28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3816 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

306. mál, verðlagsaðhald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hafði orð á því hér einu sinni utan dagskrár, að hann saknaði manna úr þingsalnum, jafnvel eftir að fyrir lá að forseti Sþ. mundi ekki taka það mál á dagskrá. Nú er hér fjallað um mál sem hæstv. forsrh. mælir sjálfur fyrir og hefur óskað eftir að gangi sérlega greiðlega í gegnum þingið. Ég held að það sé lágmarkskurteisi að hann reyni að vera við umr. (Forseti: Ég vil upplýsa að hæstv. forsrh. kom að máli við mig þegar fundinum var frestað fyrir rúmri klukkustund og bað mig að gera hv. þdm. viðvart um það, að honum mundi e. t. v. seinka örlítið, en það gæti ekki skipt mörgum mínútum.) Ég held að það hafi verið óþarfi fyrir hann að hafa orð á því, við verðum varir við það. Það má nú sjá minna. Það þarf ekki tvenn gleraugu til að sjá að hann er fjarverandi.

Við umr. um annað mál hér í deildinni í gær komst hæstv. sjútvrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Ég held að menn verði hreinlega að horfast í augu við það. Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll.“ — Ég vil endurtaka þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll.“

Þessi ummæli hæstv. sjútvrh. eru mjög athyglisverð og skýra í rauninni hvernig ástatt er í þjóðfélaginu. Við völd eru nú í landinu menn sem eru að gera tilraun til þess að halda hér uppi menningarsamfélagi án þess að gæta að undirstöðunum, án þess að viðurkenna að forsenda þess, að heilbrigt mannlíf geti þróast á Íslandi, er sú, að undirstöðuatvinnuvegirnir — og þá fyrst og fremst sjávarútvegurinn og stærsta grein hans, sú sem mesta þýðingu hefur bæði fyrir útflutninginn og þjóðarbúið í heild, hraðfrystiiðnaðurinn — hafi rekstrargrundvöll sem hæstv. sjútvrh. kallar afkomugrundvöll. En því miður, það er mat ríkisstj. sjálfrar að þennan afkomugrundvöll skorti, hann sé ekki fyrir hendi. Og af þeim sökum beitir ríkisstj. sér nú fyrir því, að með óeðlilegum hætti sé grundvellinum kippt undan verðlagssjóðum sjávarútvegsins. Við sjáum það í því frv., sem hér liggur fyrir, að hugmyndin er að halda áfram þessu verki, hugmyndin er að halda áfram að brjóta niður þá atvinnuvegi sem hér hafa náð að dafna.

Ég veit að þdm. hafa veitt því athygli í viðtölum við fjölmiðla, að hæstv. viðskrh. hefur talað um að hin vonda afkoma Sementsverksmiðjunnar sé ekki að kenna þeirri ríkisstj. sem nú sitji, sökina á því beri ríkisstjórnir sem Alþfl. tók þátt í, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og ríkisstj. Benedikts Gröndals. Hæstv. forsrh. kom inn á það sama í ræðu sinni í dag þegar hann sagði að fjárhagserfiðleikar Sementsverksmiðjunnar stöfuðu ekki frá þessu ári, heldur eigi rætur lengra aftur í tímann. Á árunum 1978–1979 byggðust upp þeir erfiðleikar sem nú er verið að glíma við, sagði hann. Og ástæðan fyrir erfiðleikunum er að mati hæstv. forsrh. sú, að Sementsverksmiðjan hafi ekki fengið heimildir til þess að verðleggja framleiðslu sína í samræmi við tilkostnað. Í reynd kemur þetta þannig út, að þeir menn, sem kaupa sement af Sementsverksmiðjunni á næsta sumri, eru að borga byggingarkostnað þeirra manna sem keyptu sement haustið 1978 og allt árið 1979. Þetta er ein af millifærslunum í þjóðfélaginu, siðferðilega óheimil og ruglar að sjálfsögðu viðmiðun frá einu ári til annars varðandi afkomu, lífskjör, húsnæðiskostnað og allt þvílíkt.

