07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4068 í B-deild Alþingistíðinda. (4185)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. það má vera að oft hafi verið beðið um frestun á þessu máli af einhverjum þm. hér í deildinni. Ég vil þó taka fram að ég hef ekki beðið um frestun á málinu. Ég var tilbúinn að ræða það eftir að n. hafði skilað störfum, eins og hæstv. forseti tiltók, 18. eða 19. mars. Það hefur því staðið á einhverjum öðrum fremur en mér að ræða málið. En ég tel ótækt að taka hér upp þá siði í þinginu að ræða mál — ég tala nú ekki um deilumál — að flm. fjarstöddum. Ég ítreka því enn ósk um það, að þetta mál verði ekki tekið til umr. hér í þinginu nema flm. málsins sé viðstaddur, því að vissulega þó að n. hafi skilað áliti, fengið umsagnir, þá getur verið ýmislegt sem þm. vilja spyrja flm. um og ræða við hann hér í þinginu.

Ég ítreka að ég óska þess sérstaklega, að málið verði ekki rætt fyrr en hæstv. sjútvrh. sem flm. málsins er hér viðstaddur og getur tekið þátt í umr.