17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., hefur oft áður verið rætt hér í þingsölum. Það hefur líka komið fram í þessum umr., að það eru mörg ár síðan farið var hér að leggja sérstaka áherslu á framkvæmdir á þeim hættulegu vegum sem hér er um að ræða: Óshlíðarvegi, Ólafsfjarðarmúla og Ólafsvíkurenni, og það hefur verið talað mikið um þetta.

Það hefur verið lögð áhersla á að það þyrfti að rannsaka og það hefur meira að segja verið lagt fé fram til þess að rannsaka. En allan þennan tíma hefur ekkert skeð. Það hefur ekkert verið framkvæmt. Þó virðast allir, sem hafa talað um þetta, hafa verið sammála um að það þyrfti að gera eitthvað. Hvers vegna hefur ekkert verið gert? Jú, menn hafa borið fyrir sig að það væri ekki til fjármagn til þessa. Auðvitað höfum við ekki fjármagn til alls sem gera þarf, en ég held- og tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hæstv. samgrh., fyrirspyrjanda og líka síðasta ræðumanni — að það sé nauðsynlegt að taka þessi verkefni sem alger sérverkefni. Við tölum í vegagerðinni um sérverkefni, hin stóru verkefni sem eru fjármögnuð af óskiptu vegafé. En ég á ekki við að setja þau verkefni þrjú, sem við ræðum hér um, í þann flokk, heldur í sérstakan flokk sem byggir á því, að þessar framkvæmdir mega ekki dragast lengur vegna þess hættuástands sem fylgir þessum vegum.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að hann mundi beita sér fyrir þessu máli í fjvn., og sagðist vita að hv. fyrirspyrjandi mundi styðja hann í því. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að hann ætlaði að beita sér fyrir þessu máli. Mér sýnist að málið liggi þannig fyrir nú, að það séu allir sammála um þetta: ríkisstj. hæstv. samgrh., stjórnarandstaðan og þeir aðrir þm. úr stjórnarliðinu sem helst beita sér í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir að þess vegna megum við vænta þess, að nú loks verði eitthvað jákvætt gert í þessu á þann veg að nú verði hafnar framkvæmdir. Umfram allt verðum við að hefja framkvæmdir. Þeim verður kannske í sumum tilfellum seint lokið, en við verðum að hefja þær og síðan að halda þeim áfram með þeim hraða sem unnt er.