30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3916)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er orðin regla hjá hæstv. ríkisstj. að ganga yfirleitt ekki frá tillögum sínum um aðgerðir í efnahagsmálum fyrr en á síðustu stundu. Þannig gat ríkisstj. ekki sinnt þeirri lagaskyldu sinni að leggja frv. til lánsfjárlaga fram og afgreiða það fyrir áramót með fjárlögum, eins og henni bar þó lagaleg skylda til. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma sér saman um gerð slíks frv. um lánsfjárheimildir náði það ekki samþykki ríkisstj. á tilsettum tíma, sem henni var skapaður í lögum, og leið svo fram á vor að hæstv. ríkisstj. kom ekki verkinu frá sér. Allt s. l. haust, allan fyrri hlutann af starfstíma Alþingis, beið Alþingi eftir því að hæstv. ríkisstj. léti frá sér fara fyrstu tillögur sínar um aðgerðir í efnahagsmálum, sem hún boðaði í stjórnarsáttmála sínum og fram kom í ræðu forsrh. að væru væntanlegar, en þá ræðu flutti hann í febrúar í fyrra. Þær tillögur komu aldrei fram á öllu vorþinginu, þær komu aldrei fram alla sumarmánuðina, þó svo að hver nefndin á aðra ofan væri skipuð til þess að semja slíkar tillögur, og þær komu aldrei fram á haustþinginu og komu ekki fram fyrr en nokkrum klukkustundum áður en nýja árið gekk í garð, á gamlársdag á s. l. ári, en þá loksins kom ríkisstj. sér saman um hvernig þessar tillögur skyldu úr garði gerðar, og setti um þær brbl. Nú er þetta í þriðja sinn sem til stendur að hæstv. ríkisstj. komi einhverjum efnahagstillögum frá sér. Hún vissi mætavel að ákveðin atriði í brbl. féllu úr gildi 1. maí, sem er á morgun og þá þyrfti eitthvað við að taka. Hins vegar virðist, eins og forseti Alþýðusambands Íslands mun hafa orðað það, hæstv. ríkisstj. sofa á milli vísitölutímabila, því að hún rankaði ekki við sér fyrr en í lok aprílmánaðar, 27. apríl nánar tiltekið, þegar hún loksins kom sér að því að koma einhverjum tillögum frá sér hingað til Alþingis sem þurfti þá að afgreiða þar á aðeins tveimur dögum.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. við 1. umr. málsins óskaði hann eftir að stjórnarandstaðan greiddi fyrir að þetta mál fengi afgreiðslu á Alþingi á aðeins röskum tveimur sólarhringum. Hann hafði þó ekki, hæstv. forsrh., haft þann hátt á að gera stjórnarandstöðunni hvorki formönnum stjórnarandstöðuflokkanna né heldur formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, neina grein fyrir málinu fyrr en samdægurs og það var lagt fram. Það er þó vani ríkisstjórna, þegar um slík mál er að ræða sem frá er gengið í þinghléi og þurfa snara afgreiðslu, að kynna stjórnarandstöðunni með einhverjum hætti málin í þinghléinu svo hún geti notað þinghléið til þess að kynna sér málin betur og hraða afgreiðslu þeirra þegar að þingi kemur. Sjálfsagt hefur það ekki verið af vangá hjá hæstv. forsrh. sem þetta var ekki gert. Ástæðan hefur sjálfsagt verið sú, eins og jafnan áður, að hæstv. ríkisstj. kom sér ekki saman um hvað hún ætlaði að leggja til fyrr en daginn áður en frv. var prentað, fyrr en 25. eða 26. dag aprílmánaðar, þegar tíminn, sem ríkisstj. hafði til ráðstöfunar, var að renna út.

Um leið og hæstv. forsrh, kynnti okkur formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar þetta mál í fyrsta sinn, röskum klukkutíma áður en það var lagt fram hér í deildinni, óskaði hann eftir, að stjórnarandstaðan féllist á að greiða götu þessa máls, og lagði á það mikla áherslu að Alþingi féllist á að afgreiða málið fyrir 1. maí. Til þess að svo gæti orðið þurftu ýmsar upplýsingar að sjálfsögðu að liggja fyrir. Niðurstaða okkar þingmanna Alþfl. varð sú, að við mundum tilkynna ríkisstj. að við mundum ekkert gera til að tefja framgang þessa máls hér í þinginu, hvorki með óþörfum ræðuhöldum í þingdeildum né heldur með því að standa í vegi fyrir afgreiðslu málsins í nefndum, en óskuðum hins vegar eftir að hæstv. ríkisstj. greiddi sjálf, eftir því sem hún gæti, götu málsins hér í þinginu með því að veita stjórnarandstöðunni ýmsar upplýsingar. Þær spurningar lögðum við fram að hluta til við formann fjh.- og viðskn. Nd. morguninn sem frv. var lagt hér fram og að hluta til í ræðu sem ég flutti fyrir hönd þingflokks Alþfl. við 1. umr. málsins. Hæstv. forsrh. brást vel við þessari málaleitan okkar og svaraði í ræðu sinni flestum eða öllum spurningum þeim sem ég beindi til hans, og hv. formaður fjh.- og viðskn. Nd. hefur lagt sig fram um að fá svör við þeim spurningum sem við beindum til hans og stjórnarsinna í fjh.- og viðskn. Að vísu hefðum við gjarnan þegið eðlilegan tíma til að fjalla um þetta mát og fara nánar ofan í saumana á ýmsum upplýsingum sem við fengum í hendur. Til þess hefur hins vegar ekki verið ætlaður tími.

