28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3827 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

306. mál, verðlagsaðhald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna frammíkalla hæstv. forsrh. áðan. Ég hef hér í höndum áætlun um breytingar verðlags, launa og kaupmáttar á árinu 1981 frá Þjóðhagsstofnun, sem gerð var snemma í janúarmánuði, og mér er ekki kunnugt um að Þjóðhagsstofnun hafi neinu við þessa áætlun bætt síðar, a. m. k. var svo ekki fyrir páska, síðast þegar ég spurðist fyrir um það.

Um forsendur fyrir þessari áætlun segir m. a. að hún taki að öðru leyti einnig mið af efnahagsáætlun ríkisstj., m. a. að því er varðar verðlagsmál, ríkisfjármál og peningamál, þótt þessum þáttum sé ekki gefið ákveðið tölulegt gildi. Niðurstaðan um nálægt 50% hækkun verðlags frá upphafi til loka árs felur hins vegar í sér að aðhaldi verði beitt við stjórn peningamála og að ríkisfjármál verði í þeim skorðum sem settar voru í fjárlögum. Hér má nefna að fjáröflun til styrkgreiðslna til atvinnuvega skiptir máli fyrir framvindu peningamála og/eða ríkisfjármála og líklegt að hún hafi einhver verðlagsáhrif hvernig sem henni verður háttað.

Hér er sem sagt gert ráð fyrir að verðbólgan, framfærsluvísitalan, hækki frá upphafi til loka árs um 4850% og ársmeðaltalið sé 51–52%. Ég vil að þetta komi fram vegna ummæla hæstv. forsrh. áðan. Ef Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér nýja álitsgerð varðandi þessi efni hef ég ekki fengið vitneskju um það.