05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að svara eftir bestu getu í fjarveru menntmrh., en mér fannst svarið benda til að hæstv. sjútvrh. væri eins og fiskur á þurru landi í svari sínu. Ég óska því eftir að þær spurningar, sem ég hef borið fram til menntmrn., verði geymdar menntmrh. þannig að hann svari þeim bréflega þegar hann kemur til baka. Mér skilst að hann sé erlendis.

Að hluta til fékk ég þó svar við nokkrum spurningum mínum í bréfi frá listráði, en þar stangast á fullyrðingar, þar sem haft er eftir Hrólfi nokkrum Sigurðssyni, sem er meðlimur listráðs, þegar hann talar við blaðamenn 3. þ.m., að ekki hafi verið haldinn fundur til að taka ákvörðun í þessu máli í safnráði. Það er furðulegur hringlandaháttur listráðs ef það hefur komið saman, ef það er rangt sem blaðið segir, og hafnað gjöfinni, en síðan séð að sér og ætlað að ná henni. Þær upplýsingar eru svo ótrúlegar að ég vildi helst fá þær skriflegar, staðfestar frá menntmrh. sjálfum þegar hann kemur til baka. Ég held að það sé þá kominn tími til að athuga betur hvernig listráð starfar eða hvort það starfar, hvort reksturinn er í höndum einnar manneskju sem fer þá ekki að lögum.

Ég vil líka draga í efa að þegar um svona gjafir er að ræða eigi listráð eitt að meta hvort þiggja skuli gjafirnar eða þiggja ekki. Ég tel fráleitt að þegar fólk með góðum hug vill styrkja góð málefni og gera Ísland, eins og ég tók fram áðan, að stærra og betra landi á skemmri tíma en við höfum kannske efni á án aðstoðar, þá skuli ríkisstofnun eða embættismenn ríkisins geta valið og hafnað og sagt: Heyrðu, þetta vil ég ekki. Þetta vil ég. — Mér finnst það fyrir neðan allar hellur og til athugunar fyrir menntmrn., sem samkv. lögum um Listasafn Íslands fer með yfirstjórn safnsins.