17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Þessi umr. mun vera framhald af utandagskrárumr. sem hófust hér fyrir alllöngu um meðferð utanríkismála í ríkisstj. og það sem kallað hefur verið hugsanlegir leynisamningar um þau mál. Ég tel rétt að vekja athygli á því, að í málefnasamningi núv. ríkisstj. segir:

„Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Þetta liggur fyrir í málefnasamningi og þetta er öllum hv. þm. ljóst.

Varðandi fsp., sem hér hafa verið fram bornar, vil ég segja það, að engar aðrar sérreglur um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eða aðra þætti utanríkismála voru samþykktar við myndun ríkisstj., hvorki munnlegar né skriflegar. Það hefur ekki heldur verið gert síðan. Getsakir um einhvern leynisamning eru því úr lausu lofti gripnar. Það er því ekkert óeðlilegt þó að hv. 5. landsk. þm. kæmist svo að orði, að hann ætti ekki von á því, að hann gæti sannað að um slíkt væri að ræða.