17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi að setningu reglna eða laga um almennar skoðanakannanir samkv. þál. er samþ. var á Alþingi 23. maí 1979?“

Ég held að það sé rétt að rekja í örfáum orðum gang þessara mála vegna þess að nú eru liðin rúm 10 ár síðan Alþingi fjallaði um skoðanakannanir, en það var á þinginu 1970, 24. nóv., sem samþ. var þáltill. um að Alþingi skyldi kjósa fimm manna nefnd í Sþ. og hún skyldi framkvæma athugun á því, hvernig skoðanakannanir yrðu best framkvæmdar með tilliti til þess að niðurstaða þeirra leiddi í ljós sem best mætti verða vilja þess hóps sem skoðanakönnunin tekur til. Hlutverk nefndarinnar skyldi vera tvíþætt:

1. Að gefa út leiðbeiningar um það, hvaða grundvallarreglum beri að fylgja við framkvæmd skoðanakannana þannig að þær gefi sem réttasta mynd af því, hvaða skoðun er ríkjandi meðal þess hóps sem könnunin nær til.

2. Nefndin skal athuga, hvort grundvöllur mundi vera fyrir því að komið yrði á fót stofnun er gegndi því hlutverki að framkvæma skoðanakannanir á hlutlausan hátt, annaðhvort að eigin frumkvæði eða fyrir aðra er til stofnunarinnar kynnu að leita.

Þannig var ákveðið verkefni nefndarinnar sem Alþingi samþykkti í nóv. 1970 að kjósa. Í þessa nefnd til að fjalla um skoðanakannanir voru valdir Ólafur Björnsson prófessor, Jónatan Þórmundsson prófessor, Friðrik Sophusson, þá stud. jur., Sighvatur Björgvinsson ritstjóri og Hjalti Kristgeirsson hagfræðingur.

Þessi nefnd mun hafa aflað sér nokkurra gagna og rætt málin, en hún mun hafa, samkv. upplýsingum formanns nefndarinnar, Ólafs Björnssonar, hætt störfum haustið 1973 eða skömmu þar á eftir svo að hún hefur ekki skilað álitsgerð eða tillögum frá sér um þetta efni.

Í maímánuði 1979 er svo flutt hér till. til þál. um almennar skoðanakannanir. Flm. voru þeir Páll Pétursson, Alexander Stefánsson og Ingvar Gíslason. Samkv. till. skyldi Alþingi fela ríkisstj. að beita sér fyrir setningu laga um almennar skoðanakannanir. Nefndin, sem fjallaði um málið og mælti með samþykkt þess, lagði til að till. yrði breytt þannig, að í stað þess að beita sér fyrir setningu laga skyldi nefndin hafa það verkefni að setja reglur um almennar skoðanakannanir. Á þann veg var þál. samþykkt 23. maí 1979, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að setja reglur um almennar skoðanakannanir.“

Síðan þessi þál var samþykkt hafa setið hér þrjár ríkisstjórnir. Tvær hinar fyrri munu ekki hafa tekið ákvarðanir í sambandi við þál. eða framkvæmd hennar. Núv. ríkisstj. hefur rætt málið og athugað hvernig nefndarskipun skuli háttað. “

Þess er að geta í þessu sambandi, að í fyrra sinnið sem ég nefndi, þ. e. í nóv. 1970, var ákveðið að kjósa pólitískri kosningu þannig að flokkarnir fengju þar menn í hlutfalli við styrkleika sinn á Alþingi. Spurningin er m. a. sú, og það mál hefur verið rætt allítarlega í ríkisstj., hvort ekki væru hentugri vinnubrögð að skipa þessa nefnd fyrst og fremst á faglegum grundvelli, en ekki flokkspólitískum. Þessum athugunum ríkisstj. er ekki lokið, en ég vil taka það fram, að það er ákveðið að nú alveg á næstunni verði skipuð sú nefnd sem þál. frá 1979 fjallar um.