10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3621 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

227. mál, siglingalög

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. deildar hefur haft þetta mál til meðferðar og afgreitt það frá sér fyrir alllöngu. Hún leggur til að frv. verði samþykkt. Þarna er um að ræða lítils háttar breytingu á ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 25 frá 1977, siglingalögum, á síðustu mgr. þeirra bráðabirgðaákvæða sem hljóðaði svo:

„Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðh. þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkv. bráðabirgðaákvæði þessu í samræmi við það.“

Hér er um að ræða dánarbætur og örorkubætur. En reynslan hefur sýnt að það hefur ekki dugað að hafa þetta ákvæði svona í þessu bráðabirgðaákvæði og það hefur dregist að breyta upphæðum þessara bóta jafnvel fram yfir þessa sex mánuði. Frv. fjallar um breytingu á þessu til þess að upphæðir bóta breytist fyrr. Samkv. tillgr. er lagt til að bótaupphæðirnar breytist strax. Þarna er um sjálfsagða breytingu að ræða og sjútvn. leggur til að frv. verði samþykkt.