01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt. Þetta var raunar skrýtin ræða hér áðan hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Hver hefur sagt hér að hv. þm. Guðrún Helgadóttir sé höfuðfjandmaður jafnréttis? Ekki sagði ég það og ég hef ekki heyrt aðra þm. segja það hér. Ég tel að þetta séu bara hugarórar hv. þm. sjálfs. Ég skildi raunar ekki hvað hún var að fara. Og ég heyri á hennar máli að hún lætur ekki sannfærast um það, að nauðsynlegt sé að Jafnréttisráði verði veitt framlag til þess að standa fyrir þessum könnunum. Ég sagði í ræðu minni hér í dag og ég sagði það aftur í ræðu minni áðan og vitnaði þar í ýmsa aðila sem fjallað hafa um þessi mál hér á þingi: í umræðum 1976, umr. félmrh. hér fyrr í vetur og ég vitnaði til Kjararannsóknarnefndar, og allt þetta bendir til þess, að við verðum að fara þá leið sem lögð er til í þessu frv. Kjararannsóknarnefnd segir raunar í sínu bréfi að hún telji þessi verkefni ekki í sínum verkahring, að standa fyrir þessum könnunum, þannig að ég held að við verðum að fara þessa leið.

Hv. þm. talar um hve stóran starfshóp þurfi til að standa fyrir þessari könnun hjá Jafnréttisráði. Ég get ekki sagt um það núna, en ég tel að Alþingi eigi að láta Jafnréttisráð fá eins stóran starfshóp og til þarf til að standa fyrir þessum könnunum. Það er ósköp einfalt mál. Ég geri ráð fyrir að það þurfi nokkurn mannskap í það, ef þetta á að vera vel gert og skipulegt þannig að við getum vænst þess að hægt sé að byggja á þessum könnunum og sýna vel fram á það, hve mikið misrétti er í þessum málum.

Ég vitnaði raunar í ýmsar kannanir í dag sem bera þess glöggt vitni, að við stöndum frammi fyrir miklu launamisrétti. Ég held því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafi ekki komið fram með nein frambærileg rök fyrir því, að fella eigi 4. gr. frv. niður.