01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3292 í B-deild Alþingistíðinda. (3399)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 516 hef ég leyft mér að leggja fram frv. um breytingu á lögum um jafnrétti kvenna og karla frá 1976. Mér var það fullvel ljóst þegar ég lagði fram það frv. sem hér er til umr., að skiptar skoðanir væru um þær leiðir sem hér eru lagðar til, en hér er gerð tilraun til þess enn á nýjan leik á hv. Alþingi að leita leiða sem tryggi að ekki sé hægt að sniðganga rétt kvenna til atvinnu og launakjara til jafns við karlmenn. Mér er það einnig fullvel ljóst, að hér er gripið til neyðarúrræða. En stundum er það svo í okkar þjóðfélagi að grípa verður til harðra og jafnvel umdeildra aðgerða til þess að réttlætið nái fram að ganga. Það er mín skoðun, að Alþingi beri að fjalla um og taka af fyllstu alvöru á þessu máli þegar það sýnir sig að þau lög, sem Alþingi hefur sett til að tryggja jafnrétti kvenna og karla, eru sniðgengin og hafa ekki náð tilgangi sínum. Frá því máli getur hv. Alþingi ekki skotið sér að finna leiðir í samráði við verkalýðshreyfinguna og þau samtök, sem láta sig þessi mál varða, finna ráð sem duga til að á þessu máli verði tekið af einbeitni og fyllstu alvöru.

Ekki vil ég að óreyndu draga í efa vilja hv. þm. til að tryggja sem best í framkvæmd jafnrétti kvenna og karla til atvinnu og launakjara, og það er von mín, að við meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi verði málefnalegar umr. um hvernig taka beri á þessu máli.

Sú leið, sem ég legg til í frv., þarf ekki að vera sú eina rétta í stöðunni, en það er von mín, að með því að færa málin inn á Alþingi verði leitað sameigintegra leiða og að það sýni sig að vera vilji fyrir því hér á hv. Alþingi að taka á þessu máli. Óyfirvegaðar, vil ég segja, yfirlýsingar einstakra fjölmiðla og einstakra þm. í fjölmiðlum vegna þessa frv. hafa fært mér heim sanninn um það, að nauðsynlegt var að flytja þetta mál inn á Alþingi. Upphrópanir eins og „fáránleg tillaga“ eða „ég vil ekki lögfesta misrétti“ og „brot á stjórnarskránni“ sýna að þeir, sem láta sér slíkt um munn fara, þekkja ekki vel undirrót þess eða aðdraganda, að slík tillaga skuli nú vera komin fram á Alþingi. Vona ég að þessar upphrópanir endurspegli ekki afstöðu þm. almennt til þessa máls og að þm. hafi almennt vilja til að leita úrbóta í þessu máli.

Þegar við lítum til áratuga þrotlausrar baráttu kvenna fyrir jafnrétti, þá er ekki til of mikils mælst að segja að konur eigi kröfu á því að málefnaleg umræða eigi sér stað um hvaða leiðir séu til úrbóta í þessu máli. Sögu þeirrar baráttu ætti ekki að vera þörf að rifja upp hér á hv. Alþingi, svo oft sem þessi mál hafa verið til umræðu í sölum Alþingis. Ég tel þó engu að síður nauðsynlegt að fara inn á örfá atriði, ef vera má að það varpi nokkru ljósi á hvað gefur tilefni til þess að reyna að knýja á um jafnrétti eftir öðrum leiðum en hingað til hafa verið farnar.

Í grg. með frv., sem lagt var fyrir 81. löggjafarþing árið 1960, um launajöfnuð kvenna og karla, segir svo, með leyfi forseta:

„Baráttan fyrir jöfnum launum kvenna og karla er ekki einvörðungu kjarabarátta af hálfu kvenna heldur engu síður barátta fyrir fullkomlega jöfnum mannréttindum. Þegar endanlegur sigur hefur unnist í þessari baráttu er jafnréttisbaráttunni lokið, því að á öðrum sviðum mannréttinda hafa konur fyrir löngu öðlast sama rétt og karlar.“

Ástæða er til að rifja þessi orð upp hér og nú, því að baráttunni fyrir fullu jafnrétti milli karla og kvenna, sem þá hafði staðið um margra áratuga skeið, lauk ekki með samþykkt þess frv. sem ég vitnaði til, sem kvað á um að fullum launajöfnuði milli karla og kvenna skyldi náð á árinu 1967. Að vísu hafði þá með samþykkt þess frv. náðst fram fullt lagalegt jafnrétti, en baráttunni var engan veginn lokið þá og er ekki enn.

Ég vil í örstuttu máli rifja upp nokkur þeirra laga sem átt hafa að tryggja lagalegt jafnrétti kvenna og karla, sérstaklega er lúta að rétti þeirra til atvinnu, menntunar og launakjara.

Fyrst var það árið 1891 að fram kemur tillaga um fullt jafnrétti kvenna á við karla um vist í æðri skólum og rétt til embætta, en þá hafði lengi staðið yfir barátta um kosningarrétt og kjörgengi kvenna. Er það svo fyrst árið 1911 að samþykkt er á Alþingi jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Á ýmsu hafði þá gengið í þingsölum, og er það víst mála sannast að ekki hefur það gengið þrautalaust fyrir sig á hv. Alþingi að fá lagalegt jafnrétti kvenna og karla og ekkert hefur konum verið fært á silfurdiski í þeim efnum. Má vera að sú tregða, sem var á að konur fengju lagalegt jafnrétti, endurspegli nokkuð þá tregðu sem í ljós hefur komið við framkvæmd allrar þeirrar lagasetningar sem tryggja átti þeim jafnrétti. Það er fróðlegt að lesa ummæli sumra þm. einmitt þegar sú barátta fyrir lagasetningu stóð yfir fyrir um það bil 80–90 árum. Ekki vil ég beint segja að það endurspegli umr. nú í dag, við framkvæmd laganna á því herrans ári 1981, en ekki er örgrannt um að það örli á því, ekki síst nú við framlagningu þessa frv. Gagnrýni blandna hneykslun og fordómum má lesa út úr ummælum sumra þm. fyrir nokkrum áratugum. Hvað verður nú mun koma í ljós. Kemur það glögglega fram hjá sumum þm. á þeim tíma, að þeir beri ugg í brjósti ef konur fái réttindi á við karlmenn. Kemur þetta vel fram í bók Gísla Jónssonar menntaskólakennara, sem ég vil nokkuð fá að vitna í, með leyfi hæstv. forseta, en hún er um þætti úr sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu. Einn þm. Jón í Múla, hafði þetta m. a. að segja:

