Gripið fram í: Jú, jú.) Já, mér þykir vænt um, að hann heyrir mitt mál, og ég get verið honum þakklátur eins og raunar öðrum hv. þm. fyrir undirtektir varðandi þessa till. En hv. ræðumaður talaði um, að það gætti nokkurs tvískinnungs í tillöguflutningi, og í því sambandi kom hann með ákveðnar tilvitnanir úr grg. fyrir till., á bls. 9 í þáttill. Það er varðandi notkun á framleiðslukvóta. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þeim fyrirvörum, sem framan greinir, er þó hægt að fallast á að slíkar heimildir séu fyrir hendi í lögum“

Þetta las hv. þm., en lengra las hann hins vegar ekki. Og það skiptir meginmáli vegna þess að í því, sem á eftir kemur, koma fram skýringar, og það er kannske engin tilviljun að stuðningsmaður ríkisstj. vilji ekki lesa þetta upp, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við núverandi aðstæður í peninga- og verðlagsmálum, þar sem verðgildi útflutningsbóta rýrnar og stöðugt breikkar bilið milli framleiðslukostnaðar búvara og þess verðs, er fæst fyrir þær vörur á erlendum mörkuðum, getur þurft að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir óeðlilega birgðasöfnun.“

Það er m. ö. o., að það getur þurft frekar að veifa röngu tré en engu, og við þær aðstæður, sem nú eru í þjóðfélaginu, er það ákafleg víða sem menn þurfa að nota röngu trén og þau þurfa að vera til, frekar en að hafa ekkert í höndunum. Það er með þessum hætti sem óhjákvæmilegt er að slíkar heimildir séu fyrir hendi í lögum þótt þær séu hins vegar algerlega andstæðar stefnu Sjálfstfl.

Þetta eru þeir efnisþættir sem mestu skipta í sambandi við það sem hefur komið fram efnislega í þessum umr., og í raun tel ég að ég hafi svarað því. En til viðbótar við það, sem ég hef þegar sagt um brbl. frá síðasta vori og þá út frá því sem hæstv. landbrh. var að tala um gildi þeirra og árangur, er kannske vel þess vert að vitna hér í ummæli Árna Jónassonar um þann árangur, en hann segir m. a. í viðtali við Þjóðviljann, með leyfi forseta: „Minnkun kjarnfóðurnotkunar hefur þannig valdið óverulegum samdrætti á mjólkurmagninu eftir kú.“ Og í greininni kemst hann enn fremur að því, að það sé minnkun bústofns sem sé fyrst og fremst orsök þess, hvað framleiðslan hefur dregist saman. Og það er einmitt í samræmi við það sem ég gat um í minni framsöguræðu, að búfjártalan í landinu er komin niður fyrir það sem hún hefur verið nokkru sinni á tveimur síðustu áratugum. Menn geta þá metið til hvers það kann að leiða í landbúnaðarframleiðslunni ef á að halda áfram að þvinga bústofninn í landinu niður með kvótakerfi. Það er á móti því sem við flm. erum.

Tillöguflutningur af hendi ríkisstj. hefur verið hér til umr. og sá boðskapur enn einu sinni kynntur, að þar færu menn mikið í tillögugerð. Í stjórnarsáttmálanum er frá því sagt, að stefnu í landbúnaði eigi að ákvarða með flutningi og samþykki till. um stefnumótun í landbúnaði. Það er kannske skýring á þeim mikla doða sem er í kringum landbúnaðarmál núna, að ríkisstj. sé ekki enn þá búin að koma sér niður á stefnu í landbúnaðarmálum. Og þá er sannarlega ástæða til þess, að menn fari að hugsa sig um.