Nú vil ég, úr því að einn af stjórnarmönnum í Sementsverksmiðjunni er staddur hér í þingsalnum, hæstv. dómsmrh., beina til hans fsp. um það, hversu sé háttað rekstri Sementsverksmiðjunnar, hvort hann geri sér vonir um að geta fengið þær leiðréttingar á verði sements á þessum vordögum að nægi til að leysa úr þeim erfiðleikum sem mér skildist á hæstv. forsrh. áðan að ríkisstj. hefði látið undir höfuð leggjast að takast á við á öllu s. l. ári, allt árið 1980 og það sem af er árinu 1981. Það væri mjög gott að fá þetta upplýst. Um leið og við horfum á þennan vanda Sementsverksmiðjunnar sjáum við fyrir okkur sams konar vanda sem mörg önnur atvinnufyrirtæki hér á landi munu lenda í ef það frv., sem hér um ræðir, verður samþykkt, þá muni byggjast upp, svo að notað sé orðalag hæstv. forsrh., erfiðleikar hjá mörgum stórfyrirtækjum vegna þess að þröngsýn stjórnvöld hafa náð völdum í landinu.

Hæstv. forsrh. talaði um það hér áðan, hversu vænt honum þætti um frjálsa verslun. Hann komst svo að orði, að frjáls samkeppni tryggði best hagsmuni neytenda. Ég hváði þegar þar var komið ræðu hans og hann gerði það fyrir þingheim að endurtaka þetta, að frjáls samkeppni tryggði best hagsmuni neytenda. En síðan bætti hann við: En undir eftirliti að sjálfsögðu. Og af sinni miklu náð hefur hann nú boðist til þess að láta þetta eftirlit í té, stjórna verðlagsmálunum og sjá svo um að einhver ákveðin mörk verði sett í verðlagsþróuninni sem síðan er ætlast til að verði eitt þeirra atriða sem dómstólum landsins beri að taka tillit til varðandi þau óumflýjanlegu málaferli sem hljóta að rísa vegna 1. og 2. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir.

12. gr. laga nr. 56 frá 16. maí 1978 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðákvarðanir samkv. 8. gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu. Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1, mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Svo mörg voru þau orð. Ég leyfi mér að fullyrða að það er útilokað að nokkur maður hefði komist í framboð fyrir Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar nema hann hefði gengist undir það að lúta því sem hér er sagt. Ég hygg að það sé óhugsandi að nokkur maður, sem aðhyllist sjálfstæðisstefnuna, geti afneitað því, sem þarna er sagt, og tekið í staðinn upp þá reglu, að einhver 10 manna ríkisstj. eigi upp í sínu turnherbergi opinberra tilkynninga að ákveða þann ramma sem verðhækkanir mega rúmast innan, án tillits til staðreynda, án tillits til framleiðslukostnaðar, án tillits til afkomu atvinnuveganna í heild.

Í 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, stendur svo, með leyfi hæstv. forseta, — mér virðist sem hæstv. forsrh. hafi seinkað meir en ástæða var til að ætla eftir skilaboðunum, — með leyfi hæstv. forseta:

„Miða skal verðlagsákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. ákveður á hverjum tíma.“

Nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig hann skilji þessi orð, hvenær hann hugsi sér að þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum verði sett á verðlagstímabilinu. Það er talað um að þessi markmið séu sett fram fjórum sinnum á ári, og mér skilst samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, að fyrsta tímabilið eigi að vera frá 1. maí nú til 1. ágúst. Ekki er til of mikils mælst, um leið og þetta frv. er lagt fram, að ríkisstj. geri sér grein fyrir fyrsta markmiðinu. Hvað er búist við að verðlagið megi hækka mikið til 1. ágúst, og hvernig er skilið að einstakar vörur megi hækka, ef skipt yrði gróft, hversu mikið má vera innflutningur, hversu mikið má vera opinber þjónusta og opinber fyrirgreiðsla eða vörur, hversu mikið má vera vextir, hversu mikið má vera landbúnaðarvörur, hversu mikið má vera húsaleiga, hversu mikið má vera íslenskar iðnaðarvörur? Þegar hæstv. ríkisstj. talar um að óheimilt sé að leyfa hækkanir, þá hlýtur hún að hafa gert sér grein fyrir því, á hvaða sviðum mannlegra viðskipta hún hyggist fyrst kreppa að. Hér er hæstv. menntmrh. Hvað segir hann um það? Á hvaða sviðum er það sem ríkisstj. hyggst helst beita sínum geiri? Þýða yfirlýsingar hennar nú það, að hún ætli áfram að hafa sementið lágt? Þýða yfirlýsingar hennar það, að ekki megi hækka áburðinn? Eða er það rétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. áðan, að til standi að hleypa verðhækkunum á áburðinum í gegn, en hins vegar eigi einkafyrirtækin ekki að fá að hækka sínar vörur? Er það hugmyndin? Hvað á að hækka? Hvernig á þetta að skiptast? Er hugsanlegt að hæstv. dómsmrh. sé hér að leggja til réttarreglu sem felur í sér að fyrirtæki, sem framleiðir vörur sem ekki eru í vísitölu, eigi samkv. lagareglum að hafa meiri rétt til hækkunar heldur en fyrirtæki sem framleiðir nauðsynjavöru og vegur þungt í vísitölunni? Ég get ekki skilið þessa lagagrein öðruvísi en svo, að eftir því sem varan er nauðsynlegri, eftir því á að torvelda meir framleiðslu hennar og eftir því eiga menn að eiga erfiðara með að fá fram eðlilegar kostnaðarhækkanir. Hér segir enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfi til verðhækkana innan þeirra marka, sem ríkisstj. setur hverju sinni, tekur gildi með samþykkt viðkomandi verðlagsyfirvalda og staðfestingu viðskrh. Sé samþykkt verðlagsyfirvalda umfram hin settu mörk tekur hækkunin ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu ríkisstj.

Þetta er flókið kerfi. En nú liggur fyrir að tveir sjálfstæðismenn hafa lagt fram um það till., að Neytendasamtökin fái eitthvað um það að segja hvernig ríkisstj. sjálf verðleggur opinbera þjónustu. Hvert er þá svarið frá ríkisstj.? Hvernig svarar ríkisstj. Alþingi um þá málaleitan, að fólkið í landinu fái eitthvað um það að segja hvernig hækkað sé? Hinn 16. febr. s. l. barst allshn. Sþ. svohljóðandi bréf frá viðskrn., undirritað af ráðuneytisstjóra, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytinu hefur verið send til umsagnar till. til þál., 85. mál, um efnislegar breytingar á gjaldskrám þjónustustofnana. Flm. er Friðrik Sophusson. Till. gerir ráð fyrir því, að þjónustustofnunum ríkisins verði gert skylt að senda allar tillögur um efnislegar breytingar á gjaldskrám til umsagnar Neytendasamtakanna og Verslunarráðs Íslands. Vegna tillögu þessarar vill rn. taka fram eftirfarandi:

Breytingar á gjaldskrám hinna ýmsu þjónustustofnana ríkisins heyra undir hlutaðeigandi rn. og hið sama er að segja um gjaldskrár þjónustustofnana sveitarfélaga. Þannig heyrir gjaldskrá Landsvirkjunar undir iðnrn., gjaldskrá póst- og símamálastjórnar undir samgrn. og gjaldskrár hitaveitna, sem sveitarfélögin reka, heyra undir iðnrn. Á tímum verðstöðvunar hafa breytingar á gjaldskrám einnig þurft að fá staðfestingu ríkisstj. Ríkisstj. hefur haft sér til ráðuneytis í gjaldskrármálum sérstaka vinnunefnd sem skilað hefur tillögum um breytingar á gjaldskrám. Er verðlagsstjóri formaður þeirrar nefndar. Það kerfi, er umsóknir um breytingar á gjaldskrám þurfa að fara í gegnum í dag, er nokkuð þungt í vöfum. Ef einnig ætti að senda hvert einasta erindi um gjaldskrárbreytingar til Neytendasamtakanna og Verslunarráðs Íslands er hætt við að kerfið yrði það þunglamalegt að afgreiðslur mundu dragast um of á langinn. Er einnig vandséð að samtök þessi hafi mannafla til þess að yfirfara öll þau gögn er fylgja hverju erindi um gjaldskrárbreytinguna.“