„Ég er svo sannfærður sem maður getur verið að öll þessi svonefnda kvenréttindahreyfing, sem nú er að ná yfirtökunum, er óheillaspor er hlýtur að leiða til lífskvalar, sem þó mun varla vera á bætandi.“

Aðrir töldu lítið að óttast, eins og Bjarni frá Vogi, og sagði hann: „En nú er þess að gæta þar sem konum er ætlaður kosningarréttur, að konur eru íhaldssamari og er því engin hætta á hvirfilbyljum. Tilfinningar þeirra eru stöðugri,“ sagði Bjarni, „það er sögunnar kenning.“

Annar þm. óttaðist yfirráð kvenna í öllum hreppsnefndum og sagði að svo gæti farið, að til að mynda í hreppsnefndum yrðu eintómar konur. Sumir töldu sig vera að hlífa kvenþjóðinni. Konum væri enginn greiði gerður með því að auka réttindi þeirra. Hafði einn þm. þetta að segja:

„Karlmenn hafa tekið að sér störfin út á við. Pólitísku störfin eru ekkert leikfang, þau eru hálfgert skítverk. Og við þess konar störfum eigum við að hlífa kvenþjóðinni.“

En konurnar áttu sér líka góðan málsvara. Bjarni frá Vogi sagði t. d. þetta:

„Og um kynferðið er það að segja, að það er nú öllum ljóst, að hér er um gamlar ófrelsisleifar að ræða og tel ég það ósæmilegt svo menntuðum mönnum sem Íslendingar eru að sýna þann hroka að álita sig sjálfkjörna til þess réttar, en vilja gera mæður sínar að hornkerlingum.“

Jón í Múla andmælti frv. um embættisveitingar, taldi að konur mættu vel una við það sem þær nú hefðu. Bjarni frá Vogi andmælti þessu harðlega og sagði að konur væru síst atgervisminni en karlar. Hann kvaðst þekkja til þess, að konur færu í eyjar og fiskiróðra í Breiðafirði og væru alveg eins duglegar og karlar, að vísu ekki eins sterkar, en seigari og úthaldsbetri, og einn af bestu formönnum við Breiðafjörð hefði einmitt verið kona. Einn taldi að meiri siðprýði fylgdi því að konur tækju þátt í pólitíkinni. Sagði hann það ávinning ef kvenfólkið, sem væri óspilltara og hefði næmari tilfinningu fyrir því sem væri sæmilegt og ósæmilegt, tæki þátt í pólitíkinni ásamt karlmönnum. Þá yrði spillingin minni sem pólitíkinni fylgdi svo sárlega.

En margar voru gagnrýnisraddirnar, og sagði Jón Ólafsson t. d. að þótt hann styddi frv. um jafnrétti til embætta, þá teldi hann hæpið að veita konum lögreglustjóra- og dómarastarf, a. m. k. þar til þær væru af fertugsaldri. Sýslur væru erfiðar yfirsóknar og hverri konu væri ofætlan að vera sýslumaður. Þar að auki gætu giftar konur — og raunar ógiftar líka — haft náttúrleg forföll, og mundi það t. d. í Austur-Skaftafellssýslu þykja óhagræði ef sýslumaðurinn lægi á sæng þegar hans væri vitjað til að rannsaka glæpamál eða kveða upp varðhaldsúrskurð eða tæki léttasóttina þegar hún væri í manntalsþingaferð.

Björn Sigfússon á Kornsá, sem svaraði Jóni, var snöggur upp á lagið og sagði að karlmenn væru ekki frekar en kvenmenn vátryggðir fyrir sjúkdómum, sýslumenn gætu fengið lungnabólgu og héraðslæknar gigt. Léttasóttarforföll kæmu engum á óvart og gætu tæpast orðið eins bagaleg og skyndileg og fyrirvaralaus sjúkdómstilfelli karla er enginn sæi fyrir. Var það vel mælt hjá Birni.

Bogi Melsteð talaði um ómerkilegt smámál og hefði þingið annað þarfara að gera en fjalla um slíkt. Önnur ummæli þm. voru að konur hefðu ekki beðið um þetta og óþarfi og ástæðulaust af þinginu að fara að skenkja þeim þetta að fyrra bragði.

Hannes Hafstein sagði að hann og hans skoðanabræður vildu koma í veg fyrir að kona, sem sækti um embætti og bæði að andans og líkamsburðum væri hæfari en mótkandídatinn, væri útilokuð af þeirri ástæðu einni að hún væri kona. Slíkt væri hróplegt ranglæti og heilög skylda hins vegar að nema slíkt misrétti úr lögum. Annar var ekki á sama máli og sagði að þótt konur væru guðs gjöf og góðar til síns brúks, þá væru þær ekki færar í embætti sem karlmönnum væru sérstaklega ætluð.

Ég læt hér lokið tilvitnunum í þessa ágætu bók Gísla Jónssonar menntaskólakennara um þætti úr sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu, þó að margt fleira mætti tína þar til sem lýsir vel að réttur kvenna á við karlmenn hefur aldrei verið auðsóttur. Ég tel nú að allir geti verið sammála um það, að hrakspár þeirra, sem töluðu gegn jafnrétti kvenna og karla á þeim tíma, hafi ekki átt við rök að styðjast. Ekki hafa konur yfirtekið öll sæti í hreppsnefndum, bæjarstjórnum eða á Alþingi, nema síður væri, og hræðslan um að kvenréttindi væru óheillaspor sem hlyti að leiða til lífskvalar, eins og einn hafði á orði á þeim tíma, ja, það geta karlmenn að vísu best dæmt um sjálfir, hvort þeir hafa liðið kvalir fyrir réttindi kvenna. En ég vil vona að svo illa hafi réttindi kvenna ekki leikið karlmenn að þeir hafi liðið lífskvalir fyrir.

Þessi ummæli eru hér rifjuð upp til þess að lýsa þeirri tregðu sem var á að konur fengju viðurkennt með lögum jafnrétti á við karlmenn, og því verður ekki neitað, að hennar gætir enn við framkvæmd laganna. Meðan svo er ríkir ekki jafnrétti, meðan svo er verður að leita nýrra leiða til að ná því jafnrétti.

