10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 414 spyr hv. 2. þm. Reykn., Kjartan Jóhannsson, með hvaða hætti Flugleiðir hf. hafi efnt þau skilyrði sem sett voru við ákvörðun um heimild til ríkisábyrgðar vegna lántöku fyrirtækisins.

Í 15. gr. laga nr. 74 26. jan. 1980, um málefni Flugleiða hf., segir að við veitingu ríkisábyrgðar samkv. 1. og 3. gr. sömu laga sé ríkisstj. heimilt að setja þau skilyrði sem hún metur nauðsynleg, þ. á m. að fyrirtækið standi skil á opinberum gjöldum og aukin verði áhrif starfsfólks á stjórn félagsins með sölu hlutabréfa.

Í grg. segir um þetta atriði laganna, að heimild greinarinnar til skilyrðasetningar sé í samræmi við venju. Síðan segir, að skilyrði, sem ríkisstj. þyki nauðsynlegt að setja í sambandi við aðstoð sem í frv. felst, komi fram í samþykkt ríkisstj. frá 16. sept. 1980, og er nefnd nauðsyn fjárhagslegs aðskilnaðar Norður-Atlantshafsflugsins frá öðru flugi á vegum Flugleiða hf., aukinnar aðildar starfsfólks að stjórn félagsins og tilrauna til að bæta rekstrarfjárstöðuna t. d. með sölu eigna og aukningu hlutafjár.

Við umfjöllun frv. í fjh.- og viðskn. Alþingis svo og í viðræðum stjórnvalda og forustumanna Flugleiða hf. þróuðust ákveðnar hugmyndir um skilyrði fyrir afgreiðslu ríkisábyrgðar og voru þau tekin upp í meirihlutaálit nefndanna, þar sem mælt var með samþykkt frv. á þeim grundvelli, að 5. gr. yrði framkvæmd í samræmi við þau.

Um efndir á þessum skilyrðum er spurt, og skal ég nú fara yfir það:

Fyrsta skilyrði var að aukning hlutafjár ríkisins í 20% yrði komin til framkvæmda fyrir næsta aðalfund. Þetta hefur þegar verið framkvæmt. Ríkissjóður átti fyrir hlutabréf að upphæð 164 018 600 gkr. og vantar því til viðbótar hlutabréf fyrir 535 981 400 gkr. Frá þessu hefur verið gengið og er hlutur ríkissjóðs nú 20%.

Annað skilyrði: Starfsfólki eða samtökum þess verði á sama tím gefinn kostur á að eignast hlutafé fyrir a. m. k. 200 millj. kr. og þannig stuðlað að því að sameiginlegt atkvæðamagn starfsfólks nægi til kjörs eins fulltrúa í stjórn. Í bréfi Flugleiða hf. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísan til þess skilyrðis fyrir ríkisábyrgð til handa Flugleiðum hf., að starfsfólki eða samtökum þess verði gefinn kostur á að eignast hlutafé fyrir a. m. k. 200 millj. kr. í félaginu, og jafnframt með vísan til fyrri bréfaskrifta milli rn. og Flugleiða hf. varðandi það mál og frekari umfjöllunar um það á fundi yðar, herra ráðherra, með Sigurði Helgasyni forstjóra og Erni Ó. Johnson stjórnarformanni þann 24. nóv. s. l. viljum við taka fram eftirfarandi:

Samkvæmt ósk yðar voru Starfsmannafélagi Flugleiða hf. og fimm stéttarfélögum rituð bréf þann 26. nóv. s. l. og þau beðin að tjá félaginu óskir sínar um kaup á hlutabréfum í Flugleiðum hf. „ — Vil ég taka það fram, að mér voru sýnd þessi bréf og sýndist mér þau að öllu leyti fullnægja því skilyrði sem hér var sett. — “ Svör bárust ekki frá tveimur félaganna, þ. e. frá Flugvirkjafélagi Íslands og Flugfreyjufélagi Íslands. Tvö þeirra félaga, sem svöruðu, Félag ísl. atvinnuflugmanna og Félag flugumsjónarmanna, óskuðu ekki eftir kaupum á hlutabréfum. Stjórn Starfsmannafélags Flugleiða hf., STAFF, tilkynnti þá ósk sína að fá keypt hlutabréf fyrir 1 millj. kr., með þeim fyrirvara þó að slík kaup yrðu samþykkt á félagsfundi. Félag Loftleiðaflugmanna svaraði með bréfi, en þó ekki fyrr en 7. des., og óskaði eftir viðræðum um málið. Þær viðræður fóru fram og kom þá í ljós að Félag Loftleiðaflugmanna vildi kaupa hlutabréf fyrir 42 millj.kr. fáist þau greiðslukjör að 20 millj. kr. yrðu greiddar strax, en afgangurinn tekinn af launum á einu ári.“

