31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

265. mál, olíuviðskipti við Breta

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. viðskrh. um það, að viðskipti af þessu tagi verði ekki metin á grundvelli stundaruppgjörs. Ég held að þingheimi hljóti að vera ljóst að sveiflurnar, sem við höfum mátt búa við á Rotterdam-markaði, þær einar sér, hvað sem verðlaginu að jafnaði líður, hafi verið mjög óþægilegar og við höfum oft fengið að reyna það, að jafnaðarverð á Rotterdam-markaði væri hærra en líkur benda til að við hefðum þurft að gefa fyrir olíu með öðrum hætti. Ég tel mjög mikilvægt í þessum efnum, að ekki séu öll egg í einni körfu, og tek undir þau sjónarmið hæstv. ráðh., að það sé öryggi að því að viða að sér olíu úr fleiri en einni átt. Ég tel að það beri að vinna að því áfram og hafa öll spjót úti og athuga líka um möguleika á kaupum á hráefni. Öryggisþátturinn í þessum málum verður ekki ofmetinn.

En það er tvennt annað, sem varðar öryggi okkar í þessum efnum, sem ástæða væri til að drepa fáeinum orðum á. Olíuviðskiptanefnd skilaði áliti, eins og kunnugt er, og mælti þar m. a. með því, að við gerðumst aðilar að Alþjóðaorkumálastofnuninni. Sú aðild var undirbúin í tíð fyrrv. ríkisstj. og þá var undirbúið að skýrsla yrði samin um þetta efni. Sú skýrsla hefur verið samin og henni hefur verið dreift sem trúnaðarmáli. Nú vil ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh. hvort ekki sé hugmyndin að gera þessa skýrslu opinbera, en þó vildi ég ekki síður spyrjast fyrir um hvað dvelur það, að sótt sé um aðild að Alþjóðaorkumálastofnuninni sem olíuviðskiptanefnd taldi að væri mikið öryggisatriði fyrir okkur Íslendinga að vera aðilar að. Ég held að meginþorri þm. sé af þeim umræðum, sem þar hafa farið fram, þeirrar skoðunar, að öryggi mundi einmitt að því að við gerðumst aðilar að Alþjóðaorkumálastofnun.

Að lokum, herra forseti. Ég tók eftir því nýlega, að það var haft eftir hæstv. ráðh. að nægilegt birgðarými fyrir olíuvörur væri hér í landinu. Þetta kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir. Ég vil spyrjast fyrir um það, hvort þarna hafi verið rangt eftir ráðh. haft. Ég kannast betur við það sjónarmið, að heldur þröngt sé um birgðarými í landinu og það sé eitt af því sem veldur öryggisleysi hér á landi. Ég vænti þess, að ráðh. geti svarað þessari spurningu, hvort það sé virkilega álit hans að birgðarými sé hér nægjanlegt eða hvort gripa skuli til ráðstafana til að auka birgðarýmið eða hvort hann sé í þessu svari sínu að gera ráð fyrir að þeir tankar, sem rísa munu í Helguvík, muni leysa það mál.