Á Alþingi 1893 er minnst á misréttið í launamálum karla og kvenna, og sagði Magnús Stephensen þá við umr. á Alþingi að hann teldi sig ekki kunna við það að sjá kvenmenn bera kolapoka upp á bryggjurnar í Reykjavík og fá ekki nema hálfa borgun á við karlmenn. Það er ekki lengra síðan en 70–80 ár að konur voru hálfdrættingar á við karlmenn í launum. Á miklu gekk áður en konur öðluðust með lögum rétt til sömu launa. Í því moldviðri, sem þyrlað hefur verið upp út af einu ákvæði þessa frv., vil ég leggja áherslu á að í raun er það miklu minna mál og nær í raun til mun færri kvenna, ef að lögum verður, í samanburði við ákvæði 4. gr. frv. sem kveður á um að veita Jafnréttisráði framlag til að standa fyrir könnunum á launakjörum á vinnumarkaðinum. Það ákvæði, ef framkvæmt yrði, gæti haft veruleg áhrif á kjör fjölda kvenna á vinnumarkaðinum. En þessu ákvæði virðist vera minni gaumur gefinn og því vil ég gera þeim málum nokkur skil og tel rétt í örfáum orðum að minna á baráttu kvenna fyrir launajafnrétti fyrir ekki ýkjalöngu. Sú saga segir okkur að við verðum að halda vöku okkar í þessu máli.

Mig langar til, með leyfi forseta, að rifja upp nokkur orð úr grein, sem ég las fyrir nokkru og skrifuð var þegar fyrsta stéttarfélag kvenna varð 30 ára árið 1944, en það var stofnað 1914. Þetta er stutt lýsing, en segir nokkuð margt.

„Á fyrsta tug þessarar aldar og áður en Verkakvennafélagið Framsókn var stofnað gengu konur til kola-, salt- og timburvinnu og var ekki svo sjaldgæft að sjá konur rogast með kola- og saltpoka niður við höfn í uppskipun úr skipum við hlið karlmanna. Ekki höfðu þó konurnar sama kaup og karlmennirnir þrátt fyrir sömu vinnu, því að kaup karla var 25 aurar á tímann en kvennakaupið var 12 aurar á tímann. Sama kaup var borgað hvort sem unnið var í dag-, nætur- eða helgidagavinnu og unnu þær oft 16 tíma á sólarhring við kolauppskipun.“

Í sömu grein segir: „Þetta er ekki falleg lýsing á lífskjörum kvenna hér áður fyrr. Má þó til nefna enn ljótari lýsingu á lífskjörum þeirra og réttleysi gagnvart húsbændum sínum fyrir ekki meira en 30–40 árum eða kringum 1900. Sú stétt kvenna, er vinnukonur nefnast, höfðu þá 5 kr. á mánuði, en svo skammt voru þessar konur frá því að geta talist ambáttir húsbænda sinna, að þær voru sendar á eyrina til fiskvinnu og annarrar hafnarvinnu, ekki fyrir þessa 12 aura á tímann, heldur sitt fasta mánaðarkaup. Síðan hirtu húsbændurnir kaupið er þær höfðu unnið fyrir við uppskipunina.“

Við fiskvinnslu unnu því þessar konur á þeim árum, báru börur við breiðsluna og á öðrum endanum á börunum var karlmaður, sem hafði 24 aura á tímann, en á hinum endanum kona sem hafði 12 aura á tímann. Konurnar risu upp, mótmæltu og stofnuðu sitt eigið stéttarfélag. Þær börðust réttlátri baráttu við erfið skilyrði gegn kúgun og ofbeldi, en aldrei létu þær deigan síga í þessari löngu og hörðu baráttu. 5 aura, 10 aura hækkun á tímann frá ári til árs, en alltaf færðust þær nær markinu. Eftir 60 ára þrotlausa baráttu öðluðust konur svo loks jafnrétti til sömu launa fyrir sömu störf og fengu viðurkennt að þær væru sjálfstæðir einstaklingar sem ættu að bera sama úr býtum og karlmenn fyrir sömu vinnu. Þetta rifja ég upp hér og nú, því að þessi stutta lýsing lýsir vel baráttu kvenna fyrir launajafnrétti, og þó að margt hafi áunnist og þessi lýsing eigi ekki við í dag, þá er ágætt að rifja hana upp þegar enn skortir töluvert á launajöfnuð. Við heyrum ekki minnst á forréttindi karla í þessu sambandi þó að vitað sé að í mörgum tilfellum fá þeir hærri laun fyrir sömu störf. Við heyrum ekki minnst á forréttindi þó að slíkt viðgangist.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu kom það fram í grg. með frv. um launajöfnuð karla og kvenna, sem lagt var fram 1960, að þegar því marki væri náð að tryggja launajafnrétti kvenna og karla með lögum, þá væri jafnréttisbaráttunni lokið. Þeir, sem því spáðu 1960, reyndust ekki sannspáir, því að svo er ekki enn, og mun ég rökstyðja það síðar í máli mínu. Því miður er það oft svo enn, að konurnar vinna hinum megin við börurnar á lægri launum.

Árið 1973 kemur fram á Alþingi frv. um Jafnlaunaráð. Eins og segir í grg. með því frv. var tilgangur þess að tryggja framgang laga um jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Segir þar einnig að reynsla undanfarinna ára og áratuga sýni að lagasetning ein nægi ekki til þess að fullkomið jafnrétti sé tryggt í þessum efnum.

Síðar í grg. segir að enda þótt Jafnlaunaráði sé ætlað að þjóna báðum kynjum jafnt verði að leggja sérstaka áherslu á gildi þess fyrir konur. Þeir þm., sem þátt tóku í umr. um frv., tóku undir að framkvæmd laga um jafnrétti karla og kvenna væri ábótavant. Í þeirri umr. sagði m. a. hv. þm. Helgi Seljan, með leyfi forseta:

„Það mun ekki teljast þörf á því að fara mörgum orðum um frv. þetta, svo mjög sem um það hefur verið rætt innan þings og utan. Kveikjan að því liggur í þeirri staðreynd, að hvergi nærri er um fullan launajöfnuð að ræða milli karla og kvenna í okkar þjóðfélagi, þó að þar hafi margt áunnist, að vísu að undangenginni áratuga baráttu. Frv. lýtur í grundvallaratriðum að því, hvernig tryggja megi launajafnrétti í reynd og koma í veg fyrir að vinnuveitandi, hvort sem það er einkaaðili eða opinber aðili, geti á einhvern hátt sniðgengið jöfnuð í þessum efnum eða mismunað starfsfólki sínu á einhvern hátt eftir kynferði einu saman, án tillits til menntunar eða hæfileika.“

Hv. þm. Sverrir Hermannsson, forseti þessarar deildar, tók þátt í þessari umr. Taldi hann margt ofsagt um ríkjandi ástand í grg. frv., en sagði þó orðrétt, með leyfi forseta:

„En allt innihald þessa frv. er á þá vísu, að hér sé ríkjandi hið ægilegasta ástand á vinnumarkaðinum hvað varðar misrétti, þar sem kynjunum sé mjög mismunað, bæði hvað laun snertir og varðandi stöðuveitingar. Ég játa að fjarri fer því, að jöfnuður í þessum efnum hafi náðst og nægilega hafi verið að því staðið að konur njóti þess jafnræðis sem þeim ber.“

Nauðsynleg þótti því á þessum tíma ný lagasetning sem tryggði jafnrétti í reynd, þrátt fyrir að konur höfðu öðlast lagalegt jafnrétti á við karla. Það kom þá glögglega í ljós með samþykkt þessa frv., að viðurkennt var af Alþingi að misrétti væri á vinnumarkaðinum hvað varðaði jafnrétti kvenna til atvinnu og launakjara.

