13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki að sjá að hv. stjórnarsinnum sé mikið áhugamál að koma málum áfram í hv. deild. Á þessu kvöldi hefur æðimikið á skort að mál næðu fram með eðlilegum hætti. Það hlýtur að vekja athygli þegar svo gengur ef hér er um að ræða næstsíðasta dag þinghalds fyrir páska.

Í öllum þeim umr., sem fram hafa farið hér um lánsfjárlög og hafa snúist um byggingu væntanlegrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, hafa hæstv. fjmrh. og hv. þm. Alþb. lagt á það höfuðáherslu að nær væri að leggja fram fjármagn til að huga betur að öryggisútbúnaði á flugvöllum hér innanlands en að vera að leggja fram fjármagn í byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Undir þetta hafa margir tekið. Hæstv. fjmrh. vakti sérstaka athygli á þessu í umr. í Ed., að nær væri að snúa sér að þessu verkefni og taka inn fjármagn til þess að sjá betur fyrir öryggisútbúnaði flugvalla innanlands en vera að spreða fjármagni í byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Hæstv. utanrrh., hinn ókrýndi formaður Framsfl. taldi það nánast hneyksli, ef öryggismálum á flugvöllum væri eins illa komið og hæstv. fjmrh. gaf í skyn að væri, og því yrði að kippa í lag á stundinni. Við 2. umr. fyrr í kvöld voru greidd atkv. um till. sem var á þá leið, að ríkisstj. væri heimilað að taka lán allt að 2.5 millj. kr. til að verja til kaupa á öryggistækjum á flugvöllum. Þrátt fyrir hinar margítrekuðu yfirlýsingar, bæði Alþb.-manna og utanrrh., fór svo að enn einu sinni breyttu menn á allt annan veg en þeir höfðu sagt. Menn sögðu hug sinn í orði, en felldu hann á borði. Ég trúi því ekki, eða a. m. k. vil ég ekki trúa því fyrr en á reynir endanlega, að hæstv. fjmrh. og aðrir þm. Alþb. svo og þm. Framsfl., eftir allar þær yfirlýsingar sem þessir aðilar hafa gefið í umr., komi við 3. umr. í veg fyrir með atkv. sínu að hægt verði að taka inn smávegis fjármagn í lánsfjárlög til að veita til framkvæmda í öryggismálum á flugvöllum hér á landi. Ég trúi ekki að hæstv. samgrh. greiði atkv. gegn því, að slíkt verði hægt. Og ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh., sem notaði svo til einvörðungu þau rök gegn flugstöðvarbyggingunni, að hann teldi miklu brýnna að byggja upp öryggismál flugvallanna hérlendis, komi í veg fyrir að slík till. nái hér samþykki.

Hér er sem sagt enn gefið tækifæri. Hér er þm. Alþb. gefið tækifæri til að sanna hver hugur fylgir máli í öllu yfirlýsingaflóði þeirra í umr. um þetta mál nú þessa daga og hvort þeir láta nú verða af að standa við yfirlýsingar. Hér er einnig hv. þm. Framsfl. gefinn kostur á að stuðla nú með atkv. sínu að eflingu byggðastefnunnar, bæta öryggisútbúnað flugvalla hringinn í kringum landið, því að alls staðar mun þörf á að bæta öryggisútbúnað á flugvöllum í landinu. Ég trúi því ekki, að þessir hv. þm. komi í veg fyrir að svo verði nú gert. Við höfum því ákveðið að flytja hér brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981, sem er svohljóðandi:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein sem verði 4. gr. og orðist svo:

Ríkisstj. er heimilt að taka lán allt að 2 millj. kr. sem verja skal til kaupa á öryggistækjum á flugvelli samkv. nánari tillögum fjvn., flugmálastjóra og flugráðs“

Að þessari till. standa auk mín Árni Gunnarsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Magnús H. Magnússon.

Nú mun sem sagt á það reyna hver hugur fylgir máli hjá hv. þm. stjórnarliðsins í því að standa nú við stóru orðin frá umr. í sambandi við flugstöðvarmálið. Við skulum bíða og vona að það fari ekki nú í sambandi við þetta mál fyrir þm. Alþb. eins og þm. Framsfl. í samóandi við flugstöðvarbygginguna. Við skulum vona að þeir sjái nú sóma sinn í því að standa við yfirlýsingarnar og greiða þessari till. atkv.

Þessi till., herra forseti, er skrifleg og of seint fram komin og þarf því afbrigða við.