Stjórn Flugleiða hafi ekki tekið afstöðu til óska þessa félags síðast þegar ég vissi, en ljóst er að nægilegt magn hlutabréfa verður óselt þó að búið sé að uppfylla ósk ríkissjóðs um 20% eignaraðild, enda verður því miður að segjast, að þrátt fyrir mörg stór orð um mikinn áhuga á að taka þátt í hlutafjáraukningu félagsins hafa svör starfsfélaga ekki orðið á þá leið. Ég tel því að einnig þessu skilyrði hafi verið fullnægt, starfsfólki hefur verið boðið að taka þátt í hlutafjáraukningu.

Þriðja skilyrði: Aðalfundur Flugleiða verði haldinn fyrir lok febr. 1981 og kosin ný stjórn í samræmi við breytta hlutafjáreign, en framhaldsaðalfundur haldinn síðar ef þörf krefur. Í bréfi rn., dags. 11. febr. s. l., segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til bréfs félagsins, dags. 9. þ. m., svo og fundar með stjórnarformanni þess hinn 6. þ. m. skal tekið fram, að rn. getur eftir atvikum fallist á að skilyrði um aðalfund Flugleiða hf. í febr. 1981, sem sett var vegna framkvæmda laga nr. 74 1980, verði breytt eins og stjórn félagsins leggur til í tilvitnuðu bréfi, þ. e. að ríkisstj. tilnefni tvo menn í stjórn nú þegar og framvegis árlega, enda verði samþykktum þannig breytt á hluthafafundi nú í febrúar. Um framanritað hefur verið haft samráð við forsætis- og fjármálaráðuneytið, svo og formenn fjh.- og viðskn. Alþingis.

Til þess að ganga frá formlegu samkomulagi við stjórn félagsins um þetta mál eru hér með tilnefndir af hálfu ríkisstj. þeir Birgir Guðjónsson deildarstjóri í samgrn. og Gunnlaugur Claessen deildarstjóri í fjmrn.“

Aðdragandi þessa máls var sá, að í jan. gekk formaður félagsins á minn fund og kvað í fyrsta lagi vera mörg tormerki á því að halda aðalfundinn í febrúar, þar sem ekki lægju þá jafnvel fyrir drög að ársreikningi félagsins sem háværar kröfur væru um meðal félagsmanna að fá að sjá áður en gengið yrði til stjórnarkjörs.

Þá vil ég jafnframt upplýsa að samþykktir félagsins eru þannig, að annað hvert ár skal kjósa fimm menn í stjórn og hitt árið fjóra. Á þeim aðalfundi, sem nú ber að halda, skal kjósa fimm menn. Af þeim á ríkið aðeins kost á að fá einn af fimm og þá einn til viðbótar að ári liðnu. Í viðræðum mínum við forsrh. og fjmrh. og svo formenn fjh.- og viðskn. þótti mönnum að því fylgdi nokkur kostur að fá þegar tækifæri til þess að tilnefna tvo menn í stjórnina og væri þar með náð því markmiði sem með hlutafjáraukningunni er að stefnt meðal annars.

Ég þarf ekki að greina frá því, hvernig þeim fundi lauk að þessu leyti sem haldinn var í febrúar. Þar voru tillögur stjórnarinnar felldar. Ég vil hins vegar geta þess, að í viðræðum þeirra fulltrúa, sem ég nefndi áðan, við þá, sem tilnefndir voru af stjórn Flugleiða, náðist ekki fullt samkomulag um það, hvaða háttur yrði á hafður í sambandi við tilnefningu þessara tveggja manna. Var því ákveðið að fylgja tillögunum til bráðabirgða, en ljúka endanlegum frágangi málsins fyrir reglulegan aðalfund. En einnig sú tillaga til bráðabirgða var felld, þrátt fyrir fylgi ríkissjóðs Sem þá hafði eignast 20% af hlutafé í félaginu.