Nú skyldi maður ætla að málið væri í höfn og með þessari lagasetningu yrði tryggt jafnrétti. Nei, svo reyndist ekki vera, því að árið 1976 er enn á ný talin þörf fyrir enn eina nýja lagasetningu til að tryggja jafnrétti karla og kvenna, sem hét upphaflega frv. til l. um jafnstöðu kvenna og karla, en var í meðförum Alþingis breytt í frv. um jafnrétti kvenna og karla. Þegar þáv. félmrh. mælti fyrir frv. sagði hann, með leyfi forseta:

„Það er hlutverk og tilgangur þessa lagafrv. að stuðla að jafnrétti og jafnstöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Þótt konur og karlar búi við sama lagalegan rétt til menntunar, atvinnu og launa, þá skortir í raun nokkuð á að jafnstaða og jafnrétti kynjanna ríki á þessum sviðum.“

Og síðar í ræðu sinni segir þáv. félmrh. og núv. forsrh., með leyfi forseta: „Vorið 1975 lá fyrir niðurstaða af könnun sem námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands hafði verið falið af félmrn. að gera. Þessi skýrsla fjallar um raunverulegt jafnrétti kvenna og karla að því er varðar menntun, störf, launakjör og hvers konar þátttöku í félagslegum verkefnum. Í skýrslunni kemur fram að konur hafi almennt minni og einhæfari menntun en karlar. Þar kemur einnig fram að þjóðfélagsleg forusta á Alþingi, í sveitarstjórnum, í embættismannakerfi, í stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum er nær algerlega í höndum karla. Í niðurstöðum skýrslunnar kom fram að án nýrra aðgerða og breyttra viðhorfa verði ekki um að ræða umtalsverðar breytingar í jafnréttismálum kynjanna í náinni framtíð.“

Er vert að undirstrika sérstaklega þessa niðurstöðu af könnun, sem námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands komst að, að án nýrra aðgerða og breyttra viðhorfa verði ekki um að ræða umtalsverðar breytingar á jafnréttismálum kynjanna í náinni framtíð. Flestir, sem þátt tóku í þessari umræðu, töldu nauðsyn á enn nýrri löggjöf. Og enn á ný var samþykkt löggjöf sem tryggja átti jafnrétti kynjanna. Með samþykkt hennar hafði Alþingi enn á nýjan leik komist að raun um að misrétti ríkti í þessum málum. Árið 1981— eða 5 árum síðar — er enn talið nauðsynlegt að Alþingi gripi inn í og er lagt fyrir Alþingi frv. um þetta efni. Og nú standa alþm. frammi fyrir þeirri spurningu, hvernig þeir vilja taka á þessu máli. Er vilji alþm. að hreyfa ekki málinu? Er vilji alþm. að gera á frv. einhverjar minni háttar breytingar, sem reynslan frá 1973 og 1976 sýnir að litlum árangri skila, eða er vilji til að reyna nýjar leiðir, jafnvel umdeildar leiðir sem gætu þá skilað árangri?

Ljóst er af því, sem ég hef hér sagt, að lög hafa verið sett á lög ofan gegnum árin til að tryggja jafnrétti kynjanna. Ekki skal það vanmetið að margt hefur áunnist, en enn skortir mikið á jafnrétti í atvinnulífinu og á það ekki hvað síst við um launakjörin. Ekki skal úr því dregið, að konur eiga sinn þátt í því einnig að hægt hefur miðað. En við skulum um leið ekki gleyma því, að þær sjálfar eiga oft erfitt með að fylgjast með t. d. að þær séu ekki hlunnfarnar í launum. Taxtakaupið segir ekki nema hálfa söguna og erfitt er að fylgjast með yfirborgunum og öðrum duldum greiðslum á vinnumarkaðinum.

Konur hafa á síðustu árum í vaxandi mæli farið út á vinnumarkaðinn og samhliða hefur menntun kvenna verulega aukist. Hins vegar er ljóst að konur leggja á sig tvöfalt vinnuálag þegar þær jafnhliða vinna að verðmætasköpun í atvinnulífinu. Þarf því engan að furða að konur sætti sig ekki við að á rétt þeirra sé gengið með verri kjörum, minni möguleikum að öðru jöfnu til embættisveitinga eða áhrifa til stefnumótunar í þjóðfélaginu í heild.

Könnun hefur verið á því gerð, hve margar konur luku prófi frá Háskóla Íslands 1975 og til samanburðar 1980. Kemur þar fram veruleg aukning á þessu tímabili, en þar segir, með leyfi forseta:

„Árið 1975 útskrifuðust alls 47 konur, en á árinu 1980 160. Hins vegar ber enn mjög á kynbundnu vali í námsgreinum. Þannig eru enn tiltölulega fáar konur sem ljúka prófi í verkfræði, guðfræði, læknisfræði og lögfræði og tiltölulega fáir karlar sem ljúka B.A-prófi í heimspekideild og B.S.-prófi í hjúkrunarfræðum, og virðist ekki hafa orðið mikil breyting á því á þessu tímabili. Í heildina verður þó að segja að þróunin á þessu sviði menntunar hefur verið mjög jákvæð á umræddu tímabili.“

Með aukinni menntun og virkni kvenna í allri þjóðfélagsuppbyggingunni er því í vaxandi mæli að skapast sá þrýstingur, að ekki verður lengur við unað að réttur kvenna samkv. lögum sé fyrir borð borinn.

