13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (4401)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, að auðvitað er það fagnaðarefni fyrir alla, að ég held ég megi segja, og ekki síst þá sem eiga nokkrar rætur úti í hinum dreifðu byggðum, að hér skuli stefnt að lögfestingu á dreifingu sjálfvirks síma. Ég tek sérstaklega undir það sem hann sagði hér varðandi röskun á áætlun slíkrar símalagningar um sveitir landsins á síðustu árum, þ. e. að verðhækkanir, sem hafa leitt til aukins rekstrarkostnaðar hjá Pósti og síma, hafa komið niður á framkvæmdum og alveg sérstaklega þeim framkvæmdum sem hafa átt að eiga sér stað í sveitum landsins. Má þar sérstaklega rifja upp afgreiðslu síðustu fjárlaga þar sem vegna rekstrarhækkana hjá Pósti og síma á s. l. ári varð að skera niður framkvæmdaráætlun hans, að því er mig minnir, um 4 milljarða gkr. Það mátti segja að sjálfvirki síminn í sveitir landsins væri þar skorinn niður við trog þar sem í rauninni voru einungis teknar inn á framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár þær sveitabyggðir sem höfðu verið á áætlun árið áður. En ég vænti að gera megi ráð fyrir að í blað verði brotið í þessari bók og að einhvers megi nú vænta af þessu frv.

En ég verð að segja það eins og er, að ég varð að því leyti fyrir vonbrigðum með ræðu frsm. að mér virtist hún ganga að nokkru á þær yfirlýsingar sem hæstv. samgrh. gaf hér við fyrri umr. En þá spurðist ég fyrir um það, og reyndar hæstv. forseti þessarar deildar einnig, hvort sá tollaafsláttur, sem lögin gera ráð fyrir, kæmi til framkvæmda frá og með þeim degi sem lögin yrðu samþykkt á Alþingi. Þessu svaraði hæstv. samgrh. þannig, að það væri skoðun hans að svo ætti að verða. Við höfum heyrt frá því sagt hér og því lýst, hvað þessir liðir eru einmitt stór þáttur í efniskostnaði, þannig að það skiptir mjög verulegu máli hvort það er skilningur hæstv. samgrh., sem hann lét í ljós hér við 1. umr., sem er látinn ráða eða hvort þessi lagaákvæði koma ekki til framkvæmda fyrr en í upphafi næsta árs, þ. e. hvort þetta nær til þess efnis sem verður keypt á þessu ári og ekki er búið að leysa út og verður að sjálfsögðu að verulegum hluta notað á næsta ári eigi að síður því að auðvitað eru þessi efniskaup engan veginn hnitmiðuð við áramót.

Ég bókstaflega óttast það á vissan hátt, að ef þessi ákvæði eru ekki látin taka gildi nú þegar, þ. e. um leið og lögin öðlast gildi, verði það til þess að draga frekar úr framkvæmdum á þessu ári, m. a. vegna þess að nokkur hluti af þeim framkvæmdum, sem á að vinna í ár, er unnin fyrir lánsfé heiman að. Sveitarfélögin hafa leitast við að þoka þessum málum áfram með lánum og hefur það verið mikilvægur stuðningur við þessar framkvæmdir. Ef hins vegar fyrir liggur, að efni verður stórum hagstæðara í verði eftir næstu áramót en það er á síðari hluta þessa árs, dregur það að sjálfsögðu úr hvatningu til þess að koma þessum málum áfram, bæði varðandi afstöðu sveitarfélaganna og líka hjá Pósti og síma. Ef lögin verða túlkuð eins og hæstv. samgrh. gerði verður það þannig til þess að flýta framkvæmdum og auðvelda þær á þessu ári, en það tel ég mikilvægt. Ef tollaafslátturinn kemur hins vegar ekki fram fyrr en á næsta ári hefur þessi lagasetning fremur neikvæð áhrif fyrir framkvæmdir þessa árs. En ég tek undir að það er jafngóðra gjalda vert fyrir málið í heild þegar frá líður. Ég vildi þess vegna mjög ákveðið fá þetta skýrar fram og leggja á það áherslu að sá skilningur verði við þessa afgreiðslu alveg skýr að tollaafslátturinn eigi að taka gildi um leið og lögin hafa verið staðfest.