Mjög óeðlilega er að þessu máli staðið af hálfu hæstv. ríkisstj., en ég vil þó taka fram að hún hefur reynt að veita okkur þær upplýsingar sem hún á annað borð hefur getað veitt. Það hefur m. a. komið í ljós í þessu sambandi, að það gerist nú eitt skiptið enn að hæstv. ríkisstj. hefur enn ekki, á elleftu stundu, getað komið sér saman um ýmsar nauðsynlegar aðgerðir sem vitað er að þarf að gera í efnahagsmálum, jafnvel á allra næstu klukkustundum, og frv. víkur ekki að, né heldur hefur hæstv. ríkisstj. enn — og er það mun stærra mál, ef hægt er að jafna því saman — getað komið sér saman um hvernig hún ætlar að framkvæma ýmislegt af því sem þó er vikið að í frv. Þannig óskar hún heimilda á heimildir ofan frá Alþingi til ýmissa aðgerða, en fram hefur komið í máli ráðh. að ríkisstj. hefur samt sem áður enn ekki komið sér saman um — ekki bara hvernig þessum ráðstöfunum skuli beitt, heldur líka hvort þeim skuli beitt. Þetta sýnir að sjálfsögðu hvílík handarbakavinnubrögð viðhöfð eru af hálfu ríkisstj. Fyrir liggur að hún hefur ekki komið sér saman um nauðsynlegar aðgerðir í vandamálum, sem þarf að greiða úr á jafnvel næstu klukkustundum og frv, víkur ekki að, og hún hefur ekki heldur komið sér saman um hvernig eigi að framkvæma og jafnvel ekki hvort framkvæma eigi ýmsar þær heimildir sem hún er að biðja Alþingi um að veita sér í þessu marklitla frv.

Ég held að rétt sé að ég fari í örstuttu máli yfir það sem fram hefur komið í þessu sambandi.

Ég spurðist fyrir um það í ræðu minni við 1. umr. málsins, hvort það væri rétt, sem Tíminn og Morgunblaðið höfðu eftir formanni Framsfl., hæstv. sjútvrh., að ríkisstj. væri búin að koma sér saman um að standa þannig að málum að framfærsluvísitala hækkaði ekki umfram 8% þann 1. maí n. k. Í svari hæstv. forsrh. við ræðu minni kom fram að ríkisstj. hefði enga ákvörðun tekið um það. Hins vegar hefur komið fram, m. a. hjá hagstofustjóra á fundi fjh.- og viðskn., að það sé líklegt að framfærsluvísitalan muni hækka l. maí n. k. um 9.01% og verðbótavísitalan nokkru meira, allt upp í 9.28%.

Þá spurðist ég fyrir um hvað hæstv. ríkisstj. hygðist gera til að ná því markmiði, sem hæstv. sjútvrh. lýsti a. m. k. sem sínu, að verðlagshækkanir og kauphækkanir í kjölfar þeirra færu ekki fram úr þeim 8% sem hann sérstaklega nefndi. Hæstv. forsrh. sagði í svari sínu að ríkisstj. mundi í fyrsta lagi, eins og fram kemur í frv., lækka nokkuð sérstakt vörugjald á gosdrykki, sem mun hafa þau áhrif á vísitölu að hún lækkar um 0.14%, og enn fremur að ríkisstj. hefði í hyggju að auka nokkuð niðurgreiðslur á landbúnaðarvöruverði. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. og var ítrekað af stjórnarsinnum í fjh.- og viðskn., að ríkisstj. hefur enn ekki komið sér saman um hve mikilli fjárhæð á að verja í þessar niðurgreiðslur né heldur hvernig á að beita niðurgreiðslunum á einstakar vörutegundir né hvað miða eigi niðurgreiðslurnar við að lækka vísitöluna mikið. Hins vegar kom fram hjá hagstofustjóra að ríkisstj. hefur aðeins ráðrúm til n. k. mánudags til að taka þessar ákvarðanir þannig að tilkynningar um auknar niðurgreiðslur verða að hafa komið fram fyrir n. k. mánudag til þess að Hagstofan taki tillit til þeirra við útreikning á framfærsluvísitölu. Komi þessar ákvarðanir ekki fram fyrr en eftir mánudaginn verður hæstv. ríkisstj. að setja sérstök lög ef á að taka tillit til þeirra niðurgreiðslna við útreikning á framfærsluvísitölunni, og er það eitt dæmið enn um, hversu allt er í skötulíki hjá hæstv. ríkisstj., að enn liggja ekki fyrir neinar upplýsingar og enn er ekki orðið neitt samkomulag í ríkisstj. um þessar niðurgreiðslur, hvorki um upphæð þeirra, hvernig á að beita þeim né heldur hversu mörg stig eða mörg brot úr stigum eigi að greiða niður með þessum hætti og verður þó niðurgreiðslan að hafa komið til framkvæmda n. k. mánudag.

