05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. landsk. þm., Pétri Sigurðssyni, og hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, flutt frv. til laga um niðurfellingu á opinberum gjöldum barna á árinu 1980. Þetta frv. er einfalt í sniðum, aðeins ein grein svohljóðandi: „Álagður tekjuskattur, útsvar, sjúkratryggingagjald og kirkjugarðsgjald á börn, sem voru innan 16 ára aldurs og á tekjuárinu 1979, falla niður á skattárinu 1980 og koma til endurgreiðslu, þar sem þau hafa verið greidd.“ Og svo 2. gr. 1 „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. sé það fullkunnugt, að ég er í hópi þeirra manna sem telja að tekjuskatturinn, eins og hann hefur verið á lagður, sé mjög ranglátur og keyri raunar úr hófi fram. Auðvelt er að sýna fram á að heimili, sem eru rétt með þurftartekjur, eru látin standa skil á tilfinnanlegum sköttum, og jafnvel þótt talað sé um það, að skattaeftirlit hafi verið hert á undanförnum árum, mun reynslan vera sú, að þetta skattaeftirlit beinist fyrst og fremst gegn launþegum, þó svo að fyrir liggi að þeir eru sá hópur þjóðfélagsþegna sem beinu skattarnir beinast fyrst og fremst gegn.

Þessar hugmyndir, að háir beinir skattar, stighækkandi skattar, geti leitt til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og orðið til hagsbóta fyrir launþega í sambandi við skiptingu þjóðarteknanna, — þessar hugmyndir eru frá 19. öld, og ég hef einhvers staðar lesið að jafnvel megi rekja þær allt til Karls Marx og Engels, svo það er ekki undarlegt þótt sumir vilji halda dauðahaldi í þetta. Þess hefur líka orðið vart innan verkalýðshreyfingarinnar, að ýmsir afturhaldssamir forustumenn hennar hafa ekki skilið breytta tíma og hafa neitað þeirri staðreynd, að beinu skattarnir — eins og framkvæmd þeirra hefur verið hér á landi — eru fyrst og fremst launþegaskattar. Þetta verður augljóst ef menn bera saman skattskrárnar og ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna. Við sjáum að það eru engin bein tengsl þar á milli, að þeir, sem lægsta bera skattana, fari í fæstar utanlandsferðirnar, eigi verstu bílana eða búi í lélegustu húsunum. Þarna á milli er ekkert samræmi. Og þessi reynsla er ekki aðeins hér á landi, heldur hvarvetna annars staðar, að þessir háu beinu skattar ná fyrst og fremst til þeirra sem eru launþiggjendur. Og svo að sjálfsögðu, ef maður tekur einhverjar legundir atvinnurekstrar út úr, þá er það augljóst, að sjávarútvegurinn greiðir náttúrlega það sem honum ber samkvæmt gildandi lögum hverju sinni af beinum sköttum. Þar sem hins vegar er um þjónustugreinar að ræða er auðveldara að skjóta sér undan. Jafnvel þó bókhaldslög séu í landinu ná þau skammt, þegar af þeirri ástæðu að sá, sem tekjurnar hefur, ákveður sjálfur hvað hann skrifar í bækurnar. Og það er enginn til frásagnar um þá þjónustu sem veitt er. Ég veit að ég er ekki að upplýsa þingheim um neitt óvænt sem hann veit ekki áður. Allir þm. vita það ofurvel, að því fer víðs fjarri að allar tekjur, sem myndast í þessu þjóðfélagi, séu taldar fram til skatts. En eins og skattalögin voru samþykkt hér á sínum tíma, og sérstaklega eins og skattstiginn var ákveðinn, virðist gengið út frá þeirri forsendu, að allar tekjur hafi komist til skatts, sem að sjálfsögðu er algjör misskilningur og raunar verið að þverskallast gegn betri vitund ef menn reyna að halda því fram.

Eins og mönnum er kunnugt, er það í fyrsta skipti nú á þessu ári sem börn hafa fengið sérstaka skattseðla senda. Þessir skattseðlar voru ekki sendir til heimilanna fyrr en skólar voru byrjaðir, langt var liðið á árið, og börnunum var þó gert að greiða tilfinnanlegar fjárhæðir, því að í augum þessara unglinga eru nokkrir tugir þúsunda tilfinnanlegar fjárhæðir. Þessir skattseðlar voru á nöfnum þessara barna, og hið opinbera hefur þess vegna ætlast til að börnin stæðu skil á þessum peningum. Nú er það þannig í okkar löggjöf, að við viljum ekki fallast á að börn á þessum aldri geti stofnað til fjárskuldbindinga, geti aðhafst nokkuð það sem veldur því, að til greiðsluskyldu geti komið svo og svo langan tíma. Ef einhver maður lánar barni á þessum aldri fé, þá er krafa hans um endurgreiðslu ólögmæt bæði í lagalegum og siðferðilegum skilningi. Af þessum sökum, af því að ég er samþykkur þessari réttarreglu, get ég ekki á það fallist, að löggjafinn geti með þessum hætti skuldbundið börn, löngu eftir að þau afla teknanna, til að standa skil á einhverjum hluta þeirra til ríkissjóðs eftir dúk og disk. Og raunar get ég fært fyrir því gild rök, að börnin hafi ekki áttað sig á þessu og hafi ekki verið búin undir að mæta þessu.