Í 2. gr. laganna frá 1976 segir að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Og í aths. við þá grein segir m. a., með leyfi forseta:

„Fyrsta skilyrðið til þess, að raunhæfu jafnrétti verði náð, er að konum og körlum verði veittir jafnir möguleikar til menntunar og atvinnu og greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Er þessari grein ætlað að útrýma þeim mismun sem ríkir í þessum efnum í atvinnulífinu og þjóðfélaginu yfirleitt.“

Þegar þáv. félmrh., núv. forsrh., mælti fyrir frv. sagði hann m. a. um þessa grein: „Með slíkri yfirlýsingu er lögð áhersla á að opinberir aðilar eigi að leggja áherslu á jafnrétti kynjanna við framkvæmd mála.“

Nú hafa þessi lög verið í gildi um fimm ára skeið og þrátt fyrir fögur áform og góðan tilgang laganna verður ekki séð að þau hafi markað spor í þá átt að breyta ríkjandi viðhorfum og flýta fyrir því, að fullt jafnrétti kynjanna náist. Tilgangur Alþingis 1976 með þeirri lagasetningu var hvorki meira né minna en að útrýma þeim mismun, eins og það er orðað, sem ríkir í þessum efnum. Það verður að vona, að sá vilji, sem þá var fyrir hendi, sé enn til staðar á hv. Alþingi. Ef sá vilji er enn fyrir hendi hlýtur hann að koma fram hér í umr. Þá hljóta þeir þm. — þess verður a. m. k. að vænta, að þeir þm., sem ekki eru tilbúnir að samþykkja þá leið sem hér er lögð til, leggi a. m. k. fram aðrar lausnir sem skili að settu marki. Það lýsir ekki stuðningi við jafnrétti ef eingöngu á að gagnrýna án þess að benda á aðrar lausnir. Gagnrýni eða lög á lög ofan, sem sýna sig að duga ekki til, skila konum ekki þeim mannréttindum sem kröfu verður að gera til, til að tryggja þeim jafnrétti í raun og sannleik. Það er nefnilega kominn tími til að athafnir komi í stað orða.

Í fjölmiðlum hefur lagaprófessor sagt, að þetta ákvæði gangi gegn þeirri grundvallarstefnu sem felst í stjórnarskránni og að ákvæðið sé eins og gustur aftan úr öldum og fleira í þeim dúr, og vitnar þar í ákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að ekki megi binda í lög sérréttindi er bundin séu við aðal, nafnbætur eða lögtign. Ég verð nú að segja það, að ég tel það frekar vera gust aftan úr öldum að tengja ákvæði þessa frv. því ákvæði stjórnarskrárinnar sem tilheyrir fortíðinni og sett er við allt aðrar aðstæður. Einn þm. hefur reyndar gengið svo langt að láta hafa eftir sér í fjölmiðlum að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Og Morgunblaðið gekk svo langt í hamaganginum, að með flennifyrirsögnum er slegið upp að frv. sé brot á jafnréttislögunum. Slík firra var auðvitað leiðrétt tveim dögum síðar, en á eins lítið áberandi hátt og Morgunblaðinu vár mögulegt. Hér hefur því verið fullyrt og gagnrýnt án þess að skoða málið og meta, hvers vegna slíkt ákvæði er komið fram, og án þess að ræða málið á málefnalegan hátt. Það er einmitt þessi meðferð málsins sem ég vænti að þm. muni forðast. Ég tel að með góðum rökum sé hægt að sýna fram á að ekki sé um stjórnarskrárbrot að ræða. Ákvæði það, sem vitnað er til, er í 78. gr. stjórnarskrárinnar. Segir þar að sérréttindi, er bundin séu við aðal, nafnbætur og lögtign, megi ekki taka í lög. Ég tel að það sé ansi langsótt að hengja sig á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar til að reyna að gera tortryggilega þá leið sem hér er lögð til.

Árið 1874 er þetta ákvæði sett í stjórnarskrána og var sett m. a. vegna þess að Íslendingar vildu ekki innleiða þá stéttaskiptingu, aðal og forréttindi, sem ríkti í Evrópu og víðar á þeim tíma. Í viðtali við Alþýðublaðið 28. mars staðfestir Jónatan Þórmundsson lagaprófessor einmitt þetta sjónarmið, en hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég veit ekki til að það séu í stjórnarskránni nein ákvæði sem umrætt atriði gæti varðað við. Í 78. gr. stjórnarskrárinnar segir að sérréttindi, sem bundin séu við aðal, nafnbætur og lögtign, megi ekki taka í lög. Ég fæ ekki séð að í því sé fólgin aðalstign eða önnur sérréttindi að vera kona. Það eru sögulegar ástæður, sem liggja að baki þessu ákvæði stjórnarskrárinnar, sem ekki eiga lengur við. Þetta er ákvæði frá 1874 og var sett inn við allt aðrar aðstæður en nú eru fyrir hendi. Það hefur ákaflega lítið verið rætt um þetta ákvæði, einfaldlega vegna þess að það tilheyrir fortíðinni. Það dettur engum í hug að setja slík sérréttindi í lög nú.“

Nei, þessi dæmi, sem ég hef hér rakið, eru bara dæmi um það, hvernig reynt er að snúa á versta veg þessu máli og gera það tortryggilegt þegar neitað er að horfast í augu við staðreyndir.

Í því frv., sem nú er lagt fram, felast tvær meginbreytingar. Sú fyrri er í 2. gr. þar sem segir: „Þegar um er að ræða starf, sem frekar hafa valist til karlar en konur, skal konunni að öðru jöfnu veitt starfið. Gildir þetta jafnt um embættisveitingar hjá hinu opinbera sem og á hinum almenna vinnumarkaði. Ákvæði þetta skal endurskoðað að 5 árum liðnum.“

Og hin síðari er í 4. gr. þar sem segir: „Á fjárlögum ár hvert skal veita Jafnréttisráði framlag sem geri því kleift að standa fyrir könnunum á launakjörum karla og kvenna.“ Vil ég fyrst víkja að þeirri grein.

Ljóst er að Jafnréttisráð er ekki í stakk búið til að fylgja eftir framkvæmd ákvæða 2.gr. jafnréttislaganna sem kveður á um að greidd séu jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Frá upphafi hefur Jafnréttisráð leitað eftir að fá aukið starfslið, sem er m. a. forsenda fyrir að hægt sé að standa fyrir könnunum á launakjörum í landinu og fylgjast með að launajafnrétti kvenna og karla sé í reynd virt. Þær óskir hafa hingað til engan árangur borið. Jafnréttisráð getur því einungis lagt til grundvallar við mat á framkvæmd þessa ákvæðis umsamda launataxta á vinnumarkaðinum, en ljóst er að slík viðmiðun er enginn mælikvarði á raunveruleg launakjör í landinu. Því er Jafnréttisráði að óbreyttu gert ókleift að fylgjast með því, að launajafnrétti ríki milli karla og kvenna á vinnumarkaðinum. Forsenda fyrir því, að Jafnréttisráð geti á raunhæfan hátt fylgst með slíku, er að því sé unnt að standa fyrir skipulegum könnunum á vinnumarkaðinum á raunverulegum launakjörum í landinu.

