30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3833 í B-deild Alþingistíðinda. (3915)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh-. og viðskn. fjallaði um frv. til laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana á fundum sínum í gær og lauk afgreiðslu á málinu seint í gærdag. Ég vil sérstaklega þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf í nefndinni við að koma þessu máli fram. Við áttum erfiðan dag og það voru margir sem þurfti að ræða við, en svo fór að lokum að okkur auðnaðist að ljúka afgreiðslu málsins. Það hefði ekki getað gerst nema með góðri samvinnu nefndarmanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um þetta frv. Það er í fimm greinum:

1. gr. fjallar um verðlagsaðhald, en þar kemur fram að miða skuli verðákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. ákveður á hverjum tíma. Leyfi til verðhækkana innan þeirra marka, sem ríkisstj. setur hverju sinni, tekur gildi með samþykki viðkomandi verðlagsyfirvalda og staðfestingu viðskrh. Síðan kemur skýrt fram að sé samþykkt verðlagsyfirvalda umfram þessi settu mörk taki hækkunin ekki gildi nema að fenginni staðfestingu ríkisstj.

Það kom fram á nefndarfundum að menn óttuðust að þetta gæti leitt til þess, að fyrirtækjum væri mismunað samkv. þessum lögum, einn fengi minna og annar fengi meira vegna laganna, en slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að lesa út úr þessum lagatexta. Hins vegar hlýtur alltaf að verða misjöfn hækkunarþörf hjá hinum ýmsu aðilum og á það þarf að leggja mat hverju sinni, eins og verið hefur á undanförnum árum. Slíkt mat hlýtur ávallt að liggja til grundvallar annars vegar ákvörðun verðlagsyfirvalda og hins vegar ákvörðun ríkisstj. þegar það á við.

Í 2. gr. eru heimildir til að krefjast lögbanns. Er álitið að þannig megi með skjótari hætti ná fram lögum varðandi verðlagsbrot. Það hefur komið í ljós að það tekur langan tíma og menn komast upp með að brjóta lögin, einn og einn aðili. Slík mismunun er að sjálfsögðu óþolandi og þess vegna er nauðsynlegt að skýr ákvæði séu í lögum sem geti tryggt að menn séu jafnir fyrir lögunum varðandi þetta atriði og geti ekki hagnast á því að gerast lögbrjótar.

3. gr. fjallar um lækkun vörugjalds og sé ég ekki ástæðu til að gera neina sérstaka grein fyrir því.

4. gr. er um heimild til ríkisstj. um lækkun ríkisútgjalda. Það kom fram í nefndarstörfum í gær, að það væri vafasamt að hægt væri að lækka lögbundin framlög með þessum hætti, en það munu vera allmörg fordæmi fyrir því að svo hafi verið gert. Ég sé hins vegar ástæðu til að gera hér grein fyrir, hvað menn hafa í huga varðandi þennan niðurskurð eða þessa frestun og þessa lækkun útgjalda, til þess að taka af nokkur tvímæli, en vil skýrt taka fram að hér er aðeins um fyrstu hugmyndir að ræða og hafa þær á engan hátt verið endanlega afgreiddar í ríkisstj.

Það er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi, að frestað verði framkvæmdum sem svarar 5% af ríkisframlögum. Er það áætlað um það bil 11.5 millj. Það er gert ráð fyrir að fresta vegagerð sem nemur 3 millj. kr. og einnig er gert ráð fyrir að draga úr framlögum til nokkurra sjóða um 5% af ríkisframlaginu. Þau ríkisframlög, sem þar koma fyrst og fremst til greina, eru til Fiskveiðasjóðs, en ríkisframlagið þar er samtals 18.6 millj., Stofnlánadeildar, þar er ríkisframlagið samtals 10.8 millj., Lánasjóðs sveitarfélaga, þar er ríkisframlagið 3.2 millj., Iðnlánasjóðs, þar er ríkisframlagið 4.3 millj., Félagsheimilasjóðs, þar er ríkisframlagið 3 millj., Orkusjóðs, sem er með ríkisframlag 25 millj., og Iðnrekstrarsjóðs með ríkisframlag 1.5 millj. Ef þannig yrði farið að eru 5% af þessum framlögum samtals 3.3 millj. Byggingasjóðir fá 3 millj. minna og rekstur 10 millj., kr. minna, en samtals gerir þetta tæpa 31 millj. — Ég vildi að þetta kæmi hér fram. Ég vil endurtaka að þessi mál eru alls ekki endanlega frágengin, en rétt er að fram komi hvaða lögbundin framlög það eru sem þarna eru einkum höfð í huga.

Við gerum brtt. á þskj. 691 um 5. gr. — 5. gr. er þess eðlis, að þar er Seðlabanka Íslands að fengnu samþykki ríkisstj. fengin heimild til að ákveða bindiskyldu með öðrum hætti en hingað til hefur gilt. Það má segja með bindiskylduna að hún hefur næstum alltaf verið í ákveðnu hámarki, eftir því sem heimildin hefur gefið tilefni til. Heimildin er nú 28% og bindiskyldan hefur verið það um nokkurt skeið, en var áður 25%. Það er að sjálfsögðu mjög óheppilegt við stjórn peningamála að ekkert svigrúm skuli vera til þess að bregðast við mismunandi aðstæðum hverju sinni, og sú staðreynd, að þessi heimild er komin í hámark þótt við blasi að sparifjármyndun fari nú mjög vaxandi, getur ekki verið æskileg. Nefndin gerir að tillögu sinni að greinin orðist svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 31. gr. laga nr. 13/1979 skal Seðlabanka Íslands heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða hærri og sveigjanlegri bindiskyldu innlánsstofnana á tímabilinu 1. maí 1981 til 30. apríl 1983 en kveðið er á um í lögunum.“

1. minni hl. fjh.- og viðskn. gerir þá tillögu að tímabilið verði lengt frá 1. maí til 30. apríl 1983. Að sjálfsögðu var það aldrei hugmyndin að þessi heimild ætti algjörlega að falla niður um næstu áramót. Hins vegar hlýtur að vera eðlilegt, að þegar slík breyting er gerð á bindiskyldu komi ákvörðun sem þessi til endurskoðunar innan ákveðins tíma. Við nánari athugun þykir ekki heppilegt að þessi ákvörðun komi til endurskoðunar eftir aðeins sjö mánuði, það sé réttara að hafa hér um lengri tíma að ræða. Þess vegna leggur nefndin til að tímabilið verði lengt í tvö ár.

Annars vegar er lagt til að orðin „allra eða einstakra“ falli niður, þ. e. allra eða einstakra innlánsstofnana, en í stað þess komi inn, að Seðlabanka Íslands sé heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða hærri og sveigjanlegri bindiskyldu. Það hefur m. a. í för með sér að það hlýtur að koma til álita að hafa bindiskylduna sveigjanlegri en nú er. Lausafjárstaða bankanna er mjög mismunandi. Hún er oft og tíðum góð í byrjun árs, en fer svo versnandi og breytist verulega eftir tímabilum. Þess vegna hlýtur að koma til álita að hafa meiri sveigjanleik í þessari bindiskyldu í samræmi við stöðu bankanna og innlánsstofnana á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál vegna þess að það er lögð mikil áhersla á að það geti náð fram að ganga hið fyrsta. Ætla ég því ekki að nota meiri tíma nú af þeim tiltölulega stutta tíma sem til stefnu er, en vil aðeins ítreka að 1. minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur á þskj. 691.