30.03.1981
Neðri deild: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar þessi brbl. voru gefin út á gamlársdag örlaði hvergi á öðru en því, að skerða ætti bætur almannatrygginga jafnt sem laun annarra launþega. Það er ekki fyrr en framvísað er á fundi fjh.- og viðskn. Ed. till. frá okkur sjálfstæðismönnum og jafnframt tilkynningu frá fulltrúum Alþfl. um að stjórnarandstöðuflokkarnir mundu flytja brtt. um að skerðing verðbóta á laun næði ekki til bótagreiðslna almannatrygginga að ríkisstj. fer loks á stað og mannar sig upp í það 24. febr., örfáum dögum áður en bætur eiga að greiðast út fyrir marsmánuð, að setja reglugerð um hækkun bóta almannatrygginga. Í þeirri reglugerð segir að upphæðir tekjutryggingar og heimilisuppbótar skuli 1. mars 1981 hækka um 14.6% frá því sem þær voru í febr. 1981. Aðrar upphæðir bóta og greiðslur samkv. 74. gr. almannatryggingalaga skulu frá sama tíma hækka um 6%.

Jafnframt því að gefa út þessa reglugerð gefur heilbr.- og trmrn. út fréttatilkynningu þennan sama dag og þar segir:

„Á fundi ríkisstj. í morgun var samþykkt tillaga um sérstaka 8% hækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega. Jafnframt var samþykkt sérstök hækkun heimilisuppbótar, einnig 8%.“

Síðan segir: „Ofan á þessa hækkun kæmi síðan hækkun um 6% og skulu allar bætur lífeyrisdeildar almannatrygginga hækka um þá prósentu. Þannig verður heildarhækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyris og heimilisuppbótar liðlega 14%.“

Þessi setning er ósannindi, algjör ósannindi. Heildarhækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyris og heimilisuppbótarinnar er liðlega 14%, en hér er látið að því liggja að grunnlaunin eigi að hækka um 14.6%, eða liðlega 14% , öll grunnlaun og tekjutryggingin. Þannig varð þm. það á við afgreiðslu í Ed., að þeir tóku aftur tillögur sínar, vegna þess að því var flaggað að hér yrði gengið það langt, að hver sá, sem nyti tekjutryggingar eða hefði fulla örorku, ætti að fá á allar sínar bætur 14.6% hækkun. En í reynd er það þannig, að 14.6% koma á örorkubætur og tekjutrygginguna, en grunnellilífeyririnn hækkar aðeins um 6%. Ef við tökum bætur allra þessara aðila, þá hækka þær, þegar á heildina er litið, ekki um 14.6%, heldur nálægt 10.2%.

Ég spyr: Finnst mönnum óeðlilegt að greiðslur til þeirra, sem hafa minnst úr að spila, þeirra sem fá tekjutryggingu, verði ekki skertar þrátt fyrir kaupskerðingarákvæði þessara laga, þannig að þessir aðilar fái 14.6% hækkun á það sem almannatryggingarnar greiða þeim, bæði á grunnellilífeyrinn og á tekjutrygginguna?

Nú viljum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar freista þess að fá á þessu lagfæringu, þannig að það verði í reynd eins og látið var í veðri vaka þegar þessi fréttatilkynning var gefin út, að skerðingarákvæði nái ekki til grunnlífeyris þeirra sem njóta tekjutryggingar. Því leyfum við okkur að flytja hér skriflega brtt. um að við 5. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

a)Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem hafa óskerta tekjutryggingu skulu fá fullar verðbætur á grunnellilífeyri og örorkulífeyri samkv. vísitölu framfærslukostnaðar.

b) Frá 1. mars 1981 skulu verðbætur á eftirtalda bótaflokka Tryggingastofnunar ríkisins vera 10.2%: Barnalífeyrir, mæðralaun, ekkjubætur (6 mánaða og 8 ára), ekkjubætur (12 mánaða) og sjúkra- og slysadagpeningar.

Finnst þm. óeðlilegt að þessir bótaflokkar Tryggingastofnunar fái sömu hækkun og þessir tveir flokkar sem hækkuðu um 14.2%, þ. e. tekjutryggingin og heimilisuppbótin? Hver er munurinn á því? Af hverju á hækkun á barnalífeyri, mæðralaunum, ekkjubótum, sjúkra- og slysadagpeningum að vera 6% þegar hinar fara í 10.2%, sem auðvitað ættu að fara í 14.6?

Ég skil ekki af hverju ríkisstj. hefur ekki gengið hreint til verks og látið breyta frv. eins og við leggjum hér til. Hver er munurinn á heimilisuppbót til einstaklinga, sem búa einir sér, og til þeirra, sem liggja sjúkir á sjúkrahúsum eða slasaðir? Af hverju á skerðingarákvæði þessara brbl. að ná til þessara bótaflokka? Hvaða réttlæti er í því? Hver hefur fundið það réttlæti upp? Ég trúi ekki að það sé komið frá Alþb. sem hefur barist fyrir því, frá því að flokkurinn var stofnaður, að auka réttindi almannatrygginga þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu. Nú er tækifæri til að sýna að hugur fylgi máli, þegar þeir eru stjórnarflokkur. Eða hefur Framsfl. kúgað Alþb. svona harkalega til hlýðni, að gera hér verulegan mun á bótaflokkum almannatrygginganna? Hvaðan er þetta ranglæti komið, hvernig stendur á því?

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að þessar brtt., sem við flytjum hér, verði samþykktar, þó ég hefði búist við því að ríkisstj. hefði viljað hafa um það forustu sjálf í nefndinni. Hún getur engan veginn réttlætt það að hækka eingöngu heimilisuppbótina og tekjutrygginguna, en skerða grunnellilífeyrinn um 7%, það fæ ég alls ekki skilið.

Ég vil taka fram að flm. þessarar brtt. eru auk mín hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, og hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson. Við teljum að þessi brtt., ef samþykkt yrði, bæti mjög verulega úr því misrétti og þeirri rangsleitni sem þessi lög gera ráð fyrir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég endurtek að það er mikilvægt atriði að gera þessa leiðréttingu, nógu slæm eru þessi brbl. þrátt fyrir það.