Í 10. gr., 5. tölul., laganna er Jafnréttisráði gert að gera slíkar kannanir, en þar segir að eitt af verkefnum Jafnréttisráðs sé að taka til rannsóknar af sjálfsdáðum, ef brögð kunna að vera að misrétti í jafnréttismálum, að því leyti er lög þessi varðar. Var þetta ákvæði og í fyrri lögum um Jafnlaunaráð frá 1973. Kemur það glöggt fram í framsöguræðu flm. með því frv. Flm. segir þar að Jafnlaunaráð eigi að eiga frumkvæði að því að rannsaka hver brögð kunni að vera að misrétti í kjaramálum. Í greinargerð um hlutverk Jafnréttisráðs frá 1976 segir að ljóst sé að Jafnréttisráð verði að standa að ýmsum félagslegum könnunum, og í umsögn Kvenréttindafélags Íslands um það frv. er það eitt af þeim atriðum sem Kvenréttindafélagið leggur áherslu á, ef frv. eigi að ná tilgangi sínum, að ráðið rannsaki hvort lög um launajöfnuð frá 1961 hafi verið sniðgengin í kjarasamningum eða framkvæmd. Það leikur því ekki vafi á að til þess var ætlast með lögunum, þótt Jafnréttisráð hafi ekki haft bolmagn til þess að standa fyrir slíkum könnunum.

Til þess að rökstyðja það nánar, hve mikil nauðsyn er á slíkum skipulögðum könnunum, sem gerðar séu reglulega, vil ég gera nokkra grein fyrir könnunum — sem þó hafa verið gerðar — sem varpa ljósi á þá staðreynd, að launamisrétti er töluvert. Í þeirri könnun sem gerð var 1975 og námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskólann var falið að gera, kemur þetta glögglega fram. Er þar að finna ýmsar töflur því til staðfestingar sem of langt mál yrði að gera skil. Þar eru dregnar fram ýmsar athyglisverðar niðurstöður hvað launamisrétti varðar, svo sem að sömu störf séu stundum nefnd mismunandi starfsheitum eftir því, hvort karl eða kona á í hlut, og karl fái gjarnan hærri laun en konur í skjóli mismunandi starfsheita. Ein skýringin var að konur væru óstöðugri vinnukraftur en karlar. Tilhneiging var líka til þess að meta hin svokölluðu kvennastörf til lægri launa. Einnig kemur fram að karlmenn séu frekar yfirborgaðir en konur. Orðrétt segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í ýmsum atvinnugreinum tíðkast að karlar séu flekar yfirborgaðir en konur. Í athugunum, sem gerðar hafa verið meðal verslunar- og skrifstofufólks, kemur fram að mun stærra hlutfall karla en kvenna hefur tækifæri til að semja um laun sin sérstaklega, þ. e. viðkomandi fær hærri laun en honum ber samkv. launataxta. Hvers vegna eru karlar frekar yfirborgaðir en konur? Er það vegna þess að meiri skortur sé á körlum en konum til að gegna tilteknum störfum? Á tímum þenslu í atvinnulífinu er oft háð samkeppni um vinnuaflið, einkum vinnuafl karla. Þá er gjarnan gripið til þess ráðs að yfirborga fólk, annaðhvort til að halda því eða ná því til sín eða hvort tveggja. Sú skoðun, að karlar þurfi frekar á hærri launum að halda en konur vegna þess að þeir séu aðalframfærendur fjölskyldunnar, kann að hafa einhver áhrif á yfirborganir til karlmanna. Slíkt er þó óréttmætur grundvöllur við ákvörðun á launum, því að margar konur eru aðalframfærendur sinna fjölskyldna.“

Ýmislegt fleira mætti benda á í þessari könnun, en ég læt þetta nægja að sinni. Á ráðstefnu, sem haldin var á vegum Jafnréttisráðs 1979, kemur fram í erindi Jóns G. Gunnlaugssonar hjá Kjararannsóknarnefnd, að laun karla við afgreiðslustörf í matvöruverslunum voru 17,9% hærri en kvenna og augljóst þar að karlmenn voru verulega yfirborgaðir. Í því erindi eru nokkuð rakin laun verkamanna og verkakvenna, og segir Jón orðrétt í niðurstöðu sinn; með leyfi forseta:

„Ég fjalla hér um verkafólk í Reykjavík, en samkv. ýmsum gögnum raðast konur ávalt í lægri taxta en karlar. Virðist þetta gilda um hvaða launakerfi sem er. Þessi mismunun í röðun hlýtur að teljast launamisrétti.“

Í erindi Arndísar Sigurðardóttur bankafulltrúa á sömu ráðstefnu segir orðrétt, með leyfi forseta: „Í janúar 1979 voru konur 542 eða 65,5%, en karlar 285 eða 34,5%. Ef við lítum svo á röðun í launaflokka kemur í ljós að 1. jan. 1975 eru í hinum almennu launaflokkum 379 konur eða 53,6% og 96 karlar eða 13,6%. En í þeim launaflokkum, sem bera með sér stöðuheiti, eru 70 konur eða 9,9%, en 162 karlar eða 22,9%.“

Tala þessar tölur sínu máli þar sem konur eru liðlega helmingi fleiri en karlar, en þó eru aðeins 70 konur í launaflokkum, sem bera með sér stöðuheiti, en 162 karlar.

Ég vil einnig vekja athygli á annarri könnun sem er ekki síður athyglisverð. Könnun var gerð að tilhlutan fjmrn. 1977 á kjörum verslunar- og skrifstofufólks og náði könnunin til vissra annarra hópa einnig. Könnunin náði m. a. til 1 103 starfsmanna úr verslunar- og skrifstofustétt. Það voru 633 konur og 470 karlar. Af þessum 1 103 voru 349 konur í fimm neðstu launaflokkunum og 198 karlar, en 121 kona í fimm efstu launaflokkunum og 435 karlar. Í töflu um greiddan bifreiðarstyrk, sem tekinn var með ef hann taldist til eiginlegrar launauppbótar, fengu af 633 körlum 222 bifreiðarstyrk, en af 470 konum fengu aðeins 6 bifreiðarstyrk. Fleira markvert kemur fram í þessari könnun, en ég hef aðeins nefnt hér tvö dæmi.

Árið 1979 og aftur 1980 voru einnig gerðar kannanir af Hagvangi fyrir Verslunarmannafélagið. Var það einnig athyglisvert þar, hve yfirborganir voru miklu hærri til karla en kvenna. Í fréttabréfi Jafnréttisráðs 1979 kemur í ljós, ef borin eru saman laun karla og kvenna í verkamannavinnu, að karlar höfðu um 13–14% hærri laun en konur fyrir hvern unninn dagvinnutíma. Í fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar frá jan. 1981 kemur í ljós að í verkamannavinnu er taxtakaupið á tíma 20,5% hærra hjá körlum, og meðaltímakaup 38,3% hærra hjá körlum en konum.