Þá spurðist ég fyrir um það í þriðja lagi, og vitnaði þá til viðtals sem Morgunblaðið og dagblaðið Tíminn höfðu átt við formann Framsfl. þá um morguninn, hvort hæstv. ríkisstj. hefði komið sér saman um hver þau ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum ættu að vera sem talað er um í 1. gr. Fram hafði komið hjá hæstv. sjútvrh., formanni Framsfl., að einhverjir „við“ miðuðu við að þessi ársfjórðungslegu markmið væru 8% á þriðja vísitölutímabili þessa árs og 10% á því fjórða. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort með þessu orði, „við“, væri átt við ríkisstj. eða einhverja aðra. Hæstv. forsrh. gaf þær upplýsingar í svari sínu að ríkisstj. hefði enga ákvörðun um þetta mál tekið aðra en þá sem kom fram í efnahagsáætlun hæstv. ríkisstj. um áramót, að hún stefndi að því að verðhækkanir frá upphafi til loka ársins færu ekki yfir 40%. Þeir „við“ sem hæstv. sjútvrh. og formaður Framsfl. talaði um í þessu sambandi eru því einhverjir aðrir „við“ en þessir „við“ sem sitja í ríkisstj. Um þetta atriði, sem þó kemur fram í 1. gr. frv., þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum, er engin samstaða orðin í stjórnarherbúðunum og þær heimildir, sem þeir biðja um að veittar verði í þessu sambandi af Alþingi, veit Alþingi ekkert um hvernig verða notaðar. Ríkisstj. hefur enn ekki komið sér saman um það. Er það enn eitt af mörgum dæmum um hve allt er í skötulíki sem varðar ákvarðanatöku hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Þá spurðist ég einnig fyrir um annað og vitnaði í því sambandi til enn eins viðtalsins við hæstv. sjútvrh. og formann Framsfl. Hann er nú orðinn eins konar véfrétt

Þá spurðist ég einnig fyrir um annað og vitnaði í því sambandi til enn eins viðtalsins við hæstv. sjútvrh. og formann Framsfl. Hann er nú orðinn eins konar véfrétt þessarar ríkisstj. því hann er alltaf talandi, en hann virðist vera að gefa yfirlýsingar í nafni einhverra annarra, einhverra manna úti í bæ sem ekki sitja í ráðherrastólunum. Ég spurðist fyrir um hvort í aðsigi væru sérstakar breytingar á tollalögum, eins og hæstv, sjútvrh. skýrði frá í viðtali við annaðhvort dagblaðið Tímann eða Morgunblaðið. Hæstv. forsrh. skýrði frá því, að það hefði að vísu komið til tals í ríkisstj. að lækka tolla á ýmsum vörum og tækjum og þá sérstaklega heimilistækjum, og hefði verið rætt um að sú aðgerð fylgdi með frv. því sem hér er um rætt. En hæstv. forsrh. skýrði líka frá að ekki hefði orðið samkomulag í ríkisstj. eða niðurstaða í ríkisstj. í málinu og hefði það því ekki verið framkvæmt með þeim hætti sem rætt hafði verið um, hins vegar væru tollamálin öll í sérstakri endurskoðun í fjmrn. M. ö. o.: ríkisstj. varð ekki heldur sammála um þessa aðgerð, en varð hins vegar sammála um að skjóta henni frá sér eins og fleiri ákvörðunum og láta athuga málið.

Þá spurðist ég fyrir um, og vitnaði enn í viðtal dagblaðanna við formann Framsfl., hvaða sérstakar aðgerðir ríkisstj. hefði í undirbúningi vegna búvöruverðsákvarðana sem fram undan eru, en hæstv. ráðh. hafði skýrt frá því, að slíkar aðgerðir væru í aðsigi hjá hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. skýrði frá því, að ríkisstj. hefði alls ekki neinar sérstakar aðgerðir í undirbúningi, a. m. k. ekki enn, varðandi ákvörðun búvöruverðsins aðrar en niðurgreiðslur þær sem áður hafði komið fram hjá hæstv. ráðh. að ríkisstj. væri að hugleiða, en hefði ekki enn orðið sammála um með hvaða hætti skyldi beitt.

Þær upplýsingar, sem fengust til viðbótar við þetta mál í fjh.- og viðskn., voru, að miðað við að orðið yrði við beiðni um verðhækkun á áburði um hvorki meira né minna en 85% sem nú liggur fyrir ríkisstj. og ekki var a. m. k. af Hagstofu Íslands talin ástæða til annars en að gera ráð fyrir að ríkisstj. mundi samþykkja verðhækkun á smásöluverði á landbúnaðarvörum, sem ætti að koma 1. júní n. k., nema u. þ. b. 20%. Það er athyglivert að íhuga að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. er að óska eftir því við Alþingi, að Alþingi hraði sérstaklega afgreiðslu á mjög öflugu verðlagsaðhaldi, eins og hæstv. ríkisstj. kallar nú það sem hún hefur hingað til kallað verðstöðvun, skuli fjh.- og viðsk.-nefndum gefnar upplýsingar um að einum mánuði eftir að þetta frv. á að ganga í gildi sem lög frá Alþingi sé þess að vænta, að landbúnaðarvörur, helstu nauðsynjavörur íslenskra heimila, hækki um u. þ. b. 20%. Það er von að allur almenningur sé farinn að hlæja að þessari verðstöðvun, þessu herta verðlagsaðhaldi hæstv. ríkisstj., og þeim ráðh. jafnframt sem beita slíkum úrræðum, ef úrræði skyldi kalla.