Ég bið menn að taka eftir því, að í þessu plaggi er talað um að nauðsynlegt sé að fara í gegnum þau gögn sem fylgi beiðni um gjaldskrárbreytingu. Og þar er því raunar haldið fram, að kostnaður skipti máli í sambandi við verðákvörðun. Ég ætla að lesa þetta áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Umsóknir þjónustustofnana ríkisins um gjaldskrárbreytingar fá í dag mjög ítarlega faglega umfjöllun embættismanna og stjórnmálamanna. Stundum hefur verið dregið að heimila nægilegar hækkanir á opinberri þjónustu með þeim afleiðingum að hallarekstur hefur orðið. Ekki er líklegt að umsagnir frá Neytendasamtókum og Verslunarráði Íslands mundu hér bæta úr.“ Ég endurtek: „Stundum hefur verið dregið að heimila nægilegar hækkanir á opinberri þjónustu með þeim afleiðingum að hallarekstur hefur orðið. Ekki er líklegt að umsagnir frá Neytendasamtökum og Verslunarráði Íslands mundu hér bæta úr.“

Svo mörg voru þau orð. Og alveg eins og í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, þegar hann harmaði, hvernig setið var á nauðsynlegum verðhækkunum á sementi á árunum 1978 og 1979, og talaði um þann uppsafnaða vanda sem af því rís nú, einnig hér er talað um að nauðsynlegt sé að ekki sé um hallarekstur að ræða hjá opinberum aðilum. Ég get upplýst það í sambandi við umr., sem fram hafa farið í sambandi við skuldbreytingu sjávarútvegsins og hraðfrystiiðnaðarins, að ýmsir af trúnaðarmönnum núv. ríkisstj., þar með taldir t. d. formaður fjvn. og fulltrúar Framsfl. í stjórn Byggðasjóðs, formaður Byggðasjóðs, — allir þessir menn hafa hvað eftir annað í störfum sínum þar látið í ljós þá skoðun, að eigið fé í fyrirtækjum í dag sé allt of lítið, það þurfi að auka eigið fé. Og í sambandi við ýmsa fyrirgreiðslu frá þeim sjóði hefur krafan um aukið eigið fé verið algert skilyrði. Auðvitað stingur þetta í stúf við skattalögin, sem ríkisstj. lagði fram og fyrst og fremst beinast gegn sjávarútveginum, gegn hraðfrystiiðnaðinum, gegn þeim framleiðsluiðnaði sem heldur uppi atvinnu í landinu. Væri nær af formanni Verkamannasambands Íslands að hann reyndi með einhverjum hætti að koma til móts við þau sjónarmið okkar sem viljum halda uppi sómasamlegri atvinnu og sæmilegri arðsemi hjá lægst launaða fólkinu, að hann reyndi eitthvað að hjálpa til að koma sæmilegri skipan á þessi mál heldur en að fela sig hér í þingsölum þannig að varla heyrist í honum og þá lítið í hvert skipti sem hann reynir að gelta.