Þetta yfirlit ætti að gefa nokkuð glögga mynd af því, að það er staðreynd að launamisrétti ríkir og karlar og konur búa ekki við launajöfnuð þrátt fyrir lög um launajafnrétti kvenna og karla. Því er nauðsýnlegt að Jafnréttisráði verði veitt framlag til að standa fyrir könnunum á raunverulega greiddum launum á vinnumarkaðinum, eins og ég hef rökstutt að því er ætlað í gildandi lögum, án þess að nokkru sinni hafi verið veitt fjármagn til þess. Kemur reyndar fram í skýrslu Jafnréttisráðs fyrir tímabilið 1976–1979, þegar gerð er grein fyrir málum sem ráðið hefur fjallað um, að mest hefur borið á málum sem snerta launamisrétti. 4. gr. frv. sem hér er til umræðu miðar að því að úr þessu verði bætt.

Í 1. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Við ráðningu og skipun í starf, stöðuhækkun og stöðuheiti er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í starfi. Sama gildir um uppsögn úr starfi, veitingu hvers konar hlunninda og almenn vinnuskilyrði.“ Þessi grein miðar að því að gera ákvæðið markvissara en nú er í lögum. Í greininni kemur fram að ekki megi mismuna konum og körlum í starfi. Eðlilegt er að markvisst ákvæði verði sett um að sá mismunur, sem óheimill er, varði starfið og beinist að því sem slíku. Í núgildandi lögum segir að óheimilt sé að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Ákvæðið er óljósara og erfitt að skilgreina svo að rétt sé í framkvæmd, eins og raunin hefur orðið á.

Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta: „Nú er umsækjandi um auglýst starf kona, en það hefur verið veitt karlmanni, og skal þá Jafnréttisráð, ef það telur slíkt nauðsynlegt eða umsækjandi óskar þess, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda, að hann veiti skriflegar upplýsingar um hvað lagt var til grundvallar við ráðningu í starfið.“ Í núgildandi lögum segir að ef umsækjandi um auglýst starf sé kona, en það hefur verið veitt karlmanni, sé hægt að fara fram á það við atvinnurekanda, að hann veiti skriflegar upplýsingar um menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sem sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið. Erfitt er að sjá gildi slíks ákvæðis því að oftast liggur ljóst fyrir um menntun og starfsreynslu viðkomandi. Til að koma í veg fyrir að konum og körlum sé mismunað í starfi þarf að gera ákvæðið markvissara til að Jafnréttisráð geti metið hvort um mismunun sé að ræða. Því er lagt til að atvinnurekandi veiti upplýsingar um hvað lagt var til grundvallar við ráðningu í starfið.

Ég vil þá víkja að 2. gr. frv., sem er sú greinin sem skiptastar skoðanir verða sjálfsagt um. Aðdraganda þess og undirrót, að nú er lögð til sú leið sem þetta ákvæði kveður á um, hef ég lýst fyrr í máli mínu. Tvær nýlegar embættisveitingar hafa orðið hvati til umræðna í þjóðfélaginu um jafnréttismál, en þau embætti voru veitt karlmönnum þó að umsagnaraðilar hafi mælt með konum til starfans. Var í öðru tilfellinu konan metin hæfust af öllum umsagnaraðilum, en engu að síður karlmaður ráðinn í starfið. Óþarfi er að rifja þessar embættisveitingar nánar upp, svo mjög eru þær í fersku minni. Í framhaldi af því sendi stjórn Kvenréttindafélags Íslands Jafnréttisráði og fjölmiðlum eftirfarandi ályktun, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands lýsir undrun sinni og óánægju yfir því, að menntmrh. og heilbrmrh. skuli við embættisveitingar nýlega hafa sniðgengið þá umsækjendur sem sérfróðir umsagnaraðilar mátu hæfasta til starfa. Þar sem umræddir umsækjendur voru konur hlýtur sú spurning að vakna, hvort nauðsynlegt sé að lögbinda tímabundin forréttindi konum til handa til að útiloka slíkt misrétti í framtíðinni.“ Kom ekki ósvipað sjónarmið fram hjá formanni Jafnréttisráðs í útvarpsviðtali fyrir nokkru.

Í ályktun Jafnréttisráðs vegna veitingar lyfsöluleyfis á Dalvík segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun þessa máls hefur Jafnréttisráði orðið enn ljósara en áður, hve mikið vantar á að jafnréttislögin tryggi nægilega að jafnréttis sé gætt. Ráðið telur því nauðsynlegt að endurskoða lögin og leita leiða til þess að gera þau virkari.“

Þó erfiðara sé að færa sönnur á að hve miklu leyti gengið er fram hjá konum við stöðuveitingar á almenna vinnumarkaðinum þar sem engar skipulegar kannanir hafa verið gerðar á slíku, þá kemur þó fram í opinberum gögnum að sömu störf séu nefnd mismunandi starfsheitum eftir því hvort kari eða kona á í hlut. Í framsöguræðu félmrh. 1976 segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Þess munu dæmi, að konum hafi verið mismunað með því, að búin hafi verið til ný stöðuheiti fyrir karlmenn sem í raun gegna sama starfi.“

Ég tel að það þyrfti að vera eitt af verkefnum Jafnréttisráðs að athuga með skipulögðum könnunum hve mikil brögð eru að þessu á almenna vinnumarkaðinum og eins hvernig því er háttað á almenna vinnumarkaðinum þegar um stöðuveitingar er að ræða, hvort konum standi þær alltaf jafnt til boða og karlmönnum. Ekki skal úr því dregið, að oft eru konur tregar til að sækja um ýmsar stöður á almenna vinnumarkaðinum, eða stöðuhækkanir innan þess fyrirtækis sem þær vinna hjá. Sennilega er þar fyrst og fremst um að kenna að konur búa oft og tíðum við tvöfalt vinnuálag, ef þær eru á vinnumarkaðinum, og veigra sér við því að taka stöðu sem of mikil ábyrgð fylgir. Ef þessi ályktun er rétt ætti því varla að vera mikil hætta á ferðum þótt þær konur, sem vilja leggja á sig þessa ábyrgð og hafa til þess hæfni, menntun og reynslu á við karlmenn, gangi fyrir í þau störf sem karlmenn hafa verið næsta einráðir í áður, sérstaklega þar sem sýnir sig að oft hefur verið tregða á því að veita þeim þessi störf. Á hinum Norðurlöndunum hefur verið mikil umræða um þessi mál undanfarin ár, og hefur sú leið, sem ég legg til í þessu frv., verið nefnd jákvæð mismunun kynjanna. Með jákvæðri mismunun er átt við það, að leyft sé að veita öðru kyninu forréttindi ef tilgangurinn með því er að afnema raunverulegt misrétti kynjanna.

