19.03.1981
Neðri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Hv. 3. þm. Vestf. tjáði mér í gærkvöldi að hann hygðist biðja um orðið utan dagskrár að ræða þetta tilgreinda málefni sem hann gat um hér. Ég svaraði sem jafnan í slíkum tilvikum, að það mundi ég að öðru jöfnu gera ef sá hæstv. ráðh. eða sá, sem viðkomandi þm. vill beina máli sínu til, samþykkti. Hæstv. sjútvrh., sem hv. þm. ætlaði að beina máli sínu til, benti á að þetta mál hefði fengið rækilega umfjöllun á hinu háa Alþingi í ítarlegum umr. utan dagskrár. Þessi rök hlaut ég að meta gild og ákvað þess vegna að leyfa ekki umr. um þetta málefni utan dagskrár, og við þá ákvörðun mína held ég.