Þá spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvort ekki mætti ganga út frá því sem gefnu að ríkisstj. hans mundi virða yfirlýsingu sem þáv. ríkisstj. gaf út að mig minnir 17. maí 1977, þess efnis, að ríkisstj. mundi skuldbinda sig til þess að allar hækkanir, sem koma ættu á opinberri þjónustu, kæmu á síðustu tíu dögum fyrir útreikning framfærsluvísitölu, en ekki yrði reynt að bíða með þessar verðhækkanir fram yfir þann útreikning og komast þannig hjá því að þær yrðu bættar í kaupi. Hæstv. forsrh. tók það fram í svari sínu, að ríkisstj. hans mundi virða þessa samþykkt frá 17. maí 1977. Það þýðir að hæstv. ríkisstj. hefur daginn í dag til að afgreiða allar þær verðhækkanir á opinberri þjónustu sem fjallað hefur verið um. Gjaldskrárnefnd, sem á að gera tillögur um þessar verðhækkanir til hæstv. ríkisstj., sat á fundi í gær, settist á fund um hádegi í gær og mun hafa haldið áfram til kvölds og lokið viðfangsefni sínu þannig að hæstv. ríkisstj. á að hafa fengið í dag tillögur gjaldskrárnefndar um afgreiðslu umsókna um verðhækkanir hjá ýmsum opinberum þjónustustofnunum, svo sem Pósti og síma, hitaveitu, rafmagnsveitu o. fl., o. fl. Þessar verðhækkunarbeiðnir voru á bilinu frá 7–20%, þar sem þær voru lægstar, upp í 85%, þar sem þær voru hæstar. Miðað við þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. Gunnars Thoroddsens ætlar sér að standa við, hefur hún sem sé daginn í dag til að ganga frá þessum málum eða þá í allra síðasta lagi að þeirra sé von á mánudaginn, þ. e. eftir 1. maí, þegar íslensk verkalýðshreyfing hefur haldið sinn baráttudag hátíðlegan, — og skyldi það nú ekki vera að ákvarðananna væri frekar að vænta eftir þann dag en fyrir? (Forsrh.: Ríkisstj. er búin að ganga frá þessu.) Hæstv. forsrh. segir að ríkisstj. sé búin að ganga frá þessu og kemur þá væntanlega fram hér á eftir og síðar í dag hverjar þessar ákvarðanir eru.

Það verður nokkuð lærdómsríkt að sjá ákvarðanir ríkisstj. og hvaða verðhækkanir það eru sem hún hefur með þessum hætti samþykkt og hvaða áhrif þær muni hafa á vísitölu, sem e. t. v. þurfa ekki að vera mjög veruleg. Fljótlega í kjölfarið á þeim opinberu verðhækkunum hljóta að fylgja mjög almennar hækkanir á öðrum varningi vegna þess að nú bíða afgreiðslu verðlagsyfirvalda eitthvað á fjórða tug slíkra hækkunarbeiðna, sem eru af svipuðum toga og hinar opinberu verðhækkunarbeiðnir eru, eða á bilinu 10–15% og upp í 60–70%. Enn vek ég athygli á því, að á sama tíma og verið er að tala um verðstöðvun á verðstöðvun ofan og hert verðlagsaðhald er vitað mál að hæstv. ríkisstj., á sama degi eða daginn áður en slíkar ráðstafanir eiga að taka gildi — og nú eru enn í gildi lögin um algjöra verðstöðvun, tekur ákvörðun um verðhækkanir á opinberri þjónustu sem mér býður í grun að geti verið eitthvað í kringum 10% og vitað er að bíða ákvörðunar hæstv. ríkisstj. fjölmargar verðhækkunarbeiðnir á öllum mögulegum og ómögulegum vöru- og þjónustutegundum sem fylgja munu í kjölfarið.

Herra forseti. Þessar upplýsingar ásamt öðru hafa komið fram bæði hjá hæstv. forsrh. og eins í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Eins og ég vakti athygli á áðan ber vissulega að þakka að hæstv. forsrh. og formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hafa lagt sig fram um að veita stjórnarandstöðunni þær upplýsingar sem hún hefur beðið um.