Í norskum jafnréttislögum hefur verið farið inn á þessa braut, en þar er tekið fram í jafnréttislögunum að tilgangur laganna sé sérstaklega að bæta stöðu konunnar, og jafnframt er tekið fram að það sé ekki andstætt lögunum þótt kynjunum sé mismunað, ef það sé í samræmi við tilgang laganna, þ. e. að stuðla að jafnrétti kynjanna. Ekki ósvipuð ákvæði eru einnig í dönskum og sænskum jafnréttislögum. Vil ég benda nefnd þeirri, sem fær þetta frv. til meðferðar, á að kynna sér þessi ákvæði, ef vera kynni að í þeim fælist leið sem samkomulag gæti náðst um.

Ég hef sagt varðandi þá leið, sem lögð er til í þessu frv., að um það mætti deila hvort telja bæri slíkt forréttindi, og hef talið að fullt eins vel mætti þar tala um jafnrétti. Ég vil rökstyðja þetta nokkru nánar.

Það er staðreynd, að kynbundin starfsskipting er ríkjandi í mörgum atvinnugreinum. Ástæða þess er m. a. að konur hafa minni menntun og því ekki skilyrði til að hasla sér völl í mörgum atvinnugreinum sem krefjast sérþekkingar og menntunar. Undanfarin ár hefur þetta verið að breytast með aukinni menntun kvenna og þær hafa í auknum mæli sótt inn á fleiri námsbrautir en áður. Í kjölfar þess hljóta konur því að sækja inn í störf þar sem karlmenn hafa verið svo til einráðir áður. Varla verður því á móti mælt, að með tilliti til jafnréttissjónarmiða er slík þróun æskileg. Þegar lítið er til þess, að reynslan hefur sýnt að oft er erfitt fyrir konur, þrátt fyrir hæfni og menntun, að komast í áhrifastöður, getur það varla talist óeðlilegt, þegar konur hafa sömu hæfileika til að bera og karlar, að þeim séu að öðru jöfnu veitt ákveðin tímabundin forréttindi meðan konur eru í miklum minni hluta innan ákveðinna starfsgreina. Það hefur berlega komið í ljós, að margir eru á móti slíku ákvæði, en við skulum athuga málið nokkru nánar.

Ein þeirra, sem talað hafa gegn því sem kallað hefur verið forréttindi í þessum efnum, er Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur. Á norrænu lögfræðingaþingi í Kaupmannahöfn í ágúst 1978 voru þessi mál á dagskrá. Út hefur verið gefinn bæklingur með erindi Guðrúnar og er það sérprentun úr Tímariti lögfræðinga, 3. hefti. Þar segir Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur m. a., með leyfi forseta:

„Ég tel það óheppilegt, að jafnréttislög innihaldi ákvæði um mismunun kynjanna, og tel það andstætt jafnréttishugsjóninni að veita öðru kyninu forréttindaaðstöðu.“

En síðar í erindi sínu segir Guðrún Erlendsdóttir, og vil ég fá að vitna til þess, með leyfi forseta, og bið hv. þdm. að taka nú vel eftir, — Guðrún segir:

„Þegar sett hafa verið lög um jafnrétti kynjanna, eins og gert hefur verið á Íslandi, þar sem tilgangur laganna er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla, þá hafa stjórnvöld þar með tekið að sér að stuðla að þessu jafnrétti. Stjórnvöldum ber þá skylda til að sjá svo um, að konur og karlar hafi sömu möguleika til menntunar og starfa. Ef sú staða kemur upp, að karl og kona sækja um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, þá skal veita þeim aðila starfið sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Ég tel sem sagt að konur verði að vera sömu hæfileikum búnar og karlar til þess að fá starf og ekki eigi að veita þeim forréttindi eingöngu vegna kynferðis þeirra.“

Þarna talar kona, sem er lögfræðingur og er á móti forréttindum, en túlkar jafnréttislögin, sem eru í gildi í dag, þannig að þegar tveir aðilar, sem hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, sækja um starf, þá skal veita þeim aðila starfið sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Ákvæði það, sem ég hef lagt til og hér er til umr., gengur einmitt út á það að veita konum forgang til starfa sem karlmenn hafa frekar valist til, að því tilskildu að þær hafi sömu hæfileika og menntun til að bera. Það er þetta sem ég vil undirstrika þegar ég tala um að frekar megi tala um jafnrétti en forréttindi í sambandi við þetta ákvæði sem ég legg til. Það er því ekki eins breitt bil á milli forréttinda og jafnréttis í þessu sambandi og sumir vilja vera láta.

Ég vil að það komi hér fram við þessa umr., að ég velti því mikið fyrir mér hvort rétt væri að setja inn ákvæði sem kvæði á um að í starfsgreinum, sem konur hafa frekar valist til en karlar, skuli þeir hafa ákveðinn forgang til þeirra starfa. Ég taldi ekki rétt að fara þá leið, þar sem reynslan hefur sýnt að karlmenn hafa ekki átt í neinum erfiðleikum með að komast inn í störf sem frekar hafa valist til konur en karlar. Ég sé að komin er fram brtt., sem felur í sér þetta ákvæði, og mun því nefnd sú, sem fær málið til athugunar, væntanlega taka afstöðu til þess, hvort rétt sé að fara þá leið. Ég sé ekki að sterk rök mæli með því.

Ég vil líka benda nefndinni á hvort rétt væri að taka inn það orðalag sem Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur notar í umsögn sinni og túlkun á jafnréttislögunum í dag, þannig að ákvæðið hljóðaði: Ef sú staða kemur upp, að karl og kona sækja um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, þá skal veita þeim aðila starfið, sem er af því kynferði, sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein.“ Ekki er ósennilegt að í þessu fælist sú samkomulagsleið sem allir gætu sætt sig við. Ég hef því drepið hér á tvær leiðir einnig sem athuga mætti í nefnd.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að rökstyðja þetta frv. í nokkuð ítarlegu máli og varla að nauðsynjalausu. Ég vona að þessi ítarlega framsaga hafi orðið til að varpa nokkru ljósi á það, hvers vegna ég taldi nauðsynlegt að flytja málið inn á Alþingi með þeim hætti sem ég hef gert. Það er von mín, að meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi og þær umr., sem af því leiðir, verði til þess, að tekið verði á þessu máli á þann hátt, að mannréttindi kvenna til atvinnu- og launakjara til jafns við karla verði raunverulega tryggð í framtíðinni. Þá er tilgangi mínum náð.

Ég vil að lokinni þessari umr., herra forseti, óska eftir að málinu verði vísað til hv. félmn. þessarar deildar.