08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (4305)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Sigurgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til að lýsa stuðningi mínum við þetta lagafrv. Þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa ekki tekið þátt í þessari umr. hingað til og ég tel það miður. Þetta er atriði sem er mjög mikið hitamál í því kjördæmi og ég tel að kjósendur okkar eigi rétt á að vita okkar hug til málsins á þessu stigi.

Ástæðan fyrir því, að ég styð þetta mál, er einfaldlega sú, að ég hef undanfarin ár gert mér far um að kynna mér helstu rök málsins, bæði með og móti, og hef átt margar og mjög ítarlegar viðræður við þann fiskifræðing sem mest er við þessi mál bendlaður, Aðalstein Sigurðsson, og ég hef viljað gera og gert hans rök að mínum þegar ég hef rætt við mína kjósendur, bæði hér á innnesjum og eins á Suðurnesjum. Það skal þó skýrt tekið fram, að mjög margir af þeim hafa ekki fallist á þessi rök og komið með gagnrök, en ég tel að skýringar og rök Hafrannsóknastofnunar séu það yfirgnæfandi og yfirþyrmandi í þessum málum að ekki sé hægt að ganga fram hjá þeim.

Ég tel að Faxaflói sé mjög vel kannaður og þær tilraunaveiðar, sem hafa verið stundaðar undanfarin tvö sumur, hafi farið mjög vel af stað. Þetta frv., sem hér liggur frammi, gerir einnig ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi mjög strangt eftirlit með þessum veiðum framvegis svo og að aflamagn, veiðitími og veiðisvæði verði takmörkuð.

Eins og við sjáum af þeim kortum, sem fylgdu grg. Hafrannsóknastofnunar, er það tiltölulega mjög þröngt svæði í Faxaflóa sem hægt er að stunda þessar veiðar á. Allar víkur og innsvæði eru friðuð og dragnótaveiðar, eins og við vitum, eru ekki stundaðar á hraununum, — a. m. k. tel ég að það sé lítill möguleiki til að það sé hægt. Við skulum athuga að veiðar eru mismunandi kostnaðarsamar. Til þessara veiða eru notuð skip sem henta illa til annarra veiða, en geta þó skilað af sér góðum arði við þær veiðar sem hér um ræðir. Mér er kunnugt um að a. m. k. þrír af þeim bátum, sem hafa stundað þessar veiðar undanfarin ár, eru orðnir yfir 50 ára gamlir og hafa skilað sínu hlutverki fyrir löngu miðað við önnur skip, en færa nú að landi verulega mikinn afla og það mikinn að hann jafnast að verðmæti á við afla fjögurra eða fimm sinnum stærri báta með miklu stærri áhöfn.

Eins og réttilega hefur verið bent á skapar þetta mjög mikla vinnu í landi, þrátt fyrir flökunarvélarnar sem eru forsenda þess að hægt sé að nýta aflann. Í Njarðvíkum einum, þar sem ég hef kynnt mér þetta, er talið að um 40–50 manns, konur og unglingar, hafi vinnu yfir sumarið við nýtingu aflans, og segja mér frystihúsamenn þar að þetta sé mjög góð vinnsla og mjög góð markaðsvara. Eins mun það vera hér á innsvæðinu, að Ísbjörninn hf., sem hefur stundað þessa vinnslu, alla vega s. l. sumar, hefur látið mjög vel af henni og hyggst halda henni áfram ef unnt verður.

Það er rétt að geta þess, að heilfrystur koll er ekki sérlega góð verslunarvara eða í háu verði, og má vera að koli hafi aldrei verið fiskaður í það miklum mæli utan þessa svæðis að það hafi þótt taka því að koma upp vélvæddum húsum til að gera vinnsluna hagkvæma.

Ég held að það sé engin spurning um það, að kolinn er langbestur á þeim tíma sem hann heldur sig í Faxaflóa. Hann er feitastur og hann er bestur og það er tiltölulega best að vinna hann og þannig vilja okkar viðskiptaþjóðir fá hann. Þær vilja fá feitan flakaðan kola. Slík vara er góð söluvara í hvaða landi sem er.

Meðan allar fisktegundir, sem synda í sjó hér við Ísland, sem við a. m. k. höfum nýtt til þessa eða þekkjum, eru ofveiddar, en þarna eigum við stofn sem er vannýttur, er ekki vansalaust að gera ekki það sem hægt er innan skynsamlegra marka til að nýta þennan stofn.

Ég ætla ekki að teygja úr þessum umr., herra forseti. Ég mun styðja þetta frv. Ég verð að horfa framan í mína umbjóðendur og gera þeim grein fyrir því þegar þar að kemur. Ég veit að margir eru mér sammála, sumir eru það ekki, en þarna er eins og svo oft áður, að hver verður að láta eigin dómgreind ráða, taka þau gögn, sem fram eru lögð, og draga af þeim ályktanir. Þær sýnast mér í þessu tilfelli ekki geta verið nema á einn veg.