Ég hef sagt það, að ég geti fallist á að rétt geti verið, miðað við hóflega skattlagningu almennt, að ætla börnum að greiða eitthvern mjög lítinn skatt, minni en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, sem yrði þá tekinn af laununum samtímis því sem þeirra er aflað, með sama hætti og skyldusparnaður er tekinn af unglingum um leið og teknanna er aflað, en unglingarnir ekki krafðir um greiðslu á skyldusparnaðinum eftir á, löngu eftir að þeir eru farnir í skóla og hættir að afla tekna. Það er mergurinn málsins í þessu efni, að ríkið sendir ekki sína seðla á heimili barnanna fyrr en þau eru hætt að afla tekna og geta þess vegna ekki staðið skil á þessum greiðslum nema þau hafi sérstaklega haldið til haga peningum til þess að snara út sköttunum. Og það er, eins og ég sagði áðan, siðferðilega rangt. Þjóðfélag, sem þannig býr að sínum minnstu þegnum, getum við hvorki kallað réttlátt þjóðfélag né menningarþjóðfélag hvað skattlagningu snertir.

Ég hef orðið var við það, að ýmsir af forsvarsmönnum mikillar skattheimtu í landinu hafa talað um að áður fyrr hafi tekjur barnanna komið ofan á tekjur foreldra og þess vegna hafi í raun verið greiddir hærri skattar af þeim tekjum en nú er. Ég býst að vísu við að hæstv. forsrh. hafi verið búinn að gleyma þessu þegar hann var að kenna öðrum mönnum um það sem hann greiddi sjálfur atkvæði með á vordögum 1978.

Það er alveg rétt, að við höfum gengið of langt í skattheimtunni lengst af. En þótt tekjur barna hafi verið skattlagðar í gegnum foreldrana áður fyrr, þá réttlætir það ekki þá athöfn, sem nú hefur verið framkvæmd, að senda skattseðlana með þessum hætti til barnanna sjálfra. Það kemur ekki inn á þá mórölsku hlið málsins sem ég tel aðalatriði þess. Og ég vil jafnframt bæta því við, að þegar um þurftartekjur hefur verið að ræða, þá er það ekki rétt að tekjuskattsinnheimtan hafi verið hærri af þessum barnatekjum áður, þótt annað megi segja um útsvarið, eftir að börnin höfðu þó náð vissum tekjum, en nokkur frádráttur var á tekjum barna áður.

Ég hef orðið var við það, bæði í einkasamtölum og af blaðaskrifum, að þetta mál hefur hlotið mjög góðar undirtektir hjá fólki. Síðan þetta frv. var lagt fram hefur a.m.k. eitt sveitarfélag, Mosfellssveit, samþykkt að fella niður útsvar af tekjum barna, og hv. 6. þm. Reykv. hefur lagt til að hið sama verði gert hér í Reykjavík.

Ég vil rifja upp í þessu sambandi að hæstv. fjmrh. hefur hrósað sér mjög mikið af því í blöðum undanfarið, að hagur ríkissjóðs sé sérstaklega góður. Og hæstv. fjmrh. veit einnig, að vegna þeirrar óheyrilegu verðbólgu, sem nú dynur yfir, vegna þess mikla verðbólguvaxtar, sem er í þjóðfélaginu og er miklu meiri en ráð var fyrir gert í fjárlögum, vaxa tekjur ríkissjóðs mun meira en útgjöldin. Þetta vita allir menn, sem komið hafa nálægt fjárlagagerð. Ég sé að hæstv. fjmrh. hristir höfuðið, það sýnir bara að hann er ekki kominn inn í málin enn þá. Þetta hef ég eftir háttsettum embættismönnum sem hafa fengist við fjárlagagerð svo árum skiptir, og þetta er ekki ný bóla, heldur liggur þetta fyrir á borðinu ef við lítum á tekjur ríkissjóðs, t.d. söluskattstekjur ríkissjóðs og einnig tekjur ríkissjóðs af innflutningi og verðjöfnunargjaldi og annað því um líkt. Hækkunin á gjöldunum kemur eftir á, það er algjörlega augljóst mál, t.d. launin. Svo hefur þessi hæstv. fjmrh. í hyggju þar ofan í kaupið að skerða launin, jafnvel 1. des., svo þau koma þá ekki einu sinni til skila.

