12.05.1981
Neðri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4270 í B-deild Alþingistíðinda. (4376)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Hv. þm. Garðar Sigurðsson ræddi hér nokkuð um þetta mál, og það má raunar segja að kjarni hans máls væri sá að hann segði: Við eigum að halda okkur við staðreyndir og náttúran sjálf verndar flóann.

Ég tek undir með hv. þm. þegar hann segir að við eigum að halda okkur við staðreyndir. Og hverjar eru staðreyndirnar í þessu máli? Það er staðreynd, að meðan Faxaflóinn var opinn fyrir dragnót var komið á það stig að það var orðinn algjör ördeyða í flóanum. Strax og lokað var fyrir dragnót tók þegar að bera á því að fiskur gengi í flóann og afli glæddist. Þetta eru þær staðreyndir sem eru óvefengjanlegar hvað sem fiskifræðingar eða aðrir talsmenn þess að opna fyrir dragnót segja. Þetta eru þær staðreyndir sem ekki verður gengið fram hjá.

Hv. þm. sagði líka: Náttúran sjálf verndar flóann. Hefur náttúrulíf í flóanum eitthvað breyst núna á þann veg að náttúran sjálf komi í veg fyrir að dragnótin gjöreyði öllu lífi í flóanum. Hún gerði það meðan það var leyft að vera með hana þar, og án þess að ég viti mikið um sjávarlíf og sjávargróður í Faxaflóa hef ég ekki trú á að nokkuð hafi breyst þar þannig af náttúrunnar hálfu að hún sé betur til þess fær núna að vernda flóann og uppeldisstöðvar fisks þar heldur en hún var áður, meðan dragnótin gjöreyddi öllu lífi þar. Eina ráðið til þess að það verði fiskur í flóanum er því að draga úr dragnótaveiðum og loka honum fyrir dragnótaveiðum.

Ýmislegt í tali hv. þm. Garðars Sigurðssonar áðan og raunar fyrr um þessi mál minnti mig á að það er staður sem þeim hv. þm. er mjög hugleikinn, a. m. k. oft og tíðum, Vestmannaeyjar, þar sem margir hverjir vilja geta stundað dragnótaveiðar upp í kálgarða og hafa gert lengi. Garðar er einmitt talsmaður þess hóps í þjóðfélaginu sem vill helst geta komist upp í kálgarða með dragnót. Það er það sjónarmið sem hann er að innleiða hér á Alþingi og að Alþingi eigi að fara eftir.

Það er alveg öruggt mál, að þó að sumum hverjum og þar með hv. þm. Garðari Sigurðssyni þyki ekki stórt skref stigið með þessu frv., þá er með þessu frv. verið að stíga byrjunarskref til rányrkju í flóanum. Það er verið að opna leiðina til þess að ganga enn þá lengra næst og stunda þar með rányrkju eims og hún var stunduð þegar verst gegndi. Og það er annað með þetta frv. eins og allt of mörg frv. hér á Alþingi, að tiltölulega saklaus kannske og lítill lagatexti er í frv., en síðan á útfærslan að vera í reglugerð í höndum embættismannanna sem eiga að ráða ferðinni. Það hefur sýnt sig að í mörgum tilvikum fara reglugerðir þvert á það sem löggjafinn eða lögin ætlast til. Það er þetta sem ég held að þingmenn og Alþingi þurfi að fara að gefa frekari gaum en gert hefur verið. Lagatextinn sjálfur er orðið lítið brot af því sem síðar kemur úr höndum embættismanna til útfyllingar í reglugerðum og er orðið allt of mikils ráðandi með framkvæmd og stjórnun mála í landinu, en ekki lögin sem slík. Þetta er einn anginn af því að Alþingi og alþm. eru í æ ríkari mæli að afsala sér því valdi, sem Alþingi á að hafa, í hendurnar á embættismönnum til þess að ráðskast með það að eigin geðþótta. Af því er nóg komið.

Ég tek undir það sem þeir hafa sagt hér, nokkrir hv. þm.: Í þessu tilviki eru það sporin sem hræða. Við höfum staðreyndirnar fyrir augum og það er það sem menn eiga að sjálfsögðu að taka tillit til, það eru staðreyndir þeirra mála sem fyrir liggja. Ég trúi því ekki, að hv. þm. Garðar Sigurðsson, jafnvel hann, jafnvel hv. þm. Garðar Sigurðsson, sé ánægður með að í þessu tilfelli gangi Hafrannsóknastofnunin þvert á þann vilja sem Alþingi hefur lýst yfir í málinu. Ég trúi því ekki, að hann sé samþykkur því að Hafrannsóknastofnun leggi blessum sína yfir veiðarfæri sem er með 155 mm möskvastærð þegar á að nota 170 mm möskvastærð. Það er þetta sem hefur gerst. Og þetta er líka til þess að hræða menn í því að opna um of dyrnar, jafnvel upp á gátt, fyrir því að þessir herrar í sérfræðingastétt ráði svo til öllu um meðferð eða gang mála þó að það sé beinlínis í andstöðu við það sem Alþingi vill.

Ég held að þm. ættu að fara að gefa meiri gaum að því að taka málin í eigin hendur og ráða þeim, en ekki veita sérfræðingum og embættismönnum í kerfinu allt það vald sem þeim hefur nú þegar verið veitt og mér sýnist vera ætlunin að veita þeim í æ ríkara mæli, t. d. með þessu frv. Ég skal ekki, herra forseti, hafa fleiri orð um þetta. En ég vona að þó að allt of margir hv. þdm. hafi glapist til þess við atkvgr. við 2. umr. þessa máls að ljá þessu máli fylgi, þá hafi þeir nú séð að sér, hugleitt málið betur, sannfærst um að hér er verið að stíga óheillaspor ef þetta frv. verður samþykkt, spor sem verður erfitt að taka til baka og þar með erfitt að koma í veg fyrir að enn frekari rányrkja verði viðhöfð á þessu svæði en þó þegar hefur verið framkvæmd.