Það athyglisverðasta í þessum upplýsingum er tvennt: Í fyrsta lagi hefur ríkisstj. komið sér saman um fæst þeirra mála sem hún þarf að taka ákvarðanir um á allra næstu dögum, hvort sem að þeim er vikið í frv. því, sem hér er til meðferðar, eða ekki. Þetta er annar þáttur þeirra athyglisverðu upplýsinga sem fram hafur komið:

Hæstv. ríkisstj. kemur sér einu sinni enn ekki saman um eitt né neitt. — Í annan stað hefur verið upplýst að á sama tíma og á ferðinni er á Alþingi frv. um sérstakt hert verðlagsaðhald, sem á að taka við af svokallaðri algerri verðstöðvun, er hæstv. ríkisstj. og hefur verið að tilkynna og ákveða verðhækkanir, nú síðast í dag, á opinberri þjónustu, en síðan munu almennar verðhækkanir fylgja í kjölfarið og vitað er að helstu lífsnauðsynjar íslenskar, landbúnaðarvörurnar, munu hækka í útsöluverði um eitthvað milli 15 og 20% aðeins einum mánuði eftir að þetta sérstaka stranga verðlagsaðhald ríkisstj. gengur í gildi. Er þá nema von að fólk sé orðið fullsatt af þessum svokölluðu verðstöðvunum sem hafa verið í gildi í landinu í upp undir það einn áratug og eru orðnar þannig að fólk er gjörsamlega búið að missa allt verðskyn vegna þess að verðlagsaðhaldið svokallaða, verðstöðvunin svokallaða er ekki einu sinni þess pappírs virði sem hún er skráð á?

Svo mikil fljótaskrift hefur verið höfð á afgreiðslu þessa máls að erfitt var að viðhafa þá reglu, sem er eðlileg og sjálfsögð þegar svona mál eru á ferðinni eins og hér um ræðir, að í nál. sé gerð grein fyrir því, hvað þeir hafa haft til málanna að leggja sem komið hafa á fundi fjh.- og viðskn. — í þessu tilviki til að gefa umsagnir um frv. það sem hér er á ferðinni. Fjh.- og viðskn. fékk allmarga til að veita sér umsagnir um frv. þetta. Þeir aðilar voru ýmist opinberir, eins og Seðlabanki, Hagstofa og Þjóðhagsstofnun ásamt verðlagsstjóra, ellegar þá einkaaðilar, svo sem forsvarsmenn íslenskra iðnrekenda, forsvarsmenn Verslunarráðs, forsvarsmenn viðskiptabanka og sparisjóða o. s. frv. Það á að vera regla, á að vera sjálfsögð kurteisi á Alþingi Íslendinga og almenn regla, að þegar slíkir aðilar eru kallaðir til að veita þingnefnd upplýsingar á þingnefndin að sjá svo um að þær upplýsingar komi fram í sérstökum þskj., í því þskj. sem n. lætur frá sér fara, nál., ella vita aðrir þm. en þeir, sem í n. sátu, ekki hvað á nefndarfundi hafði gerst og hvað þeir höfðu til málanna að leggja sem óskað var að kæmu til þingnefndarinnar og veittu henni upplýsingar og gæfu umsögn. Það er sjálfsögð krafa þeirra, sem eru beðnir um að koma og veita þingnefndum upplýsingar, manna sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta eða hafa sérþekkingu á þeim málum sem verið er að fjalla um í þinginu hverju sinni, og sjálfsögð kurteisi af hálfu Alþingis, að umsagnir, sem gefnar eru í slíkum tilvikum, séu prentaðar í þskj. svo liggi ljóst fyrir, bæði fyrir alþm. öllum og fyrir þjóðinni, hvað þessir aðilar hafa til málanna að leggja. Sá mikli hraði, sem hafður var á afgreiðslu málsins, kom hins vegar í veg fyrir að hægt væri að gera þetta með skaplegum hætti. Ég hef að vísu ekki enn séð nál. 3. minni hl. fjh.- og viðskn., sem ekki er búið að dreifa, en hafi 3. minni hl. greint frá einhverjum af þessum umsögnum í sínu nál. hefur 3. minni hl. fjh.- og viðskn. orðið að vinna það verk í nótt. Auk þess á það ekki að vera viðfangsefni minni hl. n. að gefa slíkar upplýsingar, heldur eiga nefndarformenn að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í því að beita sér fyrir að þeirra aðila, sem á nefndarfundi eru kallaðir til að veita umsagnir og gefa upplýsingar, sé getið í nál.

Ég man eftir því, að sá ágæti fyrrv. alþm. Lúðvík Jósepsson tók það sérstaklega fram oftar en einu sinni í þessum ræðustól að það, sem hann teldi horfa einna mest til rangrar áttar hér í þinginu, væri að nefndarformenn væru fallnir frá þeirri reglu, sem áður hefði verið höfð, að láta þess ekki aðeins ávallt getið í nál. sínum, hvaða aðilar hefðu komið til þess að veita umsagnir eða óskað eftir áheyrn hjá viðkomandi þingnefnd, heldur jafnframt gera grein fyrir því í nál. hvað þessir menn hefðu haft til málanna að leggja. Ég vil taka undir þessi orð hv. fyrrv. alþm. Lúðvíks Jósepssonar, en hann sá ástæðu til þess að kvarta yfir því sem hann taldi vera öfugþróun í þessu sambandi.

