26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3102 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

76. mál, björgunarnet

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um úttekt á björgunarnetum. Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt till. með nokkrum breytingum sem hún flytur á þskj. 502.

Nefndin fékk umsagnir frá Slysavarnafélagi Íslands og Rannsóknanefnd sjóslysa sem mæla sem samþykkt till. Einnig fékk nefndin umsögn siglingamálastjóra sem gerir nokkrar aths. við tillgr.

Í bréfi siglingamálastjóra kemur m. a. fram, að starfsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins hafa fylgst með og tekið virkan þátt í prófun þessara björgunarneta og á þeim grundvelli hefur siglingamálastjóri þegar viðurkennt þessi björgunarnet til notkunar í íslenskum skipum og mælt með því, að þeim verði þar fyrir komið. Telur siglingamálastjóri engu að síður rétt að áður en sett verði um þau ákvæði í reglugerð um öryggismál verði málið kannað frekar og leitað umsagnar hagsmunaaðila. Er bent á Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og farmskipaeigendur. Þær brtt., sem eru á þskj. 502, eru því allar byggðar á áliti siglingamálastjóra, og mælir allshn. með samþykkt till. með þeim breytingum sem þar koma fram.