13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skildi það ekki almennilega sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði. Það er ekki að ástæðulausu að hæstv. skrifari vor gengur undir nafninu „ruglukollur“. Það ægir öllu saman í heilabúi hans og hann kemur, að því er virðist, engu frá sér þannig að menn skilji það með eðlilegum hætti.

Hann segir að hér sé allt of lítill munur á stjórn og stjórnarandstöðu. Hann undrar sig á till. sem ég flutti áðan ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Nú bið ég skrifara vorn, hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, að leiðrétta ef ég hef ekki skilið rétt. Mér skildist að hann vildi endilega fá till. aftur með 2.5 millj. kr. upphæð. Er það rétt skilið? Sé þetta meining hv. þm. væri ástæða til þess að hæstv. forseti upplýsti skrifara deildarinnar um að það er óheimilt að flytja slíka till. aftur óbreytta. (Forseti: Það er búið að því.) Það er búið, já, og það dugar ekki. Hvað skal þá til varnar verða vorum sóma ef hæstv. forseti getur ekki komið skrifaranum í skilning um hvað er rétt og hvað er rangt? (Gripið fram í.) Hann er ekki fyrir vestan. Það er Vesturland. Hann býr þar. Hv. þm. Alexander Stefánsson ber ábyrgð á þessu.

Hann spurði: Hefur ástandið snarbatnað svona frá því í kvöld að það er hálfrar millj. kr. munur á till.? Þetta er viturlega spurt eða hitt þó heldur. Ég er ekkert hissa á þó að formaður framsóknarmanna láti ekki sjá sig í salnum undir svona ræðum frá sínum flokksbræðrum og undirtyllum. Það er mjög svo skiljanlegt.

Hann sagðist engar skýringar hafa fengið á 30% reglunni, sem menn voru að ræða fyrir nokkrum dögum í sambandi við niðurskurð, eins og hann orðaði það, á opinberum starfsmönnum. Það er nú enn eitt orðatiltæki hv. þm., skrifara deildarinnar, niðurskurður á opinberum starfsmönnum. Allt er í þessum dúr. Guð hjálpi þessum manni núna undir kvöld að tala með þessum hætti! En ég spyr á móti: Hvað með þær tillögur formanns Framsfl., hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar, sem hann lagði til á miðstjórnarfundi eða í framkvæmdastjórn Framsfl. um niðurskurð á fjárveitingum til opinberra framkvæmda? Gætum við fengið röðina á því hér á borðin?

Nei, hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni er alveg óhætt að leggjast rólegur til svefns þess vegna, að það er enginn skoðanaágreiningur í Alþfl. um þetta. Það verður eitthvað annað og óhuggulegra sem heldur vöku fyrir hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni en það, að hann þurfi að óttast skoðanaágreining í Alþfl. um þetta. (Gripið fram í.) Já, við erum að tala um þetta. — Það er út af fyrir sig alveg rétt, að í Alþfl. ríkir skoðanafrelsi og þar hafa menn rétt til þess að hafa hver sína skoðun. Þar er enginn múlbundinn, eins og virðist vera í þingflokki framsóknarmanna. En umfram allt, hæstv. forseti, ég bið þig umfram allt að reyna að koma skrifara vorum í samband við raunveruleikann þannig að hann tali á mættu máli og þannig að þingheimur skilji.