Það er tvennt sem ég vildi sérstaklega minnast á í sambandi við það sem hefur komið fram í ræðum út frá þessari væntanlegu tillögugerð, og ætla ég þá að sjálfsögðu að geyma mér eðlilega, eins og við væntanlega munum almennt gera, umr. um hana þar til hún kemur fram. En tvennt ákaflega mikilvægt hefur komið fram í þessum umr. Í fyrsta lagi er það, að það hefur verið frá því sagt að það eigi að gera búrekstrarkönnun og það eigi að gera úttekt á landbúnaðinum í landinu. Skyldi þetta nú vera eitthvað nýtt? Ég held að þetta sé búið að gera þrisvar eða fjórum sinnum á þeim tíma sem ég hef verið ráðunautur. Og þar eru til mjög nýlegar heimildir um þetta í sumum búnaðarsamböndum. Aftur á móti hefur þessi gagnasöfnun og þessi úttekt, sem hefur þannig verið til stofnað af og til í þrjá síðustu áratugi, aldrei skilað neinu. En nú er best að sjá hvað setur. Væntanlega skeður eitthvað í þeim efnum núna. Ég vona aðeins að þetta sé ekki fyrirboði þess, að með þessu móti eigi að fara að káfast í búrekstrinum hjá hverjum og einum bóndá í þessu landi. Ég vona sannarlega að þessar upplýsingar séu ekki fyrirboðar þess. Þá verður sannarlega ekki nein ástæða til þess að óttast offramleiðslu í landbúnaði, því að við þær aðstæður búa íslenskir bændur ekki.

Annað, sem hefur komið fram og virðist vera ákaflega vinsæll boðskapur, er að það vanti að meta þjóðhagslegt gildi landbúnaðarframleiðslunnar, sérstaklega vanti að meta þjóðhagslegt gildi sauðfjárræktar á Íslandi. Þetta segir m. a. hæstv. landbrh., einn slyngasti sauðfjárræktarmaður á Íslandi, sem m. a. á einn allra dagprúðasta hrútastofn sem nokkur íslenskur bóndi á. En samt metast menn um gildi þess, að þessi búgrein skuli vera stunduð á Íslandi. Allt rekst þetta nokkuð á. En, þeir sem ekki vita, geta spurt aðra, og ef mönnum er ekki kunnugt um þetta í landbrn. er hægt að fara í hús til nágrannans og spyrja hvað hann hafi að segja. Í tímariti um iðnaðarmál, 4. tbl., birtist grein eftir Svein Björnsson, og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér aðeins innganginn í þeirri grein. Þar segir svo:

„Ullariðnaðurinn er aðalvaxtarbroddur íslensks útflutningsiðnaðar. Á síðasta ári nam útflutningsverðmæti hans milli 8 og 9 milljarða kr. Um 1100 manns starfa að ullarvöruframleiðslu í um 40 fyrirtækum um allt land. Eftirspurn eykst stöðugt. Um 80% útgjalda í prjóna- og saumagreinum þessa iðnaðar eru vinnulaun og efni. Frá okt. 1978 til jafntengdar 1979 hækkuðu þessir kostnaðarliðir um sem næst 40%. Á sama tíma hækkaði meðalgengi Bandaríkjadollars um 23–24%. Samið er um fast verð við erlenda kaupendur á haustin.“

Vart þarf að hafa fleiri orð um stöðu ullariðnaðarins til að lýsa áhrifum verðbólgunnar á tilveru hans. Í rauninni eru áhrifin meira og minna þau sömu á alla aðra útflutningsstarfsemi.

Sveinn Björnsson er ekki í neinum vafa um þjóðhagslegt gildi sauðfjárræktar á Íslandi. Hann segir í þessari grein að útflutningsverðmætin nemi 8–9 milljörðum, og hann segir að það séu 40 fyrirtæki víðs vegar um land sem vinni að þessari framleiðslu. Og hann segir líka að 80% af framleiðslukostnaðinum séu vinnuafl og framleiðsla. Menn virðast ekki endilega þurfa að eiga fallega hrúta til þess að geta áttað sig á gildi sauðfjárræktar á Íslandi.