En þær efnahagsráðstafanir, sem hér liggja fyrir, eru ekki um það að styrkja atvinnuvegina. Það er ekki hugmyndin og við fáum ekki upplýsingar um það, jafnvel þó að hæstv. forsrh. sé kominn í salinn, hvort hann hugsi sér að hafa þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum. Þetta eru löng orð, ég bið nú hæstv. forsrh. afsökunar á því: ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum, hvort hann ætli að skilgreina þau, hversu mikið af þessum meginmarkmiðum sé innan opinbera geirans, hversu mikið sé í innflutningum og hversu mikið sé í íslenskum iðnaðarvörum. Við fáum áreiðanlega ekkert um það að vita því að hér er verið að setja löggjöf, sem er loðmolluleg og sett í því skjóli, að enginn dómstóll er til í landinu sem þegnarnir geta leitað til til varnar gegn röngum stjórnskipulegum aðferðum. Það er enginn stjórnsýsludómstóll til. Fólkið er gersamlega varnarlaust þegar herrarnir stjórna með þeim hætti. Það er eins og rannsóknarrétturinn. Hann hélt sig að vísu við þessa veröld, við það sem menn gerðu. Rannsóknarrétturinn lét það bíða guðs allsherjar að dæma menn fyrir hugrenningasyndir. En það er síður en svo í þessu frv. að haldið sé við það, heldur á nú að gera lögbann gegn ólögmætum aðgerðum. Hvernig ætlar hæstv. forsrh. að standa að þeim? Ætlar hann að hefja staðfestingarmálið? Lögbannið fellur niður eftir viku. Hver ætlar að hefja staðfestingarmálið? Ég held að engum manni hafi dottið annað eins í hug og þetta, enda er þetta atriði nú aðhlátursefni manna um allt land.

Svo er annað atriði. Nú skulum við horfa fram hjá þessu og hugsa okkur það, að fógetaréttur fái úrskurðarvaldið um hvort lögbannskrafan skuli gild. Þá hefur það verið sæmileg réttarvenja fram undir þetta, að réttur gerðarbeiðanda verði að teljast sæmilega glöggur, hafa við sæmileg rök að styðjast. Það mundi kannske vera lágmarkskrafa af fógetans hálfu að fá að vita um það nákvæmlega, hver væru ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum hjá ríkisstj. Nú mundu þessi meginmarkmið kannske eitthvað breytast á meðan fógetarétturinn væri að fjalla um málið. Og hvernig getur meginmarkmið ríkisstj. allt í einu orðið ein af forsendum fyrir lögbannskröfu? Ég átta mig ekki á því. Þetta er náttúrlega eitt af þessum fáránlegu frumvörpum, meiningarlaust og merkingarlaust algerlega, sem hér er hrúgað inn á Alþingi. Og svo segir sá maður sem flytur frv. að það liggi ekki enn fyrir hvernig eigi að taka á einu og öðru. Hvernig á að taka á landbúnaðarmálunum núna eftir mánuð? Hvert er meginmarkmið ríkisstj. í því? Hefur hún kannske ekkert hugsað um það? Ég er alls ekki viss um að það standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að skuldbinda menn til þess að selja framleiðslu sína á lægra verði en sannanlegur tilkostnaður er. Við munum eftir því hjá Díokletíanusi þegar hann setti verðlagsákvæði af þessu tagi, þá varð vöruskortur í landinu, kaupmenn hreinlega földu sínar vörur og þær komu ekki fram, iðnaðarmenn hættu að vinna í sinni iðn, fólksflótti varð úr landinu. Hvernig ætlar ríkisstj. að tryggja að menn fái vörurnar ef þær mega ekki kosta það sem þær kosta? Hverju ætlar hæstv. forsrh. að bjarga með því? Hann talar með mikilli hneykslan um sementið, að ekki hafi mátt hækka það eins og nauðsynlegt var á árunum 1978 og 1979. En er þá allt í lagi á þessu herrans ári í ár ef eitthvað annað má ekki kosta það sem það þarf að kosta? Hvernig er komið fyrir hitaveitunum? Fá þær að hækka? Hvernig er rekstur þeirra orðinn? Hvernig er komið fyrir ýmsum af okkar stóru fyrirtækjum? Hvernig er komið fyrir Landsvirkjun? Hvernig er komið fyrir þjóðfélaginu í heild? Opinber eyðsla er aukin dag frá degi, misseri til misseris. Svo koma fulltrúar ríkisstj. öðru hverju og segja: Ég bið um heimild til þess að fá að lækka ríkisútgjöldin. — Heimildin hér er að lækka ríkisútgjöldin um 31 millj. kr. Hvað gerir hæstv. forsrh, ráð fyrir að ríkisútgjöldin verði mikil á þessu ári? Hvað segir áætlun hans um það? Hvað hefur hæstv. forsrh. og hans ríkisstj. sparað mikið frá þeirri áætlun sem lá fyrir þegar fjárlög voru gerð? Hvernig stendur á því, að forsrh. segir nú í ræðustól hér á Alþingi að verðbólgan fyrir einu ári hafi verð 60%, en fyrir einu ári sagði hann að hún væri 40%? Hvernig stendur á því, að það er alltaf talað í öðrum tón og öðruvísi um framtíðina heldur en um líðandi stund og fortíðina? Hvernig stendur á því, að ekki er staðið við loforðin? Hvernig stendur á því, að það eina stöðuga í þessu landi er það, að ekki stenst eitt einasta fyrirheit sem ríkisstj. gefur þegnunum ef það horfir til bóta?