Eins og ég segi hafa komið fjölmargir aðilar á fundi fjh.- og viðskn. til að veita umsögn um þetta frv. Þá kom m. a. í ljós sú athyglisverða staðreynd, að frv. þetta, sem lýtur að bankamálum, verðlagsmálum og að nokkru leyti að efnahagsmálum, en þó í mjög þröngum skilningi þess orðs, hefur verið samið án samráðs við allar þær helstu sérfræðistofnanir í þjóðfélaginu sem Alþingi og ríkisstjórnir hafa sér til ráðuneytis. Þó svo að t. d. ein mikilvægasta grein frv. fjalli um Seðlabanka Íslands og eitt af hlutverkum hans hefur sú grein verið samin án nokkurs samráðs við Seðlabankann. Seðlabankastjórar sáu ekki þetta frv. né þessa grein fyrr en þeim var fært frv. prentað héðan frá Alþingi fyrir tveimur dögum. Í ljós kom, þegar rætt var við seðlabankastjórana, að ekki aðeins hafði ekkert samráð verið haft við Seðlabankann um gerð þessa frv., heldur var seðlabankastjórnin andvíg þeim ákvæðum frv. sem varða verksvið og viðfangsefni Seðlabanka Íslands. Seðlabankastjórarnir, sem komu á fund fjh.- og viðskn., lýstu yfir að þeir væru andvígir 5. gr. frv. Þeir töldu að það væri rangt, sem frv.-greinin gerði ráð fyrir, að mismuna innlánsstofnunum varðandi bindiskyldu. Og þeir töldu einnig að það væri rangt að veita jafnvíðtæka heimild til aukinnar bindiskyldu og greinin gerir, þar sem ekkert þak er sett á heimild Seðlabanka Íslands að fengnu samþykki ríkisstj. til innstæðubindingar, sem mögulega gæti því farið allt upp í 100% af innlánsfé bankanna. Seðlabankastjórarnir, sem á fundi n. komu, lýstu því sem sé yfir í fyrsta lagi: Þetta hefur verið samið án nokkurs samráðs við okkur. Við sáum ekki þetta mál fyrr en því hafði verið dreift á Alþingi. — Og í öðru lagi: Við erum andvígir þessu. Seðlabankastjórarnir tóku fram að þeir væru síður en svo andvígir því, að hægt væri að auka nokkuð bindiskylduna frá því sem hún er, en þeir sögðu: Það er fráleitt að ætla að mismuna innlánsstofnunum með þeim hætti að binda t. d. meira af innstæðufé þessa banka en hins, þessa sparisjóðs en hins, og það er fráleitt að Alþingi veiti heimild til aukningar á bindiskyldu án þess að setja eitthvað þak þar á. — Þessi önnur af tveimur mikilvægustu sérfræðistofnunum þjóðfélags okkar í efnahagsmálum var ekki aðeins sniðgengin af hæstv. ríkisstj. sem umsagnaraðili, heldur var hæstv. ríkisstj. beinlínis að gera tillögur til Alþingis um málefni þessarar stofnunar í andstöðu við stjórnendur stofnunarinnar.

Við hina mikilvægustu sérfræðistofnun þjóðfélags okkar um efnahagsmál, sem á að vera til ráðuneytis ríkisstjórnum og Alþingi, Þjóðhagsstofnun, var ekki heldur haft samráð um samningu þessa frv. Þessi tvö helstu hjálpartæki íslenskra stjórnmálamanna sitja nú með hendur í skauti sínu. Til þeirra er vart leitað um mál sem hæstv. ríkisstj. þarf að leggja fyrir Alþingi. Upp kom því sú eðlilega spurning, og var þá vísað til fyrri yfirlýsinga þess manns sem nú er forsætisráðherra Íslands, hvort verið gæti að sú fræga kerling með svarta kassann, sem sótt var til útlanda á þeim tíma þegar hæstv. forsrh. var iðnrh. og fjallaði um vandamál Kröflu, væri nú orðin helsti efnahagsráðgjafi núv. ríkisstj. og veitti henni þær upplýsingar og þá aðstoð sem hún þyrfti á að halda við gerð frumvarpa um efnahagsmál. (HBl: Hún er fjölhæf, þessi.) Já, hún er nokkuð fjölhæf, en menn spurðu nú einkum og sér í lagi um það, a. m. k. stjórnarsinnar, í hvaða flokki hún væri. Ég held að það fari nú ekkert á milli mála að hún er í flokki hæstv. fjmrh.

Þá kom það einnig fram að forsvarsmenn viðskiptabanka og sparisjóða, sem á fundinum mættu, lögðust mjög gegn þeim greinum sem til þeirra taka, þ. e. 5 gr. frv., og fórn fram á, að þær greinar yrðu ekki lögleiddar, og lýstu yfir þeirri skoðun sinni, að þeir teldu að ákvæði greinarinnar væru ekki framkvæmanleg, og lýstu þeirri von sinni, að jafnvel þótt Alþingi kynni að leiða þær í lög með atfylgi meiri hluta stjórnarsinna mundi ekki koma til þess, að Seðlabankinn notaði þær heimildir, enda væri þeim það ljóst, forráðamönnum banka og sparisjóða, að stjórn Seðlabanka Íslands væri andvíg efni greinarinnar.