Það var að sjálfsögðu málefnaleg ræða sem hv. þm. Helgi Seljan flutti hér áðan, og átti ég reyndar ekki von á öðru, svo vel sem ég þekki til þess manns. En við eitt atriði verð ég þó að gera aths., og það er þar sem hann ætlaði sér að fara að stýra landbúnaðarframleiðslunni með aðhaldi í fjárfestingu. Um þetta hefur verið mikið talað, og það eru reyndar alls ekki orð þessa hv. þm. að erfiðleikarnir í landbúnaðarframleiðslunni stöfuðu af of mikilli fjárfestingu í landbúnaði. En vandamálin hafa í vissum tilvikum verið skýrð á þann einfalda hátt, að of mikil fjárfesting í landbúnaði hafi valdið of mikilli framleiðslu. Ég hef hér meðferðis sérstakt yfirlit frá Þjóðhagsstofnun um þetta atriði. Þar kemur fram að frá árinu 1965 til ársins 1979, sem er síðasta árið þar sem allar tölur liggja fyrir, hefur fjármunamyndun í landbúnaði 20-faldast á þessu tímabili. Menn líta gjarnan á þessa tölu og ganga út frá henni þegar þeir eru að tala um offramleiðsluna í landbúnaði og tilurð hennar. En þegar þetta er hins vegar fært til rétts verðlags kemur í ljós að fjárfesting er nálega á öllu þessu tímabili alveg sú sama. Þar eru aðeins frávik rétt í kringum 1970, á erfiðleikaárum þá, og samdráttur í þeirri fjárfestingu kemur einkum niður á vélum og tækjum. Og það er aðeins aukning á tveimur árum á þessum síðasta áratug, og það er vegna byggingar grænfóðurverksmiðjanna. Að öðru leyti er fjárfesting í landbúnaði, árleg fjárfesting 15 s.l. ár, alveg sú sama. Og það er reyndar athyglisvert, að á sama tíma og fjárfestingin eykst, 20-faldast að krónum til, þá minnkar hún að magni til um 20%. Þessa get ég hér alveg sérstaklega vegna þess, að ef menn ætla að fara að stýra landbúnaðarframleiðslunni út frá þessu þá er þar um mikla reikningsskekkju að ræða. g held að það megi nefnilega ekki vera öllu minni fjárfesting í landbúnaði til þess að halda honum í eðlilegu horfi, og má m. a. tilgreina það, að inni í þessum tölum er t. d. öll mjólkurtankvæðing í sveitum landsins.

Ég er nú búinn að athenda hv. þm. Helga Seljan afrit af þessari skýrslu frá Þjóðhagsstofnun svo að ég veit að hann glöggvar sig á þessu eins og mörgu öðru.

Ég hef nú fjallað hér um þau sérstöku efnisatriði sem hafa komið hér fram, og ég reyndar veit ekki vel hvernig ég á að meta það sem menn hafa verið að tala hér um, að þetta væri ekki tímamótatillaga. Það er mikil spurning hvort það væri nokkur sérstakur kostur við þessa till. að þetta væri einhver tímamótatillaga. Á hvern hátt ætti það þá að vera? Hér hafa t. d. verið lagðar fram á Alþingi tillögur um að fella niður útflutningsbótatrygginguna á 5 árum. Það eru engin slík tímamót í þessari tillögu. Hæstv. viðskrh., sem ekki er hér við þessa umr., sagði við umr. í Ed. í fyrravor, að Framsfl. hefði alltað verið á móti og væri á móti 10% verðtryggingunni. Það eru engin slík tímamót sem felast í þessari tillögu. Ekki er hún heldur um það, að fækka eigi bændum um 1300 eða einhverja álíka tölu. Það væru tímamót ef tillaga kæmi fram um það á Alþingi. En það, sem skiptir máli, er, hvort sem tillagan verður samþykkt eða ekki, að það liggur fyrir hver er vilji okkar flm. í þessari tillögugerð. Það er að sjálfsögðu alls ekki leitast við að koma neitt þvert á þær reglur sem nú eru fyrir hendi í landbúnaðarlöggjöf, ekki nema einn og einn vanskapnaðarkróga, eins og kjarnfóðurgjaldið á s. l. vori, og kvótafyrirkomulagið, eins og það er. Annað fær að sjálfsögðu að standa í þessari stefnumótun. Það er hins vegar farið inn á nýjar leiðir, sem bent er á og hafa verið skýrðar fyrr í þessum umr. Þetta tel ég vera jákvætt við þessa till., og það er m. a. af þessari ástæðu sem við höfum fengið fram hér á Alþingi jákvæð viðbrögð við þessum tillöguflutningi, eins og m. a. kom fram í máli hv. þm. Helga Seljans, sem sagði að hér gætu menn verið sammála um langflesta hluti. Og hvað er þá að?

Hæstv. landbrh. lýsir því yfir, um leið og hann gengur hér úr ræðustól, að það sé margt gagnlegt í þessum tillöguflutningi og flest mjög jákvætt. Hv. þm. Helgi Seljan, talsmaður Alþb. í landbúnaðarmálum á Alþingi, segir að flest af þessum málum sé með þeim hætti, að menn geti verið sammála um það. Það virðist þá helst, miðað við ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, vera Framsfl. sem hefur þá sérstöðu að geta ekki stuðlað að því að koma á skynsamlegri umræðu og skynsamlegum tillöguflutningi í landbúnaðarmálum hér á Alþingi.