05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að ég nýt sjálfsagt ekki stuðnings hv. þm. sem ráðh. í þessari ríkisstj. Það er ekkert nýtt þó að það komi fram af hans hálfu að hann vilji að allir ráðh. segi af sér.

Varðandi það atriði, sem hér er til umr., vil ég aðeins vísa til þess, sem kom fram í svari Seðlabankans, þegar hann var spurður um hvernig hægt væri að framkvæma þá þál. sem hér var rædd. Ég tek ekki undir það með hv. þm., að þál. og lög séu það sama, þar er langur vegur frá. (Gripið fram í.) En í svari Seðlabankans segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þess samhengis, sem er milli rekstrar- og afurðalána, verður að telja æskilegast að lántakandi sé í báðum tilfellum sá sami, og er þá komið að síðari leið sem bankarnir mæla með, að sláturleyfishafar eða umboðsmenn þeirra verði áfram lántakendur líkt og verið hefur. En andvirði lánanna mætti ráðstafa að fyrirmælum lántakenda á þann hátt sem áður er lýst um afurðalán. Með því móti telja fleiri að tryggja megi að tilgangi þál. verði náð, þ. e. að bændur fái í hendur þá fjármuni sem þeim eru ætlaðir um leið og lánin eru veitt.“

Í þessu felst það álit Seðlabankans og fleiri, að með þessu sé hægt að ná tilgangi þál. Sennilega er erfitt að komast nær því að framkvæma hana. Og það hlýtur að vera aðalatriðið. Það er það sem ég hef verið að vinna að og mun vinna að, að þeim tilgangi, sem felst í þessari þál. Alþingis verði náð. (EKJ: Þ. e. að breyta engu.)