Einn af þeim, sem á fund n. komu, var verðlagsstjórinn. Hann tók það m. a. fram, skýrði frá því margítrekað, að framkvæmd á 1. og 2. gr., þar sem miðað er við að hæstv. ríkisstj. setji ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum, mundi verða þannig að þau ársfjórðungslegu meginmarkmið, sem hugsanlega yrðu sett, yrðu höfð til hliðsjónar þannig að almennar verðhækkanir í landinu mættu ekki fara fram úr þeim ársfjórðungslegu meginmarkmiðum sem sett yrðu, m. ö. o.: framkvæmdinni mundi verða hagað þannig, að ef talið væri nauðsynlegt og eðlilegt að veita einhverjum tilteknum aðila leyfi til verðhækkana umfram þessi ársfjórðungslegu mörk mundi það óhjákvæmilega bitna á öðrum, þá yrði óhjákvæmilega að þrýsta einhverri annarri umsókn niður.

Ég spurðist sérstaklega fyrir um hvernig mundi þá vera haldið á málum varðandi verðákvarðanir sem koma aðeins upp einu sinni á ári. Dæmi: Verðákvörðun á áburði, sem kemur til kasta verðlagsyfirvalda einu sinni á ári. Annað dæmi: Verðlag á þjónustu fyrir útlenda ferðamenn, sem tekin er ákvörðun um í upphafi ferðatímabilsins á vorin. Þriðja dæmi: Verðlag á steypu og byggingarefnum, sem tekin er ákvörðun um einu sinni á ari, á vori hverju. Svo ég nefni dæmi um verðhækkunarbeiðni af þessum toga liggur nú fyrir ríkisstj. beiðni um verðhækkun á áburðinum 85%. Og ég spurði: Hvernig verður farið að þegar kemur að því að taka ákvörðun um þessar verðhækkanir, sem ákvarðanir eru teknar um aðeins einu sinni á ári, en ekki ársfjórðungslega, og líkur eru á að þessar verðhækkanir, sem verða einu sinni á ári, verði að sjálfsögðu nokkuð fyrir ofan þau ársfjórðungslegu mörk sem ríkisstj. hefur sett um þann árstíma sem verðhækkun er tekin á? Verðlagsstjóri svaraði því og sagði: Það hlýtur auðsjáanlega að koma niður á örðum verðhækkunartilefnum, ef halda á sér við hin ársfjórðungslegu verðhækkunarmarkmið ríkisstj. — Þetta þýðir m. ö. o. að það gæti gerst að hæstv. ríkisstj. tæki ákvörðun um að verðhækkun á opinberri þjónustu yrði yfir ársfjórðungslegu mörkunum, t. d. verðhækkun hjá Pósti og síma, hjá SVR, á raforku, á hitaveitu o. s. frv. Sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. mundi síðan leiða til þess að verðlagsyfirvöld yrðu að leyfa minni verðhækkanir á þjónustu og vöru hjá einkaaðilum en annars mundi verða gert. Og verðhækkun eða þjónusta, sem leyfð yrði umfram mörkin — ríkisstj. hefur heimild til þess samkvæmt lögunum, — hjá einum einkaaðila mundi leiða til þess, að það yrði að taka ákvörðun um miklu minni verðhækkanir til annars, án tillits til þess, hvort nauðsynin, sem rökstudd er af báðum aðilum, sé jafnmikil eða ekki. Þetta mundi einnig leiða til þess, eftir þeim upplýsingum sem verðlagsstjóri gaf, að ef t. d. verðhækkunarkvótinn væri fullnýttur á miðju tímabili, á miðjum ársfjórðungi, yrðu verðlagsyfirvöld að frysta allar frekari verðhækkunarbeiðnir án tillits til nauðsynjarinnar.

Það kom fram síðar á fundi fjh.- og viðskn., sem haldinn var í gær, að að áliti Jónatans Þórmundssonar prófessors við lagadeild Háskóla Íslands væri slík framkvæmd brot á stjórnarskrá lýðveldisins þar sem þar væri verið að mismuna aðilum án tillits til nauðsynjar. Þarna gætu menn verið að mismuna tveim aðilum sem báðir gætu rökstutt sambærilega nauðsyn: veita öðrum leyfi, en neita hinum. Nú er það ekki hlutverk okkar alþm. að dæma um hvort hér er á ferðinni hugsanlegt stjórnarskrárbrot eða ekki. Prófessorinn tók fram að það væri ekkert í frv.-greininni sjálfri sem ótvírætt gæfi í skyn að um stjórnarskrárbrot kynni að vera að ræða, heldur mundi það ráðast af framkvæmdinni. Það er ekki hlutverk okkar alþm. að dæma um slík mál sem ég býst ekki við að samdóma álit lögfræðinga sé um. Það er hlutverk dómstóla. En mér er nær að halda af þeim fregnum, sem ég hef fengið, að ef framkvæmdin verður með þeim hætti sem verðlagsstjóri lýsti og raunar er vikið að í athugasemdum með frv. að verða muni, þá hljóti að verða tekið fyrir prófmál hjá einhverjum aðila um hvort líkur væru til að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða.

Ég vil taka það fram, að sama álit kom fram hjá lagaprófessornum varðandi 5. gr., að ef við framkvæmd hennar yrði innlánsstofnunum mismunað varðandi bindiskyldu innlánsfjár stæðist sú framkvæmd ekki ákvæði stjórnarskrár og mundi þá væntanlega verða felld úr gildi ef slík ákvörðun yrði borin undir dómstóla.