Verðbólgan verður 42% á þessu ári. Getum við þá gengið út frá því í sambandi við það fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið í sambandi við lækkanir á beinum sköttum, að laun muni ekki hækka nema um 36% á þessu ári, frá upphafi til loka árs, á sama tíma og Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að meðaltalshækkun verðbólgunnar sé 50% frá s. l. ári og fram á þetta ár, eins og stendur enn í dag? (Forsrh.: Ekki er þetta rétt lesið.) Þetta um verðbólguna, er það ekki rétt lesið? (Forsrh.: Það, sem þm. var að fara með eftir Þjóðhagsstofnun, er ekki rétt lesið.) Hvar hefur komið fram, hæstv. forsrh., leiðrétting á þeirri spá sem Þjóðhagsstofnun setti um þetta í fyrstu viku í janúar, hvar hefur breyting á því komið? (Forsrh.: Ég segi, hv. þm. les þetta ekki rétt.) Les ég það ekki rétt? (Forsrh.: Þetta er rangt eftir haft.) Er það rangt eftir haft, að Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að meðaltalshækkun verðbólgunnar frá 1980 til 1981 verði 50% og það sé gengið út frá því? Er það rangt eftir haft, að í sambandi við þau ummæli í lánsfjáráætlun, sem fjalla um ráðstöfunartekjur, sé reiknað með 50% verðbólgu milli ára? Er það rangt? (Forsrh.: Þm. ruglar öllu saman.) Er þetta rangt eða rétt, já eða nei? (Forsrh.: Þm. ruglar öllu saman, verðbólgu milli ára og verðbólgu frá byrjun til loka árs.) Ég hef ekki minnst á verðbólgu frá byrjun til loka árs, ekki einu einasta orði, hæstv. forsrh. Ég get ekki ruglað því saman ef ég minnist ekki á það.

Ég sagði að spá Þjóðhagsstofnunar væri 50% meðaltalshækkun frá s. l. ári til þessa árs. Verðhækkun milli ára er 50%. Þessi spá liggur fyrir í gögnum Þjóðhagsstofnunar frá því í janúarmánuði og ég mun nota það kvöldverðarhlé, sem verður hér á fundum deildarinnar, til að afla mér gleggri upplýsinga um það mál. (Gripið fram í: Þó fyrr hefði verið.) Það reyndist allt rétt sem ég sagði. Ef þetta var formaður Verkamannasambandsins sem greip fram í, þá reyndist það miklu óhagstæðara fyrir hans fólk en mig minnti. Meðaltalshækkun milli ára og þeir samningar, sem Alþýðusambandið gerði varðandi skattalagabreytingarnar, voru náttúrlega hörmuleg fyrir það fólk. Við eigum eftir að ræða það mál nánar.

