12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4259 í B-deild Alþingistíðinda. (4359)

50. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að ég var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins í hv. n. Það var orðið, að ég best vissi, algjört samkomulag innan n. um hvernig þetta mál skyldi afgreitt. Formlega átti eftir að setja stimpilinn á það í n. og vissulega hefði ég talið æskilegra að geta verið viðstaddur þennan síðasta fund sem afgreiddi málið. En það er ekkert aðalatriði. Menn voru sammála um þetta.

Ég þakka hv. þm. Garðari Sigurðssyni, form. og frsm., n., fyrir fögur orð og kærleiksríkt hugarfar í minn garð að vísu vona ég verðskulduð, og vil aðeins ítreka það, að ég er algjörlega sammála um mikilvægi þessa máls. Vissulega hefðu sumir hverjir nm. kannske viljað ganga lengra en við endanlega afgreiðslu n. varð. En ég tel þó að hér sé nokkuð fengið með afgreiðslu málsins eins og n. gekk frá því og hér er lagt til.