Þess vegna held ég að þótt hæstv. fjmrh. vilji nú halda dauðahaldi í það að reyna að standá við þau orð sín að skila greiðsluafgangi á þessu ári, þá hafi hann, með því að gera ekkert til þess að hægja á verðbólguhjólinu, búið til nýjar tekjur fyrir ríkissjóð sem svara miklu hærri upphæð heldur en hér er um að ræða, auk þess sem tekjuskatturinn hefur farið 1.5 milljarða fram úr því sem ráð var fyrir gert. Þess vegna yrði ekki um annað að ræða en að hæstv. fjmrh. skilaði til baka 1/3 af því sem hann hefur fengið umfram það sem áætlað var í fjárlagafrv.

Ég vil í þessu sambandi að lokum minna á það, að kaupgjaldsvísitalan er þannig byggð upp, að beinir skattar eru utan við hana, en óbeinir skattar eru yfirleitt í vísitölunni. Þegar vinstri stjórnin var mynduð haustið 1978 viðhafði sú ríkisstj. þau — ég vil segja: brögð, að hækka beina skatta, en lækka óbeina og falsa þannig vísitöluna. Verkalýðshreyfingin undi þessu illa, og eins og við munum í sambandi við efnahagsráðstafanirnar 1. des. það ár hét ríkisstj. því að lækka beina skatta á árinu 1979, en á móti féllst verkalýðshreyfingin með þegjandi samkomulagi á að una því, að kaupgjaldsvísitalan yrði skert um 2%. Niðurstaðan varð sú, að í stað þess að lækka beinu skattana á árinu 1979 voru þeir hækkaðir mjög verulega. Og niðurstaðan af skattkerfisbreytingunni á þessu ári hefur sömuleiðis orðið sú, að beinu skattarnir hafa hækkað verulega frá s.l. ári. Þetta verður augljóst ef menn bera þær tekjur, sem ríkissjóður hefur fengið og fær á þessu ári í gegnum tekjuskattsinnheimtuna, saman við hækkun meðaltekna á þessum árum. Þarna er um verulegar skattahækkanir að ræða, sem allar voru fengnar undir því yfirskini að halda ætti óbreyttri skattheimtu.

Ég þarf svo að lokum ekki að minna hv. alþm. á það, að barnafólkið í landinu er um leið það fólk sem er að byggja upp sín heimili, eignast þak yfir höfuðið og stendur í margvíslegri fjárfestingu til þess að búa í haginn fyrir sig og fjölskyldu sína. Þetta er þess vegna það fólk í landinu sem skuldar mest, og þess vegna eru ráðstöfunartekjur heimilanna miklu minni en áður vegna þeirrar gífurlegu vaxtahækkunar og vaxtabyrði, sem orðin er, og vegna þess að kaupgjaldið í landinu hefur ekki hækkað neitt í líkingu við verðbólguna á s.l. tveim árum. Það hefur þess vegna orðið æ erfiðara fyrir þetta fólk að framfleyta sínum fjölskyldum, og í mörgum tilvikum hefur þetta fólk orðið að þrengja að sér tilfinnanlega. Sumt af þessu fólki hefur ýmist gefist upp við að halda áfram byggingu íbúða sinna eða hreinlega ekki treyst sér til að fara út í íbúðarkaup eða stækka sínar íbúðir, eins og að því er búið.

Þegar þetta er sett í samhengi við það sem ég hef áður sagt, þá er augljóst að það hlýtur að vera lágmarkskrafa, bæði siðferðilega og einnig með hliðsjón af ráðstöfunartekjum heimilanna, að ríkissjóður skili þessu fé aftur, að barnaskattarnir á árinu 1980 verði felldir niður. Ef einhver hluti alþm. getur ekki unað öðru en að ríkissjóður hafi einhverjar tekjur af vinnu barna innan 16 ára aldurs, þá verði séð svo um, að þeir skattar verði teknir af börnunum um leið og teknanna er aflað. Þetta er algjör lágmarkskrafa sem gera verður til þeirra manna sem fara með stjórn landsins, að þeir hafi þann siðferðilega þroska að horfast í augu við þá staðreynd, að það er með öllu óverjandi að senda börnum bakreikninga, eins og hér hefur verið gert, og koma, eins og einu sinni var sagt, eins og þjófur úr heiðskíru lofti yfir börn þessa lands.