30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

258. mál, ný orkuver

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem innlegg í þessa umr. um frv. til l. um ný orkuver sem hér er á dagskrá. Orkumálin hafa reyndar verið mikið til umr. að undanförnu hér á hv. Alþingi sem utan þess og er það að vonum. Orkumálin eru sá málaflokkur sem getur skipt sköpum um framtíð byggðar og atvinnuuppbyggingar í landinu. En í framsögu með frv. flutti hv. 4. þm. Vestf. fróðlega ræðu um þróun orkumála í þá nærri átta áratugi sem liðnir eru frá því að fyrsta rafmagnsveitan var stofnsett á landinu árið 1904.

Þetta frv. felur í sér heildaráætlun um tiltekin verkefni næstu 10 árin. Hér er því um að ræða stærsta átakið sem enn hefur verið gert til að nýta orkulindir landsins.

Á sama tíma og orkulindir í heiminum hafa farið þverrandi og orkuverð hækkar stöðugt á innfluttri orku stöndum við frammi fyrir því að eiga möguleika á að hagnýta eigin orku í fallvötnum landsins og iðrum jarðar þar sem heitavatnsorkan býr. Við eigum okkar gullnámur, Íslendingar, sem hafa það fram yfir aðrar, að þær eru óþrjótandi. Það er aðeins spurningin um það, hvernig við hagnýtum okkur þessa fjársjóði í framtíðinni til að fullnægja þörfinni, ekki aðeins hvað varðar orkuþörf heimilanna, heldur einnig til atvinnuuppbyggingar í landinu. Markmiðið er að efla hagsæld og velferð þjóðarinnar og bæta lífskjörin, en til þess þarf að auka þjóðarframleiðsluna. Í orkulindum landsins höfum við möguleika á aukinni verðmætasköpun. 1. flm. frv., hv. 4. þm. Vestf., gerði ítarlega grein fyrir þessum þætti í framsöguræðu sinni, þ. e. um orkufrekan iðnað samhliða byggingu orkuvera, og ég sé því ekki ástæðu til að fara að endurtaka það sem hann sagði, en vil taka undir orð hans í þeim efnum.

Þetta frv. til laga um ný orkuver er stórmál, enda kom það greinilega fram í ræðu hæstv. iðnrh. um frv., að hann tekur þetta frv. alvarlega, og reyndar bauð hann samstöðu í þessu máli, sem mér þótti hvað ánægjulegast að heyra, því að það hefur því miður ekki oft gerst hér á hv. Alþingi þegar stjórnarandstaðan flytur jafnvel góð mál að allra dómi. Ég vil því þakka hæstv. iðnrh. fyrir það fyrirheit sem hann gaf í ræðu sinni um frv., að við megum vænta góðrar samstöðu um meginstefnu þess.

Hér er svo stórt hagsmunamál að ræða fyrir okkur Íslendinga að lita verður á það með heildarhagsmuni í huga, en ekki að stofna til togstreitu milli einstakra byggðarlaga um hvað eigi að vera fyrst í röðinni varðandi orkuveitur, eins og því miður hefur borið á í umr. um þessi mál. Hæstv. viðskrh. hefur í ræðu sinni áðan gert grein fyrir stefnu sinni og Framsfl. í þessum málum, svo að ég get ekki betur séð en við sjálfstæðismenn, sem stöndum að þessu frv., megum vænta víðtæks stuðnings við þetta frv. okkar til laga um ný orkuver.