Það var hins vegar álit prófessorsins að efni 4. gr. væri fortakslaust stjórnarskrárbrot — það atriði 4, gr.ríkisstj. væri heimilt að lækka ríkisútgjöld um ótiltekna upphæð, þar með talin lögbundin framlög. Prófessorinn taldi að ef ætti að gefa handhöfum framkvæmdavalds heimild til að lækka framlög úr ríkissjóði sem bundin eru með sérstökum lögum, þá yrði löggjafinn að nefna hvaða lög það væru sem ríkisstj. væri heimilt að breyta með þeim hætti og með hvaða hætti ríkisstj. væri heimilt að breyta þeim lögum. Valdaafsal frá löggjafanum til framkvæmdavaldsins, eins og greinin gerir ráð fyrir, var að áliti lögfræðiprófessorsins fortakslaust stjórnarskrárbrot. Hæstv. forsrh., sem einni er fyrrv. prófessor í lögum við lagadeild Háskóla Íslands, var staddur á fundinum og andmælti skoðun Jónatans Þórmundssonar prófessors. Þannig er þó alla vega ljóst að þar standa orð eins prófessors í lögum gegn orðum annars. Er það þá væntanlega dómstóla að skera úr um hvor hafi réttara fyrir sér.

Flestir umsagnaraðilar, sem komu á fund fjh.- og viðskn., lögðust þannig gegn frv. eða drógu í efa að framkvæmd frv. fengi staðist. Sem viðnámsaðgerð gegn verðbólgu, sem frv. þetta er talið vera, er það hins vegar mjög léttvægt, enda er aðaltilgangur frv. að ýta óleystum vandamálum á undan sér fram yfir 1. maí n. k. Megintilgangurinn er að koma í veg fyrir eða fresta því, að ríkisstj. þurfi að taka nauðsynlegar ákvarðanir fyrr en eftir 1. maí. Eins og ég sagði hefur einnig komið fram í frásögnum ráðh. að engin samstaða er í ríkisstj. um nauðsynlegar ráðstafanir sem frv. tekur ekki til, og jafnframt hefur komið fram að samkomulag hefur enn ekki orðið um framkvæmd ráðstafana sem vikið er að í frv., svo sem um hver ársfjórðungsleg markmið í verðlagsmálum skuli vera, hvernig nýta skuli heimildir um sparnað í ríkisrekstri og hvort og hvernig auka skuli bindiskyldu innlánsfjár. Um þetta liggur ekkert fyrir þó svo að hæstv. ríkisstj. sé að óska eftir að Alþingi veiti sér heimild til að taka ákvarðanir um þessi efni.

Þegar ríkisstj. tók við völdum var í gildi svokölluð verðstöðvun í landinu. Sú verðstöðvun var ítrekuð með brbl. ríkisstj. um s. l. áramót. Engu að síður hefur verðbólgan orðið yfir 60% á fyrsta starfsári ríkisstj. Frv. þetta um verðlagsaðhald o. fl. er því þriðja tilraun ríkisstj. til að stöðva verðhækkanir, en sú þriðja tilraun mun reynast jafnilla þeim fyrri, enda er frv. ætlað að taka gildi á sama tíma og ríkisstj ákveður verulegar hækkanir á opinberri þjónustu, sem síðan verður fylgt eftir með almennum verðhækkunum. Eins og ég hef áður skýrt frá er þannig t. d. væntanleg um 20% hækkun á smásöluverði landbúnaðarafurða aðeins einum mánuði eftir gildistöku frv. Þessar verðstöðvunarfyrirætlanir ríkisstj. hafa mistekist og munu mistakast vegna þess að þær eru einangraðar aðgerðir, en ekki hluti af heildstæðri efnahagsstefnu og auk þess ekki í neinu samræmi við aðrar staðreyndir í íslensku efnahagslífi. Án raunsærrar efnahagsstefnu. sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn mótað, er auk þess hætta á alvarlegum atvinnubresti, en slíkur atvinnubrestur er nú þegar farinn að segja til sín á nokkrum stöðum á landinu og vil ég í því sambandi t. d. nefna iðnrekstur á Norðurlandi, við Eyjafjörð og víðar, þar sem þegar er um verulega atvinnuörðugleika að ræða. Þessir atvinnuörðugleikar munu fara í vöxt eða hætt við að þeir fari í vöxt ef ríkisstj. dregur að móta efnahagsstefnu sem gæti orðið atvinnulífinu í landinu lyftistöng frekar en orðið er. Frv. ríkisstj., sem hér er til umr., er því lítils virði. Það leysir ekki úr neinum þeim vandamálum sem stjórnvöld þurfa við að fást og með því er ekki búið einu sinni að ljúka viðfangsefnum sem frv. þó tekur til, því komið hefur fram, eins og ég hef áður lýst, að ríkisstj. hefur jafnvel ekki orðið ásátt um hvernig framkvæma skuli þó þau viðfangsefni sem frv. fjallar um. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstj. hins vegar lagt ofurkapp á að þetta marklitla frv. verði afgreitt fyrir 1. maí, og þm. Alþfl. munu ekki leggjast gegn því að svo geti orðið.