Um hitt vil ég svo spyrja formann Verkamannasambandsins, hvort hann í fyrsta lagi hafi komist að sömu niðurstöðu og hæstv. forsrh. um það, að launahækkanir á þessu ári frá upphafi til loka árs verði ekki nema um 36%. Það er sú spá sem hæstv. sjútvrh. gaf upp í blöðum. Og ef við föllumst á það sjónarmið hv. 12. þm. Reykv., Guðmundar G. Þórarinssonar, að skattbyrðina ætti að meta út frá tekjum greiðsluárs, sem er óhjákvæmilegt ef um kaupmáttaraukningu á að vera að ræða, þá verður auðvitað að gera það, þá náttúrlega hljóta þessar spár að setja strik í reikninginn. En við vitum náttúrlega báðir að þessar spár standast ekki. Verðbólgan er miklu meiri en hæstv. forsrh. vill vera láta. Það vitum við öll sem hér erum inni. Og það breytir engu þar um þó búið hafi verið til eitt vont orð í viðbót: verðlagsaðhald. Ég var að velta því fyrir mér, hvort það rímaði á móti vaðall eða eitthvað svoleiðis, en það er nú ekki. En orðið er svo klaufalegt að vel mætti hugsa sér það. Og það er ekki hægt að breyta lögmálum efnahagslífsins með því að breyta um orð. Það var talað um aðhald í gengismálum rétt í þann mund sem krónan tók skriðinn niður á við fyrir einu ári. Nú er talað um verðlagsaðhald. Aðhald að hverju? Er það verðlagsaðhald að því að fyrirtækin geti borið sig í landinu? Er það verðlagsaðhald að því að þau geti byggt sig upp? Að hverju er þetta aðhald? Aðhald að hverju? Það er aðhald að því að brjóta niður einkareksturinn í landinu og þar kemur hæstv. forsrh. til hjálpar kommúnistum, er verkfæri kommúnista, smátt og smátt. Nú er það þetta, á morgun er það hitt. Og allt miðar að því sama: að brjóta niður frjálst framtak í landinu, löngun fólks til þess að vinna, löngun fólks til þess að byggja upp. Þetta er í hróplegri andstöðu við 50 ára starf Sjálfstfl., hróplegri andstöðu við allar hugsjónir þeirra manna sem þann flokk hafa stutt.

Að síðustu, herra forseti, vil ég aðeins vekja athygli hér á smágrein í aths. við lagafrv. þetta:

Ríkisstj. setur þannig fram ákveðna stefnuviðmiðun fyrir almennar verðlagsbreytingar, en einstakar verðákvarðanir geta vikið þar frá ef nauðsyn krefur.“ Það eru þessi orð: „ef nauðsyn krefur“ — sem vekja athygli mína. Nauðsyn hvers? Við því fæst að sjálfsögðu ekki svar. Það er ekki við því að búast. En menn sjá náttúrlega hvað hér er um að vera. Menn gera sér grein fyrir því. Yfir vötnunum hvílir það sama, grunntónninn er þessi, eins og varðandi hraðfrystiiðnaðinn, að ríkisstj. telur sér ekki fært að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll, sagði hæstv. sjútvrh. í gær. Og nú er verið að tala um aðra atvinnuvegi.

Það er að verða brýnast nú, eins og ég sagði áðan, að borgararnir í landinu taki höndum saman og finni einhver ráð til að létta af sér þessu oki, oki óréttlátrar skattheimtu, oki niðurrifs í atvinnumálunum, tilviljanakenndrar stjórnunar á landinu, sem hefur þegar valdið því, að lífskjör hafa versnað hér stöðugt og á eftir að valda því að lífskjör versna hér meir. Það bíður ungra handa að snúa dæminu við. Það bíður ungra handa að vekja aftur framtak hjá þjóðinni og heilbrigðan hugsunarhátt. Það bíður þeirrar ungu kynslóðar sem nú er að vaxa upp í landinu og langar virkilega til að fá að njóta dugnaðar síns og hugvits. Við leggjum til hliðar gömlu karlana um leið og við reynum að upplifa nýtt ungt Ísland, Ísland framtíðarinnar.