Eftir þennan fund óskaði ég eftir því við formann félagsins, að aðalfundur yrði haldinn svo fljótt sem frekast er unnt. Og eftir því sem ég best veit er stjórn félagsins að ganga frá þeim málum nú á þessari stundu, á stjórnarfundi sem hófst eftir hádegi.

Fjórða skilyrði: Starfsmannafélagi Arnarflugs verði gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða í Arnarflugi. Með bréfi, dagsettu 24. nóv. 1980, tilkynnti stjórn Flugleiða Starfsmannafélagi Arnarflugs, að ákveðið hefði verið að verða við tilmælum um hugsanlega sölu á eignarhluta Flugleiða í Arnarflugi til Starfsmannafélagsins, og jafnframt tilnefndir þrír fulltrúar í viðræðunefnd. Starfsmannafélag Arnarflugs tilnefndi einnig þrjá fulltrúa með bréfi, dags. 27. nóv. 1980, og héldu nefndirnar fyrsta fund sinn 1. des. s. l. Frá því um miðjan des. 1980 hefur þriggja manna matsnefnd starfað. Ég lét kanna það nú fyrir örfáum dögum, hvenær vænta mætti niðurstöðu þeirrar matsnefndar. Tjáði oddamaður ráðuneytinu að hann gerði sér fastlega vonir um að takast mætti að höggva á hnútinn nú í þessari viku og matið gæti þá legið fyrir. Út af fyrir sig voru engin tímamörk sett í þessu sambandi. Engu að síður hefur þetta tekið töluvert lengri tíma en ráð var fyrir gert manna á milli, og upplýst hefur verið að þetta stafi m. a. af því, að Flugleiðir hafa gert kröfu til Arnarflugs um greiðslu á ótal liðum sem ég get ekki talið upp hér, en þar eru varahlutir, vanefndir flugtímar o. s. frv., sem ég get ekki gert skil á, og Arnarflug mun hafa svarað á svipaðan máta með miklum kröfum á hendur Flugleiðum. Þetta skilst mér að hafi staðið nokkuð í matsmönnum. En ég lít svo á að þetta skilyrði sé í gangi og því verði að sjálfsögðu fullnægt.

Fimmta skilyrði: Ársfjórðungslega verði ríkisstj. gefið yfirlit yfir þróun og horfur í rekstri Flugleiða. Við höfum fengið þau mánaðarlegu yfirlit sem stjórnin sjálf fær. Auk þess hafa starfsmenn samgrn. setið á fundum með forustumönnum Flugleiða og verið þar upplýstir um stöðu félagsins

Sjötta skilyrði: Fram fari viðræður ríkisstj. og Flugleiða um nýjar reglur varðandi hlutafjáreign í fyrirtækinu sem m. a. takmarki atkvæðisrétt einstaklinga og fyrirtækja sem hlut eiga í Flugleiðum. Báðir aðilar hafa tilnefnt menn til viðræðna um þetta mál. Hins vegar er samkv. hlutafélagalögum ekki heimilt að takmarka atkvæðisrétt umfram hlutafjáreign niður fyrir 20 prósentin nema með samþykki allra hluthafa, og það liggur þegar fyrir að hluthafar Flugleiða munu ekki samþykkja slíka takmörkun. Þó að megi segja að það eigi kannske eftir að ganga formlega frá því, þá er það þegar upplýst að þeir munu ekki samþykkja slíka takmörkun. Tel ég að það skilyrði sé þannig fallið um sjálft sig.

Sjöunda skilyrði: Norður-Atlantshafsfluginu verði haldið fjárhagslega aðskildu eins og frekast er unnt. Þetta tel ég að hafi verið gert, sérstakir reikningar hafi verið lagðir fram yfir Norður-Atlantshafsflugið. Ég get upplýst að það hefur nokkurn veginn staðist þær áætlanir sem gerðar voru. Jafnframt hér ég óskað eftir því við Loftferðaeftirlitið, að sérstaklega verði fylgst með framkvæmd þess flugs, og það hefur verið gert. Hins vegar má lengi um það deila, hvað frekast er unnt að gera í þessu máli. Það er erfitt að skilja í sundur yfirstjórn og fjölmargt annað sem tengist báðum flugleiðunum, en á þetta hefur verið lögð áhersla og ég tel að það hafi verið framkvæmt.

Herra forseti. Mér vinnst ekki tími til að svara ýmsu öðru sem hv. þm. kom inn á, en mér skilst að ég fái að koma hér upp aftur og þá get ég kannske gert það.